Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Landhelgisgæsla Íslands (LHG) fær um mánaðamótin mannlausan dróna til notkunar og verður hann gerður út frá Egilsstaðaflugvelli.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Landhelgisgæsla Íslands (LHG) fær um mánaðamótin mannlausan dróna til notkunar og verður hann gerður út frá Egilsstaðaflugvelli. Er um að ræða samstarfsverkefni LHG og Siglingamálastofnunar Evrópu (EMSA) en dróninn verður hér á landi í þrjá mánuði og prófaður við ýmis löggæsluverkefni, leit og björgun auk eftirlits með mengun á hafinu við Íslandsstrendur.

Flýgur á um 120 km hraða

Dróninn, sem er með 15 metra vænghaf, er af gerðinni Hermes 900, vegur rúmt tonn og hefur um 800 kílómetra flugdrægni. Getur hann því auðveldlega flogið að lögsögumörkum Íslands fyrir austan landið og til baka aftur. Þá flýgur dróninn á um 120 kílómetra hraða, er útbúinn afísingarbúnaði og er stjórnað í gegnum gervitungl. Að auki er dróninn búinn myndavélum og radar, en í honum er einnig sérstakur búnaður sem greinir neyðarboð og sendir þau áfram í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands, segir fjölmenna áhöfn fylgja drónanum hingað til lands og að tækinu sé stýrt af flugmönnum.

„Meginhluti verkefnisins er fjármagnaður af EMSA. En gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki í lok júlí. Landhelgisgæslan er spennt að sjá hvernig dróni sem þessi nýtist við löggæslu og leit og björgun á hafinu umhverfis Ísland,“ segir Ásgeir við Morgunblaðið.