Seðlabankastjóri verði skipaður til fimm ára í senn, að hámarki tvisvar.
Seðlabankastjóri verði skipaður til fimm ára í senn, að hámarki tvisvar. — Morgunblaðið/Ómar
Efnahagsmál Sextán aðilar sækjast eftir að verða bankastjórar Seðlabanka Íslands, fjórtán karlar og tvær konur, en listi umsækjenda var birtur í gær á vef forsætisráðuneytisins.

Efnahagsmál

Sextán aðilar sækjast eftir að verða bankastjórar Seðlabanka Íslands, fjórtán karlar og tvær konur, en listi umsækjenda var birtur í gær á vef forsætisráðuneytisins.

Um embættið sóttu: Arnór Sighvatsson, ráðgjafi seðlabankastjóra, Ásgeir Jónsson, dósent og forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, Ásgeir Brynjar Torfason, lektor við Háskóla Íslands, Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Gunnar Haraldsson, hagfræðingur, Gylfi Arnbjörnsson, hagfræðingur, Gylfi Magnússon, dósent, Hannes Jóhannsson, hagfræðingur, Jón Daníelsson, prófessor, Jón G. Jónsson, forstjóri bankasýslu ríkisins, Katrín Ólafsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík, Salvör Sigríður Jónsdóttir, nemi, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri, Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar í Seðlabanka Íslands, Vilhjálmur Bjarnason, lektor og Þorsteinn Þorgeirsson, sérstakur ráðgjafi á skrifstofu seðlabankastjóra.

Þrír varaseðlabankastjórar

Í drögum að frumvörpum sem forsætisráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið birtu á samráðsgátt stjórnvalda, og sagt var frá í Morgunblaðinu fyrr í mánuðinum, er lagt til að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið verði sameinuð í eina stofnun. Þá er lagt til að forsætisráðherra skipi seðlabankastjóra til fimm ára í senn, að hámarki þó tvisvar sinnum og þrjá varaseðlabankastjóra einnig til fimm ára í senn og að hámarki tvisvar sinnum. „Einn leiðir málefni er varða peningastefnu, einn leiðir málefni er varða fjármálastöðugleika og einn leiðir málefni er varða fjármálaeftirlit. Varaseðlabankastjórar fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits eru skipaðir eftir tilnefningu fjármála- og efnahagsráðherra,“ segir í skýringum með frumvörpunum.