Seljahverfi Hér sést lóðin við Hagasel 23 þar sem nýr búsetukjarni er áætlaður. Til vinstri sést í félagsmiðstöðina og Seljakirkja er til hægri, en fyrir miðri mynd handan bílastæðis sést í Rangársel sem hýsir annað búsetuúrræði.
Seljahverfi Hér sést lóðin við Hagasel 23 þar sem nýr búsetukjarni er áætlaður. Til vinstri sést í félagsmiðstöðina og Seljakirkja er til hægri, en fyrir miðri mynd handan bílastæðis sést í Rangársel sem hýsir annað búsetuúrræði. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is Traust íbúa í Seljahverfi í Breiðholti í garð Reykjavíkurborgar er hrunið vegna ákvarðana sem þeir segja borgina taka nánast í skjóli nætur og án alls samráðs við sig.

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

Traust íbúa í Seljahverfi í Breiðholti í garð Reykjavíkurborgar er hrunið vegna ákvarðana sem þeir segja borgina taka nánast í skjóli nætur og án alls samráðs við sig. Þetta segir Hildur Jóna Bergþórsdóttir, íbúi í hverfinu, í samtali við Morgunblaðið.

Eins og blaðið greindi frá í síðustu viku rituðu hátt í 800 íbúar hverfisins undir mótmælalista gegn því að búsetukjarni fyrir fólk í þjónustuflokki III, sem er fólk með geðfötlun og virkan fíknivanda, rísi í hverfinu við Hagasel 23.

Hildur Jóna var í forsvari fyrir mótmælalistann og gagnrýnir vinnubrögð borgarinnar harðlega. Hún segir að nánast sé reynt að fela það í umræðunni um fyrirhugaðar framkvæmdir við Hagasel að annað búsetuúrræði er staðsett í beinni sjónlínu við lóðina. Það er Rangársel, en þar er meðal annars öryggisvistun fyrir fanga.

„Þegar Rangárseli var breytt í öryggisvistun fyrir fanga var það gert nánast yfir nótt. Þess vegna er svo furðulegt að þetta sé aftur gert nánast í skjóli nætur því það hefði alveg verið hægt að ræða við íbúa,“ segir Hildur og á við vinnubrögðin varðandi búsetukjarnann sem fyrirhugaður er við Hagasel. Auglýsingar um fyrirhugaða starfsemi á lóðinni hafi ekki farið hátt.

Óheppilegt fyrir alla málsaðila

Hildur segir einnig skrítið að borgin vilji ekki tala um búsetuúrræðið við Rangársel og það sem er fyrirhugað við Hagasel í sömu umræðu. Þá sé það mat íbúa hverfisins að þessi staðsetning við Hagasel sé ekki síður óheppileg fyrir þá sem þurfa að nota úrræðið, þar sem lóðin er alveg við félagsmiðstöð hverfisins þar sem oft eru mikil læti og ónæði á kvöldin.

„Það að ætla að setja fólk sem er að aðlagast nýju lífi á þetta svæði skil ég ekki alveg heldur, frá þeirra sjónarhorni. Mér finnst þessi staðsetning óheppileg fyrir notendurna sjálfa, en hvernig þetta er unnið er algjörlega út í hött,“ segir Hildur.

Öryggisvistunin er tímabundin

Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, gefur lítið fyrir þær áhyggjur að þessir búsetukjarnar verði of nálægt hvor öðrum.

„Þetta er óskyld starfsemi, þótt þetta séu hvort tveggja búsetukjarnar þá er þetta ekki sami hópurinn,“ segir Regína, og bendir einnig á að starfsemin í Rangárseli sé tvískipt; hefðbundinn búsetukjarni sé uppi og öryggisvistunin niðri. Það sé þó aðeins tímabundin lausn og sé ekki framtíðarstaðsetning fyrir öryggisvistunina.

Regína segir jafnframt að borgin hafi lítið um það að segja að lóðinni við Hagasel hafi verið úthlutað fyrir búsetukjarna á borð við þann sem er áætlaður. Þá hefur hún áður sagt að ekki verði um að ræða úrræði fyrir fólk með virkan fíknivanda.

„Við óskum eftir lóðum hjá skipulaginu, sem velur staðsetninguna. Við erum alltaf að leita að lóðum enda þarf að byggja upp fyrir um annað hundrað manns næstu ár,“ segir Regína.

Deilur um búsetuúrræði í Seljahverfi
» Fyrirhugaðar breytingar á deiluskipulagi lóðar við Hagasel 23 fela í sér byggingu húsnæðis fyrir fólk með geðrænan vanda.
» Yrði í beinni sjónlínu við Rangársel, sem meðal annars hýsir öryggisvistun fyrir fanga.