Meistari Alfreð Gíslason hefur sópað að sér verðlaunum sem þjálfari.
Meistari Alfreð Gíslason hefur sópað að sér verðlaunum sem þjálfari. — EPA
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is Alfreð Gíslason vann í gær sinn átjánda bikar sem þjálfari þýska liðsins THW Kiel þegar liðið vann SC Magdeburg, 28:24, í úrslitaleik þýsku bikarkeppninnar sem fram fór í Hamborg.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Alfreð Gíslason vann í gær sinn átjánda bikar sem þjálfari þýska liðsins THW Kiel þegar liðið vann SC Magdeburg, 28:24, í úrslitaleik þýsku bikarkeppninnar sem fram fór í Hamborg. Þar af er þetta í sjötta sinn sem Kiel verður bikarmeistari undir stjórn Alfreðs frá því að hann tók við þjálfun liðsins sumarið 2008. Kiel varð síðast bikarmeistari fyrir tveimur árum.

Alfreð ákvað fyrir nokkru að segja starfi sínu lausu hjá Kiel eftir yfirstandandi leiktíð, sem lýkur í júní. Hann á góða möguleika á að bæta enn í verðlaunasafn sitt áður en síðasti vinnudagurinn rennur upp hjá félaginu. Kiel stendur vel að vígi í EHF-bikarnum og verður auk þess gestgjafi úrslitahelgar keppninnar í næsta mánuði. Þá er ekki öll nótt úti enn í þýsku 1. deildinni þótt Flensburg standi sannarlega vel að vígi um þessar mundir í keppninni við Kiel.

Eftir jafnan leik og eins marks forystu í hálfleik tók Kiel mikinn sprett á fyrsta stundarfjórðungi síðari hálfleiks undanúrslitaleiksins í gær. Liðið breytti stöðunni úr 15:14, Magdeburg í hag, í 24:16, með því að skora 10 mörk gegn einu á um 15 mínútna kafla. Það var ekki síst danska landsliðsmarkverðinuum Niklas Landin að þakka. Hann lokaði markinu á þessum kafla. Landin varði alls 19 skot í leiknum, sem er um 45% hlutfallsmarkvarsla.