Landsvirkjun hefur reist tvær tilraunavindmyllur við Búrfell, sem sýnt hafa mjög góðan árangur. Lundurinn var færður vegna ásýndaráhrifa.
Landsvirkjun hefur reist tvær tilraunavindmyllur við Búrfell, sem sýnt hafa mjög góðan árangur. Lundurinn var færður vegna ásýndaráhrifa. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Einkafjárfestar hafa sýnt aukinn áhuga á uppbyggingu á vindmyllum og smávirkjunum hér á landi á síðustu mánuðum að sögn framkvæmdastjóra Mannvits.

Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri verkfræðifyrirtækisins Mannvits, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að áhugi einkafjárfesta á því að fjárfesta í virkjunum hér á landi, bæði vindorkuverum og smærri vatnsaflsvirkjunum, hafi farið vaxandi síðustu tólf mánuðina. „Það eru margir litlir virkjunarkostir víða um land sem þykja áhugaverðir, og það hafa margir áhugasamir aðilar leitað til okkar undanfarið sem vilja fjárfesta,“ segir Örn.

Spurður að því hvað ráði þessum aukna áhuga segir Örn að mögulega sé það aukinn þrýstingur alþjóðlega á að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti. „Þá líta menn til grænni leiða, og hér á Íslandi eru mjög mörg tækifæri til umhverfisvænnar framleiðslu. Víða í Evrópu hafa menn fullnýtt getu sína til að framleiða raforku með vatnsafli, en í Austur-Evrópu eru þó enn talsverð tækifæri í nýtingu jarðvarma til orkuframleiðslu.“

Aðspurður segir Örn að verkefni er snúa að orkuframleiðslu séu allt að þriðjungur af ársveltu Mannvits, en það sveiflist aðeins á milli tímabila.

„Við erum að vinna núna að nokkrum vindorkuverkefnum á mismunandi stigum. Við höfum unnið með Landsvirkjun að undirbúningi vindorkugarðsins við Búrfell, og þá erum við að vinna með EM Orku í Garpsdal í Reykhólahreppi m.a.“

Hagkvæmni að aukast

Örn segir að hagkvæmni í virkjun vindorku sé að aukast, sem skipti miklu máli fyrir framhaldið hér á landi. „Þetta er að gerast með þróun í tækninni á bak við vindmyllurnar. Svo hafa tilraunavindmyllur Landsvirkjunar við Búrfell sýnt mjög góðan árangur. Þær eru með nýtingarhlutfall uppá 50%, sem gefur til kynna að það séu miklir möguleikar á að nýta þessa orku til framtíðar. Vindmyllur eru að verða samkeppnishæfur kostur í orkuframleiðslu hér á landi.“

Hann bendir á að vindmyllurnar séu tiltölulega einfaldar í uppsetningu. „Þegar hugað er að uppsetningu vindmyllugarðs þarf yfirleitt vindmælingar í tvö ár til að tryggja að vindmagnið sé rétt. Það er sami tími og að jafnaði fer í alla leyfisferla. Þetta er því hægt að klára samtímis. Þegar allt þetta er klárt er uppsetning tiltölulega fljótleg.“

Afturkræf aðgerð

Vindmyllur hafa það fram yfir suma virkjunarkosti að þær eru afturkræf aðgerð. „Þær er hægt að taka niður án þess að það hafi afgerandi áhrif á umhverfið. Það skiptir máli.“

Mannvit starfrækir sérstakan faghóp innan fyrirtækisins sem sér um að meta umhverfisáhrif framkvæmda. Meðal þess sem metið er í svona verkefnum er sjónmengun og áhrif á dýralíf. „Verkefni eru metin með tilliti til landslags og ásýndar meðal annars. Sem dæmi þá tók Landsvirkjun þá ákvörðun að færa vindmyllulundinn við Búrfell, m.a. til að draga úr ásýndaráhrifum. Svo þarf að huga að fuglalífi, fornleifum og gróðri, til dæmis.“

Örn bætir við að vindmyllur geti verið öflugur kostur við orkuframleiðslu. „Ef ein vindmylla framleiðir 3MW af orku geta fimmtán vindmyllur saman í garði framleitt orku á við góða vatnsaflsvirkjun.“