Gulla kokkur Fer hér yfir ruslaflokkunarmál með börnunum.
Gulla kokkur Fer hér yfir ruslaflokkunarmál með börnunum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Krakkarnir í leikskólanum Lundabóli í Garðabæ hafa lært mikið um umhverfismálin, enda er framtíðin þeirra. Því fyrr sem börn fá fræðslu því meiri líkur eru á að þau tileinki sér ákveðin gildi sem fullorðnir einstaklingar. Þau bjuggu til orm úr gömlum táfýlusokkum.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Þetta hefur heppnast rosalega vel enda eru börn mjög áhugasöm um umhverfi sitt og þau eru fljót að tileinka sér nýjungar og annan hugsunarhátt. Börnin hér í leikskólanum eru opin og virk og með Jarðarorminum hafa þau kennt foreldrum sínum nýjar aðferðir og nýja hugsun. Það er mikilvægt að kenna börnum sem allra fyrst að ganga vel um landið og hvað þau geti gert til að vernda auðlindir jarðar. Á leikskólastiginu hefur áhersla á sjálfbærnimenntun stöðugt farið vaxandi og aukin vitund er um að því fyrr sem börn fá fræðslu því meiri líkur eru á að þau tileinki sér ákveðin gildi sem fullorðnir einstaklingar,“ segir Björg Helga Geirsdóttir leikskólastjóri á Lundabóli í Garðabæ, en leikskólinn vinnur að alþjóðlegu verkefni, Jarðarorminum, Earthworm: One Earth, One World; The Metamorphosis of Sustainability Education in the Early Childhood Education and Care. Ásamt Íslandi tóku þrjú önnur lönd þátt í verkefninu, Spánn, Litháen og Rúmenía.

„Hún Maricris Castillo de Luna, er prímus mótor í þessu, en hún er grunnskólakennari og starfar hjá okkur við kennslu elstu barnanna. Þetta á allt upphaf sitt í því að Maricris fór í meistaranám í Háskóla Íslands fyrir fjórum árum og þar valdi hún að taka fyrir sjálfbærni. Hún fræddi okkur samkennara sína heilmikið um hlýnun jarðar og fleira sem ekki var komið svo mikið í umræðuna þá. Hún sá að við yrðum að kenna börnunum hugmyndafræði sjálfbærni og hún fór því fljótlega að gera ýmis verkefni með börnunum. Hún bjó til dæmis til lítinn sjó í stórum bala, lét börnin setja ýmislegt í sjóinn til að sjá með eigin augum hvað gerist. Þau sáu að mold sökk til dæmis til botns og vatnið varð þá aftur hreint, en olía settist ofan á sjóinn og hana var erfitt að hreinsa. Plast flaut líka ofan á og eyddist ekki í sjónum,“ segir Björg og bætir við að í framhaldinu af allri þessari vakningu hafi Lundaborg sótt um og fengið styrk fyrir jarðarorms-verkefninu hjá þróunarsjóði leikskóla Garðabæjar.

„Við fengum líka Erasmus-ferðastyrk en með þessu verkefni er áhersla á að kenna leikskólakennurum, fræða þá um sjálfbærni svo þeir geti komið þessu inni í kennsluna hjá sér.“

Fótgangandi í búðina til að kaupa íslenskt grænmeti

En hver er þessu jarðarormur?

„Hann er heimatilbúinn ormur sem ferðast á milli heimila leikskólabarnanna í Garðabæ ásamt bók með fróðleik um hvernig fjölskyldur geti tekið þátt með því að fara í einfaldar sjálfbærniaðgerðir á heimilinu. Við bjuggum til stóran orm úr afgangssokkum, því flestir eiga jú helling af stökum sokkum. Krökkunum fannst þetta mjög gaman og þau kölluðu þá táfýlusokka sem þau og við starfsfólkið lögðum til í orminn. Á því heimili sem ormurinn er staddur hverju sinni á heimilisfólkið að gera eitthvað saman sem er innlegg í sjálfbærni. Leikskólabarnið er þá í raun að fræða foreldra sína, til dæmis stakk eitt barnið upp á því við foreldra sína að þau færu fótgangandi saman út í búð að kaupa íslenska tómata. Þannig læra börnin að allt sem við gerum í rétta átt skiptir máli. Bók fylgir með jarðarorminum þar sem fólk skráir hvað það gerir, hvort sem það tekur strætó frekar en að ferðast á einkabílnum á milli staða, kaupir íslensk jarðarber en ekki þau sem flutt eru hingað yfir hálfan heiminn, og fleira hvetjandi fyrir næstu foreldra sem fá orminn og bókina heim til sín.“

Börnin skrifuðu bæjarstjóranum bréf vegna rúðunnar

Björg segir að þar sem framtíðin sé í höndum leikskólabarna þá sé áríðandi að gera þau meðvituð nógu fljótt um að jarðarbúar þurfa að breyta sínum lífsháttum.

„Þau fræðast líka í útikennslu um plönturnar og lífríkið. Þau fengu gefins plöntur sem þau gróðursettu og tóku ábyrgð á að vökva og halda þeim á lífi. Þau lærðu að flokka rusl og endurnýta, en við höfum lagt áherslu á að gera við og laga leikföngin í leikskólanum, í stað þess að henda og kaupa ný. Við fræddum þau líka um sameignir okkar í samfélaginu, hvernig við berum ábyrgð á þeim. Krakkarnir höfðu til dæmis miklar áhyggjur af því þegar við fórum í strætó að þá var oftar en einu sinni búið að brjóta rúðu í strætóskýli sem við þurftum að bíða í. Þau veltu fyrir sér hverjir gerðu svonalagað, skemmdu hluti sem áttu að skýla okkur fyrir vindi og regni. Þau skrifuðu bæjarstjóranum bréf um þetta, létu sig málið varða. Við fórum í leik með þeim til að kenna þeim hvernig allir leggja í púkk svo hægt sé að kaupa sameiginlega hluti í bæjarsamfélaginu okkar. Við bjuggum til peninga og settum þau í hlutverk: Foreldrar fara í vinnuna og fá pening að launum. Einn peningur fer í að kaupa mat, annar fer í að fara í sund, en sá þriðji fer í stóra verkið, sem heitir Garðabær. Allir setja þennan þriðja pening í stóru budduna og þannig verður til sjóður. Og fyrir þann pening eru keyptir ljósastaurar, byggðir leikskólar, bekkir, ruslatunnur og strætóskýli. Við eigum þetta því öll saman, mömmur, pabbar og börnin sem búa í Garðabæ. Þetta virkaði mjög vel og þau lærðu að ganga vel um leikskólann sinn, bæinn og heimilið sitt. Ég skal hundur heita ef þessir krakkar kveikja í bekkjum eða sprengja ruslatunnur í framtíðinni,“ segir Björg og hlær.

Misjafn húðlitur jarðarbúa

Björg segir að verkefnið hafi einnig snúist um að kenna börnunum um fjölbreytileika mannfólksins á jörðinni sem við byggjum saman.

„Við fræddum þau um að þó svo að börnin í Garðabæ séu flest ljós á hörund og búi í steyptum húsum, þá sé það ekki allsstaðar þannig. Sumstaðar á jörðinni eru börnin dökk á hörund og búa ekki í steinhúsum. En þó margt geti verið ólíkt þá kenndum við börnunum að horfa frekar til þess sem er líkt með öllum börnum jarðar. Þau verða til dæmis öll glöð á sama hátt og flest hræðast þau sömu hluti, öll gráta þau eins og hlæja, og flestum krökkum þykir ís góður.“

Björg segir að ekki sé nóg að fræða leikskólabörn og kveikja hjá þeim meðvitund um samfélagslega ábyrgð, hvort sem hún snýr að bæjarfélaginu eða umhverfismálum á heimsvísu, heldur þurfi þetta að halda áfram á næsta skólastigi, grunnskólanum.

„Í grunnskólanum þarf að bæta við enn meiri þekkingu um þessi mál, sjálfbærni og umhverfisvernd. Um næstu áramót eða haustið 2020, þegar Maricris kemur úr námsleyfi, ætlum við að fylgja þessum hóp eftir í grunnskólanum, halda áfram með þessa vinnu í samstarfi við grunnskólann. Hér í leikskólanum erum við til dæmis með Svanga Manga, fötu sem gleypir alla matarafganga, og börnin sjá um að fara með hann út og tæma. Þegar krökkunum var boðið í hádegismat í grunnskólanum voru þau alveg gáttuð á því að þar var enginn Svangi Mangi, heldur fór maturinn saman við hitt ruslið,“ segir Björg og hlær.

„Þau eiga eftir að kenna mörgum, þessir krakkar, það er ég viss um. Þau eru virkir þátttakendur, sérstaklega elstu börnin í leikskólanum.“