[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Hverra manna er sá eða sú? Spurningin er algeng og ættfræðin er Íslendingum hugleikin, samanber að gefnar eru út þykkar bækur hvar ættir eru raktar aftur í aldir og tilgreint hverjir tengist hverjum.

Fréttaskýring

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Hverra manna er sá eða sú? Spurningin er algeng og ættfræðin er Íslendingum hugleikin, samanber að gefnar eru út þykkar bækur hvar ættir eru raktar aftur í aldir og tilgreint hverjir tengist hverjum. Eru þá í upptalningu allir í ættboganum og gjarnan tiltekið hver starfi fólks sé, búseta og fleira slíkt. Einnig er sagt frá maka og oftar en ekki hans helsta frændgarði. Má í þessu nafni nefna rit eins og Engeyjarætt, Arnardalsætt og Longætt. Einnig hafa verið gefin út stéttartöl, svo sem um lögregluþjóna, lækna, rafvirkja og presta með helstu upplýsingum um fólk, þótt ekki sé farið jafn djúpt í ættfræðina þar. Svo má tiltaka yfirlitsrit um til dæmis stúdenta frá Menntaskólanum á Akureyri og í sveitum landsins hefur svo tíðkast að gefin séu út byggðatöl; með upplýsingum um ábúendur á bæjum. En er nú svo komið að ættfræðinni séu settar skorður? Hvað segja persónuverndarlögin?

Nær ekki til menningar og vísinda

„Almennt talað ná persónuverndarlögin ekki til menningar- og vísindastarfs heldur öðru fremur þess að upplýsingar um fólk séu ekki notaðar í viðskiptalegum tilgangi eða viðkvæmar persónulegar upplýsingar birtar. Á þessu eru auðvitað ýmsar undantekningar og sjónarmiðin eru mörg,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. „Vissulega getur fólk óskað eftir áliti eða úrskurði Persónuverndar um hvort það geti beðist undan skráningu í stéttar- og ættartöl og þá yrðu mál hér yfirfarin og óskað upplýsinga frá skrásetjurum. Þeir yrðu þá að svara því til á hvaða heimildum í persónuverndarlögum útgáfan er byggð. En svona almennt talað þá breytir ný löggjöf ekki miklu um ættfræði, sem er um margt séríslenskt fyrirbæri, því reglur á þessu sviði hafa verið nær óbreyttar frá árinu 2000. Ég tek þó fram að álitamál um þetta hafa ekki komið til skoðunar hér eftir gildistöku nýrra persónuverndarlaga,“ segir Helga.

Sinn er siður í landi hverju

Gagngrunnurinn Íslendingabók þar sem þjóðin öll er ættfærð, verður áfram með sama sniði og verið hefur.

„Hverra manna fólk er telst almennt ekki viðkvæmar persónulegar upplýsingar. Hins vegar þarf að fara að með meiri gát en áður því hvað eru viðkvæmar persónulegar upplýsingar er skilgreint mjög rúmt í Evrópureglum og þar er enginn greinarmunur gerður á því að sinn er siður í landi hverju,“ segir Friðrik Skúlason, hjá Íslendingabók. Hann getur þess að í þeim persónuverndarlögum sem fyrir voru á Íslandi hafi verið sérstakt undanþáguákvæði fyrir ættfræði og æviskrárritun. Þegar Íslendingar tóku svo upp evrópsku persónuvernarlöggjöfina hafi þetta ákvæði verið fellt út.

„Í sumum löndum er virk þátttaka í starfi verkalýðsfélaga ekki litin neitt sérstaklega jákvæðum augum. Að fólks sé getið á þeim forsendum getur þá jafnvel talist miðlun viðkvæmra persónulegra upplýsinga enda vitnar þessi þátttaka þá um pólitísk viðhorf. Í framtíðinni gæti því jafnvel orkað tvímælis í ættarskrám eða slíkum bókum að geta þess að Ragnar Þór Ingólfsson og Sólveig Anna Jónsdóttir hefðu verið formenn í stéttarfélögum árið 2019,“ segir Friðrik og heldur áfram:

Viðkvæmar upplýsingar

„Þá má hafa í huga að í kirkjubókum er oft sagt frá dánarorsök fólks, hvort börnin hafi verið getin utan hjónabands og svo framvegis. Allt slíkt teljast nú vera viðkvæmar upplýsingar og breytir þá engu þótt viðkomandi fólk sé horfið yfir móðuna miklu fyrir öldum. Vissulega er langsótt að einhver fari að gera sér rellu yfir slíku. Þetta segir okkur þó samt að ættfræðingar og skrásetjarar þurfa í dag að fara mjög varlega svo þeir lendi ekki á lagalega gráum reitum.“