Hart tekist á Á lokametrum kosningabaráttunnar sakar Benny Gantz, til hægri, Benjamín Netanyahu, til vinstri, um að leggjast lágt í leit sinni að atkvæðum, með því að lofa innlimun umdeildra byggða í Ísraelsríki.
Hart tekist á Á lokametrum kosningabaráttunnar sakar Benny Gantz, til hægri, Benjamín Netanyahu, til vinstri, um að leggjast lágt í leit sinni að atkvæðum, með því að lofa innlimun umdeildra byggða í Ísraelsríki. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Snorri Másson snorrim@mbl.is Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, lét hafa eftir sér á laugardaginn var að hann hygðist innlima landtökubyggðir Ísraelsmanna á Vesturbakkanum í Ísraelsríki ef hann næði kjöri í kosningunum sem fara fram á morgun.

Snorri Másson

snorrim@mbl.is

Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, lét hafa eftir sér á laugardaginn var að hann hygðist innlima landtökubyggðir Ísraelsmanna á Vesturbakkanum í Ísraelsríki ef hann næði kjöri í kosningunum sem fara fram á morgun. Þar með gekk hann lengra en áður í loforðum sínum um þessi efni en verði af áformum hans er talið að öll von sé úti um tveggja ríkja lausn Ísraels og Palestínu. Um er að ræða byggð rúmlega 700.000 Ísraelsmanna á svæði innan alþjóðlega viðurkenndra landamæra Palestínu, yfirráð, sem ísraelskir stuðningsmenn þessara byggða segja umdeild. „Þessi yfirlýsing er ekki aðeins gerð í hita kosningabaráttunnar,“ er haft eftir Hanan Ashrawi, yfirmanni hjá samtökum um frjálsa Palestínu. „Þetta lokar á alla möguleika á friði,“ sagði hún.

Netanyahu er sagður vera að höfða til þjóðernissinnaðra kjósenda langt til hægri með þessum ummælum. Meginandstæðingur hans af vinstri væng, Benny Gantz, sagði skammarlegt að fiska eftir atkvæðum með þessu móti. „Maður spyr sig af hverju Netanyahu innlimaði þessi svæði ekki á þeim 13 árum sem hann gat það en gerði það ekki?“ spurði Gantz. Hann kvaðst andvígur einhliða aðgerðum af þessum toga og sagðist sjálfur myndu leitast við að halda friðnum á þessum svæðum, með stuðningi íbúa jafnt sem alþjóðasamfélagsins.

Mjótt á munum milli nafnanna

Gengið er til kosninga á morgun. Um sex milljónir eru á kjörskrá og kosningaþátttaka í Ísrael er oftast mikil. Kosningabaráttan hefur harðnað síðustu vikur. Netanyahu og Gantz keppa um meirihluta atkvæða, Netanyahu sem leiðtogi Likud-flokksins á hægri vængnum og Gantz sem leiðtogi Blárra og hvítra á þeim vinstri. Netanyahu sækist eftir þingstyrk til að geta orðið forsætisráðherra aftur. Hann hefur gegnt embættinu frá 2009 og gegndi því einnig á árunum 1996-1999. Hann og Donald Trump Bandaríkjaforseti eiga í ágætu vinfengi og Netanyahu hefur látið hafa eftir sér í viðtölum að ekki sé útilokað að á næsta kjörtímabili fái hann stuðning Trumps til þess að innlima umrædd svæði á Vesturbakkanum. Trump lýsti því yfir ekki alls fyrir löngu að hann teldi Gólanhæðir heyra undir Ísraelsríki, sem var umdeild ákvörðun.

Benjamín Gantz fylgir fast á eftir nafna sínum Netanyahu í fylgi í aðdraganda kosninga. Hann var forseti ísraelska herráðsins, sem aflar honum vinsælda. Hann er leiðtogi Bláa og hvíta flokksins, sem hann stofnaði í febrúar á þessu ári með sjónvarpsmanninum Yair Lapid. Gantz naut virðingar sem hermaður og var meðal annars lofaður af sjálfum Netanyahu á sínum tíma sem „framúrskarandi foringi“ en forsætisráðherrann lýsir núna keppinaut sínum sem „veiklunduðum vinstrimanni“, segir í umfjöllun Al Jazeera um kosningabaráttuna. Þess er vert að geta að þrátt fyrir andstöðu sína við nýfallin ummæli Netanyahus hefur hann stært sig í aðdraganda kosninganna af því að hafa „sent Gaza aftur til steinaldar“ með hernaðaraðgerðum sínum á svæðinu.