Atkvæðagreiðsla Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, við undirskrift kjarsamningsins.
Atkvæðagreiðsla Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, við undirskrift kjarsamningsins. — Morgunblaðið/Hari
Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is Áætlað er að rafræn atkvæðagreiðsla Starfsgreinasambandsins og aðildarfélaga þess um nýjan kjarasamning, svokallaðan lífskjarasamning, hefjist í lok vikunnar. Endanleg útfærsla er ekki ljós en verður að öllum líkindum ákveðin í dag. Fram að atkvæðagreiðslu munu félögin halda kynningarfundi um allt land.

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

Áætlað er að rafræn atkvæðagreiðsla Starfsgreinasambandsins og aðildarfélaga þess um nýjan kjarasamning, svokallaðan lífskjarasamning, hefjist í lok vikunnar. Endanleg útfærsla er ekki ljós en verður að öllum líkindum ákveðin í dag. Fram að atkvæðagreiðslu munu félögin halda kynningarfundi um allt land.

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að ekki verði um sameiginlega atkvæðagreiðslu allra aðildarfélaga að ræða. Greidd séu atkvæði í hverju félagi fyrir sig og niðurstöður kynntar í hverju félagi, en unnið sé í sameiningu að undirbúningi og útfærslu atkvæðagreiðslunnar sem er nokkuð umfangsmikil vinna. Björn segist reikna með að atkvæðagreiðslan hefjist klukkan 13, föstudaginn 12. apríl, og standi yfir til klukkan 16 þriðjudaginn 23. apríl.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir að félagið muni vinna þétt með Starfsgreinasambandinu varðandi útfærslu atkvæðagreiðslunnar. Félagið hefur boðað þrjá kynningarfundi um samninginn í vikunni á þremur tungumálum; íslensku, ensku og pólsku.

„Það er mikilvægt að þessi gögn séu þýdd og við höfum rutt brautina í verkalýðshreyfingunni um að þýða allt á ensku og pólsku. Við leggjum áherslu á það,“ segir Viðar, en auk þess sem samningurinn verður kynntur fram að atkvæðagreiðslu verður ýmiskonar kynningarefni framleitt fyrir félagsmenn.

Ekki öll félög í samfloti

Ekki eru þó öll félög sem verða í samfloti varðandi atkvæðagreiðsluna. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að atkvæðagreiðsla félagsins og Landssambands verlsunarmanna muni líklega hefjast aðeins fyrr, eða á fimmtudag. Útfærsluatriði verði ákveðin í dag.

„Ég á von á því að niðurstöðurnar verði kynntar á svipuðum tíma, þó dagsetning atkvæðagreiðslu verði ekki sú sama hjá félögunum,“ segir Ragnar við Morgunblaðið. Samningurinn verður kynntur formönnum deilda verslunarmannafélaganna klukkan 11 í dag og þá mun VR kynna samninginn á almennum kynningarfundi félagsins í kvöld.

„Við skynjum almenna ánægju og að sama skapi ákveðinn létti að samningar hafi náðst. Það mun örugglega taka tíma fyrir fólk að átta sig á umfanginu og hvað er í húfi í samningunum,“ segir Ragnar Þór.

Lífskjarasamningur
» Undirritaður á miðvikudagskvöld af tæplega 30 stéttar-félögum eftir langar viðræður við Samtök atvinnulífsins.
» Fer nú í dóm félagsmanna í rafrænni atkvæðagreiðslu sem skal vera lokið 24. apríl.
» Atkvæðagreiðslan ekki sameiginleg og niðurstöður verða kynntar í hverju félagi fyrir sig.