[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.

Fréttaskýring

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Síðastliðinn fimmtudag, aðeins nokkrum vikum eftir að hafa verið sleppt lausum úr gæsluvarðhaldi, var Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóri Renault og Nissan og stjórnarformaður Mitsubishi, handtekinn á ný að beiðni saksóknara í Tókýó.

Eins og greint hefur verið frá var Ghosn hnepptur í varðhald í nóvember á síðasta ári vegna ásakana um að hafa ekki greitt skatta af öllum launum sínum, og að hafa nýtt fjármuni Nissan til að leysa úr skuldavanda sem hann lenti í í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar.

Þótti mörgum handtakan, og gæsluvarðhald Ghosns í 108 daga, ekki í samræmi við alvarleika brotanna, og bendir núna margt til að um nokkurs konar brellu hafi verið að ræða svo að meiri tími gæfist til að rannsaka enn alvarlegri brot.

Grunsamleg flétta

Bloomberg segir saksóknara hafa nýtt tímann til að rýna í flókna peningafléttu sem teygir anga sína til Ómans, Sádi-Arabíu og Líbanons. Ku Ghosn hafa látið Nissan senda jafnvirði u.þ.b. 15 milljóna dala til samstarfsfyrirtækja bílaframleiðandans í Mið-Austurlöndum á tímabilinu 2015-2018 og stungið um fimm milljónum þar af í eigin vasa.

Á Ghosn að hafa látið senda aðra eins upphæð til Mið-Austurlanda árin þrjú þar á undan.

Ghosn neitar áfram allri sök og kveðst ekki ætla að láta buga sig. Skömmu áður en hann var handtekinn að nýju hafði Ghosn sent frá sér tíst þar sem hann boðaði til blaðamannafundar 11. apríl og sagðist ætla að „segja sannleikann um það sem er að gerast“. Segir Japan Times að þá hafi þegar verið orðrómur á kreiki um að saksóknari væri að undirbúa nýja ákæru.

Boðað hefur verið til hluthafafundar hjá Nissan í dag þar sem Ghosn verður formlega kosinn úr stjórn félagsins.

FT greinir frá að Carole Ghosn, eiginkona Carlosar, hafi flogið frá Japan til Parísar daginn eftir handtöku eiginmanns síns, og að hún hyggist þrýsta á frönsk stjórnvöld um að beita sér í málinu.