Ingunn Sigurrós Guðbrandsdóttir fæddist á Broddanesi í Strandasýslu 29. september 1928. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum í Reykjavík 31. mars 2019.

Foreldrar hennar voru Guðbrandur Benediktsson, f. 1897, d. 1979, bóndi á Broddanesi, og eiginkona hans Ingunn Þorsteinsdóttir, f. 1897, d. 1998.

Alsystkini Ingunnar eru: Sigurður, f. 1927, d. 1928, Björn, f. 1930, Þorsteinn Helgi, f. 1931, Benedikt, f. 1933, Sigurður Yngvi, f. 1934, og Sigríður, f. 1936, d. 2017. Hálfsystur hennar samfeðra voru: Sigrún, f. 1904, d. 1981, Matthildur, f. 1921, d. 2008, og Sigurbjörg, f. 1923, d. 1984.

Ingunn giftist Þorsteini Gunnarssyni, f. 1917, d. 1989, árið 1960. Þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Ingunn Sigríður, f. 1962, maki Þórhallur Ólafsson, f. 1959. 2) Tryggvi, f. 1964, fyrri kona Hafdís Viggósdóttir, f. 1967, dóttir þeirra er a) Alexandra Sif, f. 1995, seinni kona Erla Dögg Ingjaldsdóttir, f. 1973, dætur þeirra eru a) Carmen Inga, f. 2002 b) Andrea Reyn, f. 2006.

Ingunn tók barnaskólapróf í sveitinni sinn og stundaði nám við húsmæðraskólann á Löngumýri í Skagafirði veturinn 1946-47. Hún vann við bústörf hjá foreldrum sínum og vann um tíma í Reykjavík við ýmis störf. Árið 1959 flutti Ingunn að Núpi í Dýrafirði og bjó þar ásamt eiginmanni sínum og börnum til ársins 1976 þegar fjölskyldan flutti í Kópavog. Ásamt húsmóðurstörfum kenndi Ingunn hannyrðir á Núpi og rak mötuneytið við skólann um tíma. Hún hafði einnig ásamt eiginmanni sínum umsjón með garðinum Skrúð allt þar til þau fluttu í Kópavog. 1977 hóf Ingunn störf við Félagsheimili Kópavogs og starfaði þar til starfsloka 2004. Einnig starfaði hún við heimilishjálp um tíma.

Útförin fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 8. apríl 2019, klukkan 13.

Í dag kveð ég þig, elsku móðir mín, með söknuð og sorg í hjarta.

Þú huggaðir sem barn, last fyrir mig á kvöldin Þyrnirós og kenndir mér að prjóna. Sast yfir mér myrkfælinni þar til ég sofnaði út frá kliðnum í prjónunum þínum og sagðir mér sögur frá Broddanesi.

Þú áttir langa og viðburðaríka ævi og upplifðir miklar samfélagslegar breytingar sem þú lærðir að nýta þér. Þú varst ósérhlífin, dugleg og útsjónarsöm kona og varst ávallt tilbúin að hjálpa öllum sem leituðu til þín. Þú varst skyldurækin, hógvær og kvartaðir aldrei. Þú gerðir ekki kröfur til annarra en sjálfrar þín.

Þér féll aldrei verk úr hendi og ég sé þig fyrir mér sitjandi með prjónana og fylgjast með handboltaleik og það kom ekki lykkjufall þótt strákarnir okkar brenndu af.

Þú vildir veg okkar systkina sem mestan, hjálpaðir okkur eins og þú máttir til og hvattir okkur til dáða í öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur. En þú sagðir okkur líka til syndanna ef þér fannst við vera að beygja af réttri leið.

Þú tókst ávallt vel á móti öllum og nutu vinir okkar systkina þess á unglingsárunum. Þú bakaðir gjarnan fyrir okkur pönnukökur sem hurfu beint af pönnunni ofan í svanga maga.

Þú lést fátt stöðva þig og fórst í ófáar ferðir til Bandaríkjanna til Tryggva, án þess að tala ensku. Þar fórst þú út í Trader Joe's eins og þú værir að fara út í Nóatún í Hamraborg.

Ég mun sakna þín, skopskyns þíns og spjalls um rósarækt og hannyrðir.

Ég mun geyma minningu um þig í hjarta mér.

Elsku móðir mín kær,

ætíð varst þú mér nær,

ég sakna þín, góða mamma mín.

Já, mild var þín hönd

er um vanga þú straukst,

ef eitthvað mér bjátaði á.

Við minningu um þig geymum

og aldrei við gleymum,

hve trygg varst þú okkur og góð.

Við kveðjum þig, mamma,

og geymum í ramma

í hjarta okkar minningu um þig.

(Gylfi V. Óskarsson)

Þín dóttir,

Ingunn (Inga Sigga).

Hún Ína var að kveðja. Það var skrýtið að tilkynna að tengdamóðir mín hefði verið að kveðja okkur í síðasta sinn.

Margar minningar leita á hugann og þetta er eins og mörg stutt myndskeið. Þú flakkaðir víða með okkur bæði innanlands og utan. Fórum í veiðiferð á Snæfellsnes og gistum í tjaldi. Fórum í Þórsmörk og þú vildir gista í tjaldi. Fórst líka með okkur til Berlínar, Rómar og Barcelona. Nokkrar ferðir fórum við norður á Broddanes og þar leið þér vel. Mér er mjög minnisstæð ferðin þar sem þú fórst með okkur út í Traðarnes. Það var ekkert sem stoppaði þig, hvorki girðingar, sjúkdómur né göngugrind. Það var sama hvað við þvældumst með þig, aldrei kvartaðir þú.

Þú lést ekki tungumál né vegalengdir stöðva för þína. Þú fórst nokkrar ferðir til Ameríku til að heimsækja Tryggva og fjölskyldu.

Þú varst útsjónarsöm og seig en þó fyrst og fremst með stórt hjarta. Aldrei var komið að tómum kofunum þegar leitað var aðstoðar þinnar.

Við Bassi komum oft í kvöldgöngu til þín meðan þú varst á Álfhólsveginum og ég hélt svo áfram að líta inn til þín eftir að þú fluttir á Droplaugarstaði. Þar ræddum við um eitt og annað. Lásum saman bækur eða hlustuðum á góða tónlist. Skemmtilegast fannst þér þó ef við komumst eitthvað út að ganga og þá sérstaklega að skoða garða og blóm. Einnig var gaman að komast bara í bíltúra.

Hún var einstök perla.

Afar fágæt perla,

skreytt fegurstu gimsteinum

sem glitraði á

og gerðu líf samferðamanna hennar

innihaldsríkara og fegurra.

Fáar perlur eru svo ríkulega búnar,

gæddar svo mörgum af dýrmætustu

gjöfum Guðs.

Hún hafði ásjónu engils

sem frá stafaði ilmur

umhyggju og vináttu,

ástar og kærleika.

Hún var farvegur kærleika Guðs,

kærleika sem ekki krafðist endurgjalds.

Hún var vitnisburður

um bestu gjafir Guðs,

trúna, vonina, kærleikann.

(Sigurbjörn Þorkelsson.)

Takk fyrir allt, kæra Ína, og hvíl í friði.

Kveðja,

Þórhallur.

Ég og amma vorum bestu vinkonur. Við eyddum æskuárunum mínum í að þræða miðbæ Kópavogs hátt og lágt. Við vorum fastagestir á bókasafni Kópavogs, Náttúrustofu Kópavogs, Gerðarsafni og auðvitað svo í Félagsheimili Kópavogs, þar sem amma vann í mörg ár. En á meðan amma kenndi mér á menningarheim Kópavogs kenndi ég henni hvernig skal eyða föstudagskvöldum. Ég fór með hana á vídeóleiguna í Hamraborg, valdi tvær góðar spólur, pantaði svo pepperoni-pítsu fyrir okkur og svo sátum við tvær, í græna flauelssófasettinu á Álfhólsveginum, og nutum saman. Þau voru þónokkur föstudagskvöldin nákvæmlega svona, þau kvöld sitja mér alltaf ofarlega í huga, og mér þykir vænt um þau.

Amma á stóran þátt í þeirri manneskju sem ég er í dag. Hún var ákveðin, dugleg og útsjónarsöm kona sem lét ekkert stoppa sig. Hún var ekki með bílpróf, en samt fann hún sér einhverja leið til að sækja mig í skólann nokkrum sinnum í viku, enda gerði hún allt fyrir mig öllum stundum og það með bros á vör.

Elsku amma mín, ég sakna þín. Takk fyrir allt.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Alexandra Sif Tryggvadóttir.

Því vegför manna iðju án

er ævireik á söndum,

en átak hvert er ævilán

í iðjumanna höndum.

(Stefán frá Hvítadal)

Ingunn systir mín, sem kvödd er í dag, var næstelst í hópi sjö alsystkina sem fædd voru á níu árum. Elsta systkinið dó innan við ársgamalt. Ína varð því fljótt leiðandi í hópnum. Á unga aldri leysti hún öll vandamál strax og hélt þeim sið alla tíð síðan. Ína var jafnvíg til allrar vinnu, bæði innanhúss og utan. Hún var einn vetur á húsmæðraskólanum á Löngumýri og sú menntun er hún fékk þar kom henni vel. Eftir dvölina á Löngumýri var Ína að mestu í forsvari fyrir heimilið heima á Broddanesi fram yfir þrítugt. Þá flutti hún vestur að Núpi í Dýrafirði, ásamt eiginmanni sínum, Þorsteini Gunnarssyni kennara. Þar komu vel í ljós hæfileikar Ínu við garðyrkju. Þau hjónin sáu um blóma- og trjágarðinn Skrúð á Núpi um árabil meðan þau voru vestra. Eftir að þau fluttu suður vann Ína í Félagsheimili Kópavogs. Hún hélt áfram með blóma- og garðrækt meðan heilsan entist. Í meira en 20 ár glímdi Ína við erfiðan sjúkdóm og síðustu æviárin dvaldi hún á Droplaugarstöðum.

Ég á Ínu systur minni meira að þakka en flestum öðrum. Hún ýtti mér af stað í skólanám og veitti mér þá aðstoð sem dugði mér. Fleiri nutu hjálpar hennar, bæði skyldir og óskyldir, ekki síst á því árabili sem hún var á Núpi.

Nú þegar allt er orðið hljótt heima í Broddanesi er lítið eftir annað en að minnast alls sem vel var gert þar og af góðum vilja.

Hvíl í friði, elsku systir.

Þinn bróðir Benedikt.

Það var björt sumarnótt þegar ég hitti Ingunni fyrst, þar sem ég sat í bíl fyrir utan Álfhólsveginn og átti að hitta Tryggva. Hún kom til mín með þau skilaboð að Tryggvi væri í miðbænum og ég ætti að sækja hann þangað. Hún var róleg og yfirveguð og ekki var hægt að finna neinn pirring hjá henni þrátt fyrir að hafa verið vakin um miðja nótt til bera mér skilaboðin. Síðar átti ég eftir að fá að kynnast einstakri manneskju sem reyndist mér svo vel og kenndi mér svo margt um lífið og tilveruna.

Við fyrstu sýn kom Ingunn mér fyrir sjónir sem feimin manneskja sem lét ekki mikið fyrir sér fara. En annað átti eftir að koma á daginn. Því stærri og sterkari manneskju hef ég varla hitt. Ingunn lét verkin tala og það var ekkert verkefni sem ekki var hægt að leysa. Ávallt ráðagóð og reiðubúin að aðstoða ef það var á hennar færi.

Ömmuhlutverkið tók Ingunn alvarlega og lagði hún á sig langt ferðalag til Los Angeles til sjá sonardóttur sína nokkurra vikna gamla og þann dag varð ást við fyrstu sýn og gaf hún þessari litlu mannveru alla sína ást og umhyggju. Samband Ingunnar og Alexöndru var einstakt og fallegt. Dóttir mín gat ekki fengið betri fyrirmynd til að leiða sig út í lífið en Ingunni ömmu. Dagar Ingunnar ömmu og Alexöndru voru fullir af ævintýrum og kósíheitum og var þar grunnur lagður að góðum minningum sem dóttir mín mun geta yljað sér við um ókomin ár.

Ingunn var ekki með bílpróf en það var henni ekki til trafala og aftraði henni ekki frá því að sjá til þessa að sækja Alexöndru í Ísaksskóla þar sem henni fannst óþarfi að barnið þyrfti að dvelja í dægradvöl eftir skóla þar til að ég kæmist til að sækja hana. Ingunn fékk samstarfskonur sínar eða Sigurð bæjarstjóra til að skutla sér til að ná í barnið í skólann. Þetta var svo lýsandi fyrir hana að bjarga sér og þar sem hún var öllum svo góð og greiðvikin þá voru allir tilbúnir að aðstoða hana.

Á erfiðu tímabili í lífi okkar mæðgna stóð Ingunn sem klettur á bak við okkur og var Ingunni það vel ljóst að velferð mín var velferð barnsins. Þegar brekkan var brött og ég sá ekki fram á að geta klifið hana ein þá sendi hún mér línuna og dró mig upp og stappaði í mig stálinu og aðstoðaði mig við að finna ljósið á ný og fyrir það verð ég henni ævinlega þakklát.

Með hjartað fullt af þakklæti kveð ég með virðingu hana Ingunni mína og megi minningin um sterka og yndislega konu lifa. Ég veit að hún mun vaka yfir okkur og það sem hún hefur kennt okkur mun vísa okkur veginn.

Elsku Alexandra mín, Inga Sigga, Þórhallur, Tryggvi, Erla, Carmen og Andrea, ég votta ykkur mína dýpstu samúð.

Hafdís Viggósdóttir.

Lækkar lífdaga sól.

Löng er orðin mín ferð.

Fauk í faranda skjól,

fegin hvíldinni verð.

Guð minn, gefðu þinn frið,

gleddu og blessaðu þá,

sem að lögðu mér lið.

Ljósið kveiktu mér hjá.

(Herdís Andrésdóttir.)

Núna ertu farin í ferðina þína síðustu og trúi ég því að mamma hafi tekið vel á móti þér og þið systur hafið skellt í nokkrar pönnukökur og sitjið svo og prjónið saman eitthvað fallegt. Þið voruð alla tíð mjög samrýndar og báruð hag hvor annarrar fyrir brjósti.

Það voru ófáar sendingarnar sem komu til okkar að Broddanesi frá þér. Fatnaður á okkur systkinin, útsaumuð sængurver og ef þið voruð á ferðinni seinni part sumars komuð þið færandi hendi með bláber og fleira góðgæti.

Þegar ég þurfti svo að fara að heiman í skóla kom ekkert annað til greina en að ég færi vestur að Núpi og byggi þar hjá þér og fjölskyldunni og var ég þar í tvo vetur í góðu yfirlæti hjá ykkur og síðan aðra tvo í Kópavoginum eftir að þið fluttuð þangað.

Áfram hafðirðu hönd í bagga og fylgdist með mér og mínum eftir að ég hóf sjálf búskap ung að aldri.

Ég minnist þess ekki að þér hafi fallið verk úr hendi enda alltaf nóg að gera. Þegar ég var hjá ykkur á Núpi vannstu í mötuneyti skólans og þið Þorsteinn sáuð einnig um garðinn Skrúð og naust þú þín þar í hinum ýmsu verkum og var garðurinn fallegur og vel hirtur í ykkar umsjón.

Eftir að þið fluttuð á Álfhólsveginn vannstu í Félagsheimili Kópavogs og var vinnudagurinn oft langur en alltaf var tími til að sinna blómunum í garðinum og prjóna.

Síðustu árin voru þér erfið enda bundin við hjólastól og háð öðrum um flest en Inga Sigga og Þórhallur önnuðust þig af ástríki og umhyggju allt til hinstu stundar.

Elsku Ína, þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig.

Hvíl í friði.

Ingunn Einarsdóttir.

Árið 1987 réðst ég til vinnu hjá Kópavogsbæ, þ.e. til Félagsheimilis Kópavogs. Þar var fyrir Ingunn Guðbrandsdóttir, sem hélt í alla enda hvað varðaði veitingar fyrir hinar ýmsu deildir og fundi bæjarins. Okkur varð strax vel til vina, hún með áratuga reynslu og ég með mitt sjónarhorn.

Eftir því sem umsvifin jukust í vinnunni komu fleiri til starfa og myndaðist þá vinnuhópur sem var einstaklega samheldinn. Aldrei var nein lognmolla hvar sem við vorum að störfum. Alltaf var gaman í vinnunni þó að aðstæður væru ekki alltaf þær bestu. Það þurfti t.d. að sinna veitingum þar sem skóflustunga var tekin, heitt kakó og kleinur í snjóskafli, vígsla leikskóla, eða annarra stofnana bæjarins. Kaffiveitingar undir vegg í stórstormi þar sem grjóthnullungar héldu dúkuðu borði í skefjum. Aldrei kvartaði Ingunn, mætti þar sem hennar var þörf.

Ingunn hafði einstaklega gott verksvit, vann sér allt eins létt og hægt var. Orðatiltæki hennar heyrast enn í dag hjá öllum okkar sem unnum með henni. „Nota ferðina“, sagði hún ef einhver kom tómhentur úr sal þegar veislur voru í Félagsheimilinu. Það vakti oft undrun mína hvílíkt úthald þessi smávaxna kona hafði til vinnu.

Ingunn var mikill náttúruunnandi. Skrúður var henni einstaklega kær þar sem hún hafði ásamt eiginmanni sínum séð um umönnun garðsins í 17 ár. Hún sagði mér frá því þegar þau hjón ferðuðust um landið þvert og endilangt til að safna íslenskum jurtum fyrir garðinn. Einnig hafði hún sterkar rætur til Núps og það var gaman að fylgjast með þegar gamlir nemendur frá Núpi komu í Félagsheimilið og gleðin auðsæ þegar þau hittu Ínu aftur, oft eftir margra ára aðskilnað og ótrúlegt en satt þá mundi hún nöfn þeirra allflestra.

Fjölskylda Ingunnar var henni mikilvægust af öllu, hvort sem voru börnin hennar tvö og fjölskyldur þeirra, systkini hennar eða frændgarðurinn allur. Og þegar Broddanes bar á góma kom glampi í augun á henni og náttúrulýsingar hennar urðu ljóslifandi. Hún var minnisgóð með afbrigðum, sagði skemmtilega frá gamalli tíð og fólki sem hún hafði kynnst. Aldrei lagði hún neitt neikvætt til nokkurrar manneskju, sá alltaf það jákvæða í hverjum og einum.

Nú hefur Ingunn kvatt þetta líf eftir erfið veikindi. Ég sit full hryggðar en einnig full þakklætis fyrir að hafa fengið að starfa með henni, læra af henni og njóta samveru með henni.

Ég votta börnum hennar, Ingunni Sigríði og Tryggva og fjölskyldum þeirra, mína dýpstu samúð.

Anna Hallgrímsdóttir.