Kynning Forseti Íslands var mættur í eina af verslunum Bónuss í gær.
Kynning Forseti Íslands var mættur í eina af verslunum Bónuss í gær. — Morgunblaðið/Hari
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mætti í gær í eina af verslunum Bónuss, þá er finna má við Garðatorg í Garðabæ, í tilefni þess að haldið er upp á svonefnda „íslenska daga“ í matvöruverslunum.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mætti í gær í eina af verslunum Bónuss, þá er finna má við Garðatorg í Garðabæ, í tilefni þess að haldið er upp á svonefnda „íslenska daga“ í matvöruverslunum. Er forsetinn verndari átaks sem nefnist „Íslenskt – gjörið svo vel“.

Innlendir framleiðendur og verslanir hafa nú tekið höndum saman og ætla að bjóða upp á úrval af íslenskum vörum í fjölmörgum verslunum víða um land.

Að baki átakinu „Íslenskt – gjörið svo vel“ standa Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífsins, Samtök verslunar og þjónustu og Bændasamtök Íslands. Átakið hófst í nóvember síðastliðnum þegar landsmönnum gafst kostur á að fara inn á vefsvæðið gjoridsvovel.is til að setja saman lista yfir þær íslensku vörur sem ætti að bjóða erlendum gestum.

Tilgangur átaksins er að efla vitund Íslendinga á íslenskum vörum en átak sem þetta hefur verið reglulega undanfarin ár. Fyrirtæki sem framleiða eða selja íslenskar vörur geta tekið þátt í átakinu. Miðað er við vörur sem uppfylla þau skilyrði sem fram koma í fánalögum. Þau fyrirtæki og þeir framleiðendur sem taka þátt í átakinu fá aðgang að myndmerki þess og geta nýtt það á umbúðir, heimasíður, samfélagsmiðla eða annað kynningarefni sitt.