Mygla Hús embættis landlæknis.
Mygla Hús embættis landlæknis. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Í Morgunblaðinu á laugardag mátti sjá auglýsingu frá embætti landlæknis sem óskaði eftir því að taka á leigu skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu til tíu ára, fullbúið til notkunar.

Í Morgunblaðinu á laugardag mátti sjá auglýsingu frá embætti landlæknis sem óskaði eftir því að taka á leigu skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu til tíu ára, fullbúið til notkunar. Í fréttum RÚV í gærkvöld var svo greint frá því að embættið þyrfti að flytja vegna myglu í núverandi húsakynnum, sem eru í gömlu heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg.

Ágreiningur er milli landlæknisembættisins og eiganda hússins um orsakir myglunnar. Óháður matsmaður skilaði áliti sínu í síðustu viku, en áður hafði álit tveggja matsaðila stangast á. Þeir höfðu rannsakað húsnæðið fyrir hönd eiganda hússins annars vegar og embættis landlæknis hins vegar. Eigandi hússins hefur sakað landlæknisembættið um vanrækslu sem leitt hafi til myglu og skemmda í húsnæðinu. Því hafnar landlæknir.

Þriðjungur starfsmanna landlæknisembættisins hefur fundið fyrir áhrifum myglu í húsnæðinu að Barónsstíg. Embættið hefur verið þar til húsa í átta ár.

Ekki náðist í Ölmu D. Möller, landlækni, við vinnslu fréttarinnar í gærkvöldi og þá sagðist Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, ekki ætla að tjá sig um málið að svo stöddu. jbe@mbl.is