Mjúkt fall Dúóið Edition nýtir sér hljóðeiginleika vatnsturnsins.
Mjúkt fall Dúóið Edition nýtir sér hljóðeiginleika vatnsturnsins. — Ljósmynd/Edition#
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hljóðlistardúóið Edition# efndi til sýningarinnar Edition#1 A Soft Fall um miðjan mars í 35 metra háum vatnsturni í Brønshøj, úthverfi Kaupmannahafnar, en sýningin miðar að því að nýta hljóðeiginleika turnsins.

Hljóðlistardúóið Edition# efndi til sýningarinnar Edition#1 A Soft Fall um miðjan mars í 35 metra háum vatnsturni í Brønshøj, úthverfi Kaupmannahafnar, en sýningin miðar að því að nýta hljóðeiginleika turnsins.

Upplifun gesta sem ganga um í gamla vatnsturninum svipar til falls, að sögn hljóð- og tónlistarmannsins Rúnars Magnússonar, en dúóið Edition# samanstendur af honum og tónlistarmanninum Yann Coppier. Um er að ræða opnunarsýningu fyrir hljóðlistarrýmið Urum – Institut for Efterklang sem er til húsa í gamla vatnsturninum í Kaupmannahöfn. Sýningin er nú opin fimmtudaga og föstudaga, frá klukkan eitt til fimm, fram í ágúst en auk þess verður verkið gefið út á vínilplötu á sýningartímabilinu.

Stöðugar endurtekningar

„Þetta er svipað og að detta,“ sagði Rúnar, spurður um hvaða tilfinningar kynnu að vakna hjá gestum sem koma til með að ganga um turninn á opnunarsýningunni. Í turninum heyrast stöðugar endurtekningar á hljóðum með smávægilegum breytingum. Rúnar og Yann spila á turninn með því að slá á og skrapa ýmsa fleti og rör inni í honum.

„Þegar hljóðin eru tekin upp með hljóðnema eru þau í sinni upprunalegu mynd; þurr, leiðinleg og einföld. En síðan tökum við þau inn í ákveðið ferli og vörpum þeim inn í turninn aftur og þá magnast þau upp á sérstakan hátt. „Þessi turn er makalaus, hljómheimurinn inni í honum er stórfurðulegur og magnaður,“ segir Rúnar og lýsir því að bergmálið geti komið í veg fyrir að hægt sé að tala saman inni í turninum, enda býr hann yfir 40 sekúndna endurómun. „Ef ég og Yann stóðum langt hvor frá öðrum í turninum þurftum við að nota síma til að tala saman. Hljóðið leysist upp vegna bergmálsins,“ segir hann.

Undirbúningur verksins hefur tekið um það bil ár og hafa Rúnar og Yann skoðað turninn og hljómheim hans gaumgæfilega með fremstu hljóðfræðingum Danmerkur. Nú vinna þeir að þrívíddarútgáfu af turninum, sem gerir þátttakendum kleift að upplifa stemningu og hljóð turnsins í eins konar tölvuleik. Þar geta þeir stýrt sér í gegnum turninn og heyrt hljóðin rétt eins og þau hljóma í turninum í Kaupmannahöfn.

Fyrir átta árum nam Rúnar tölvuleikjahönnun og langaði hann því til að skoða nánar verkfæri sem notuð eru í slíkri hönnun og nýta þau í tónlistargerð.

„Ég er ekki tölvuleikjamaður, þannig að ég var eins og álfur út úr hól. En ég var að skoða þetta með augum hljóðlistamanns og nú er þetta farið að skila sér. Þessi heimur er farinn að opnast svolítið núna, fleiri eru uppteknir af þessu sviði, sem er spennandi þróun,“ segir Rúnar.

Næsta verkefni hljóðlistardúósins er að setja upp þrívíddargallerí þar sem listamenn geta unnið verk sín og er einmitt ætlunin að bjóða öðrum listamönnum að halda sýningar í galleríinu.

„Þar verður tónlist og hljómverk sem geta haft mismunandi hljómheim eða umhverfi. Það er hægt að líta á þetta sem nýja leið til að gefa út, bæði fyrir tónlist og listaverk, hljóðlist, innsetningar og þess háttar,“ segir Rúnar. Hann segist hafa áhuga á að vinna slík verkefni í samstarfi við söfn og gallerí en með því væri hægt að fylgjast með sýndarveruleikanum í raunveruleikanum.