Rangæingur Vandist því sem barn að ganga í öll störf, segir Ingveldur.
Rangæingur Vandist því sem barn að ganga í öll störf, segir Ingveldur. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Jafnhliða annasömu starfi er mikilvægt að hreyfa sig reglulega; öðruvísi þrífst ég varla,“ segir Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sem er 49 ára í dag.

Jafnhliða annasömu starfi er mikilvægt að hreyfa sig reglulega; öðruvísi þrífst ég varla,“ segir Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sem er 49 ára í dag. „Ég fer vonandi út að skokka þegar vinnudegi lýkur; reyni að hlaupa þrisvar til fjórum sinnum í viku og þá samanlagt 45 til 70 kílómetra í viku. Ég reyni líka að fara einu sinni í viku á Esjuna. Mér finnst þetta nauðsynlegt og þá er mikilvægt að hafa markmið. Svo kynnist maður mörgu frábæru fólki á hlaupum.“

Ingveldur er frá bænum Bjólu í Rangárþingi ytra. „Foreldrar mínir ráku stórt bú og ég vandist því sem barn að ganga í öll störf. Tengsl mín við sveitina eru sterk og þangað fer ég oft,“ segir Ingveldur sem er viðskiptafræðingur að mennt. Hún vann lengi hjá Pennanum en sneri sér að pólitíkinni árið 2013. Var fyrst kosningastjóri Framsóknarflokksins í Reykjavík fyrir alþingiskosningar það ár en varð seinna aðstoðarmaður ráðherra.

„Hlutverk aðstoðarmanns er meðal annars að skapa pólitíska tengingu ráðherrans við faglegt starf í ráðuneytinu. Einnig að vera í tengslum við fólk og fjölmiðla, fylgjast með fréttum, bregðast við erindum og sjá til þess að allt í daglegu starfi ráðherrans gangi upp. Þetta er mjög skemmtilegt,“ segir Ingveldur sem er gift Guðmundi Smára Ólafssyni. Þau eiga tvær dætur, Lilju Björk, 22 ára nema í skartgripahönnun, og Svanborgu Maríu, 26 ára stjórnamálafræðing og flugfreyju, sem er í sambúð og á eitt barn.

„Ég býð fólkinu mínu heim í kvöldmat, tilkynnist hér með, og hendi kannski í eina köku fyrir vinnufélagana. Geng svo að því vísu að eiginmaðurinn komi mér á óvart,“ segir Ingveldur. sbs@mbl.is