Uppgjör FH og Valur mætast á laugardag í fyrsta sinn síðan FH hafði betur í viðureign liðanna í úrslitaleik bikarkeppninnar í byrjun mánaðarins. Bjarni Ófeigur Valdimarsson, fyrrverandi Valsmaður, sækir hér að Alexander Erni Júlíussyni.
Uppgjör FH og Valur mætast á laugardag í fyrsta sinn síðan FH hafði betur í viðureign liðanna í úrslitaleik bikarkeppninnar í byrjun mánaðarins. Bjarni Ófeigur Valdimarsson, fyrrverandi Valsmaður, sækir hér að Alexander Erni Júlíussyni. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
19. umferð Ívar Benediktsson iben@mbl.is Lokasprettur Olísdeildarinnar í handknattleik er fram undan. Þrjár umferðir verða leiknar á viku frá og með næsta laugardegi.

19. umferð

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Lokasprettur Olísdeildarinnar í handknattleik er fram undan. Þrjár umferðir verða leiknar á viku frá og með næsta laugardegi. Öll liðin eiga að koma í mark á sama tíma vegna þess að leikir lokaumferðarinnar hefjast á þeim sérstaka leiktíma klukkan 19 laugardaginn 6. apríl. Haukar eru í kjörstöðu. Þeir tróna á toppnum, eru þremur stigum á undan Selfossi. Kálið er þó ekki sopið hjá Hafnarfjarðarliðinu, sem m.a. mætir Val í lokaumferðinni í Schenker-höllinni.

Mörgum er eflaust í fersku minni spennan í lokaumferðinni á síðasta ári þegar þrjú lið áttu möguleika á að hreppa deildarmeistaratitilinn áður en flautað var til leiks. Svo fór að ÍBV vann eftir dramatískan eins marks sigur á Fram sem dugði til að vinna deildina með sama stigafjölda og Selfoss og FH.

Sem fyrr segir eru Haukar efstir með 31 stig. Selfoss hefur 28, Valur 27 og FH er í fjórða sæti með 25 stig. Talsvert þarf að ganga á til þess að þessi fjögur lið endi ekki í efstu sætunum fjórum. Fjögurra stiga munur er á FH í fjórða sæti og ÍBV í fimmta sæti. Leikmenn ÍBV hafa verið á miklu skriði undanfarnar vikur. Þeir eiga eftir að mæta KA nyrðra, Haukum í Eyjum og Fram í lokaumferðinni í Safamýri eins og fyrir ári.

Stjarnan, KA, ÍR og Fram berjast síðan í tvö síðustu sætin í úrslitakeppninni. Sennilega mega leikmenn Akureyrar handboltafélags þakka fyrir takist þeim að halda sæti sínu í Olísdeildinni. Grótta situr á botninum og á vægast sagt veika von um að forðast fall úr deildinni.

Stórleikur á Akureyri

Akureyri handboltafélag tekur á móti Stjörnunni í Íþróttahöllinni á Akureyri á sunnudaginn. Akureyringar verða að vinna leikinn til að forðast falla úr deildinni. Á hinn bóginn fer Stjarnan langt með að tryggja sæti í úrslitakeppninni með sigri.

Haukar leika við Aftureldingu á laugardaginn, sækja Eyjamenn heim á miðvikudaginn eftir viku og taka á móti Valsmönnum í lokaumferðinni.

Leikmenn Selfoss sækja Fram heim á laugardaginn, taka síðan á móti Gróttu eftir viku og mæta Stjörnunni í Garðabæ í lokin.

Liðin í þriðja og fjórða sæti, Valur og FH, leiða saman hesta sína á heimavelli Vals á sunnudaginn. Um er að ræða uppgjör liðanna um þriðja sæti deildarinnar þar sem Valur hefur nú tveggja stiga forskot á FH-inga. Eftir það taka Valsmenn á móti KA í næstu viku og sækja Hauka heim í lokaumferðinni, eins og fyrr er getið.

Auk leiksins við Val í þá á FH eftir að leika við Akureyri í Kaplakrika og áður en Hafnfirðingar sækja KA heim í lokaumferðina.

Stjarnan er líklegust til að halda sjöunda sætinu og mæta þar með annaðhvort Selfossi eða Val í lokaumferðinni. Stjarnan getur vel náð fjórum stigum úr síðustu þremur leikjunum, gegn Akureyri á útivelli, ÍR á útivelli og á móti Selfossi á heimavelli.

KA er með 15 stig og á erfiðustu leikina eftir af liðunum sem eiga raunhæfasta möguleika á að ná tveimur síðustu sætunum í úrslitakeppninni. KA fær ÍBV í heimsókn á laugardag, fer síðan suður á miðvikudag og leikur við Val og tekur síðan á móti.

ÍR er líklegast til þess að krækja úrslitakeppnissæti. ÍR-ingar eiga aðeins eftir leiki við liðin í neðri hlutanum. Reyndar eru tveir leikir af þremur á útivelli, gegn Gróttu á laugardag og á móti Stjörnunni í næstsíðustu umferð áður en kemur að heimaleik við Akureyri. Með fjórum sigrum fer ÍR örugglega í úrslitakeppnina.

Framarar þurfa að leika út öllum trompunum í lokaleikjum sínum til þess að eiga einhvern möguleika á sæti í úrslitakeppninni. Þeir verða nánast að vinna alla leikina. Sennilega mun ekkert annað duga. Fram tekur á móti Selfossi á laugardaginn, fer í heimsókn til Aftureldingar á miðvikudaginn eftir vikur og leikur við ÍBV í lokaumferðinni. Guðmundur Helgi Pálsson og lærisveinar í Fram klifu þrítugan hamarinn fyrir tveimur árum. Hver segir að þeir geti ekki endurtekið leikinn?