Hornbjarg Sam Oakes myndar á bjargbrúninni í átt til sjávar, Jörundur og Kálfatindur í baksýn.
Hornbjarg Sam Oakes myndar á bjargbrúninni í átt til sjávar, Jörundur og Kálfatindur í baksýn. — Ljósmynd/Ester Rut Unnsteinsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Margbreytileikinn réð ríkjum á Hornbjargi í ferð kvikmyndagerðarfólks þangað í síðustu viku. Blítt veður eins og gerist best á þessum árstíma, en líka stórhríð og stormur.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Margbreytileikinn réð ríkjum á Hornbjargi í ferð kvikmyndagerðarfólks þangað í síðustu viku. Blítt veður eins og gerist best á þessum árstíma, en líka stórhríð og stormur. Þegar haldið var frá Horni síðasta laugardag þurfti að sæta lagi svo hægt væri að ferja fólk og rándýran búnað í gúmmítuðru út í bátinn, sem kominn var frá Ísafirði.

Reyndar tafðist heimferð aðeins því báturinn sem átti að sækja þennan fimm manna hóp hafði strandað í Lónafirði í Jökulfjörðum. Í hans stað var fenginn bátur frá öðru fyrirtæki til að flytja mannskap og farangur frá Horni til Ísafjarðar.

Ester Rut Unnsteinsdóttir, spendýravistfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands og formaður stjórnar Melrakkasetursins í Súðavík, tók þátt í ferðinni og segir að myndatökur hafi gengið vel og refurinn hafi virst vel haldinn eftir veturinn.

Svartfugl hafi þó ekki sést í neinum mæli, lítið eitt af ritu á sjónum og aðeins fýllinn verið sestur upp í bjargið. Lítið virtist af æti fyrir refina í fyrstu en eftir að brim hafði gengið yfir var nokkuð af vönkuðum æðarfugli í flæðarmálinu. Refurinn hafi tekið fæðunni fegins hendi og steggurinn ýmist grafið hann í skafla eða fært læðunni. Sjálfur hafi hann ekki bragðað á kræsingunum og verið heldur mjósleginn.

Gamlir kunningjar

Ester er á heimavelli á Hornströndum og hefur lengi stundað þar rannsóknir. „Þarna hittum við nokkra gamla kunningja úr refahópnum,“ segir hún. „Fyrst sáum við bara eitt par og þar var pörun í gangi, en eftir því sem dagarnir liðu sáum við fleiri. Eftir að parið hafði makast hlupu þau hringi í kringum óðalið og merktu útjaðar þess skilmerkilega, þannig að gulir blettir voru við allt sem stóð upp úr snjónum. Í framhaldinu sáum við að hinir refirnir virtust virða þessi mörk og hættu að fara yfir einhverja ósýnilega línu.

Við sáum þetta sama par í fyrra og þá voru þau greinilega að byrja saman. Þá lét læðan stegginn elta sig tímunum saman, greinilega til að kanna þrek hans og úthald. Núna var hún mikið í því að snyrta hann og narta í hálsakot. Allt var miklu nánara og hann lygndi aftur augunum af vellíðan. Eins konar aðdragandi að því þegar hún loks gaf merki um að hún væri tilbúin til mökunar.

Annað par sem sást til ofar í bjarginu virtist ekki eins mikið fyrir nána samveru. Þau fylgdust þó að og virtust einnig vera að merkja landamæri síns óðals. Steggurinn hafði slasað sig á vinstri afturfæti og steig ekki í hann. Fóturinn hefur líklega brotnað og gróið vitlaust þannig að hann stóð út í loftið. Hann náði þó góðri ferð þó ekki notaði hann nema þrjá fætur. Læðan hafði skjannahvítar og hreinar vígtennur en allar framtennurnar vantaði í neðri góm. Þetta virtist þó ekki há þeim, bæði litu út fyrir að vera hraust enda enn á lífi á þessum árstíma og óðalsbændur í þokkabót.“

Hörkulegt líf hjá refnum

Ester segir að kvikmyndatökumennirnir séu frá skoska fyrirtækinu Maramedia, sem vinni að sjónvarpsþáttaröð undir heitinu Stormborn . Eins og frá var greint í Morgunblaðinu nýlega er talsvert um að hópar óski eftir leyfi til að mynda refinn á Hornströndum. Skoska fyrirtækið hefur fengið leyfi til að koma nokkrum sinnum í ár til að fylgjast með refunum. Ester segir að gestirnir hafi verið ánægðir með það sem þeir sáu og söguna sem þeir náðu að mynda í stórbrotinni náttúru Hornstranda.

„Þetta er hörkulegt líf hjá refnum, sem á sér þó ótrúlega margar hliðar,“ segir Ester.