Læknir Fyrirhugaðar mótstöðuaðgerðir ná ekki til ónæmra sýkla nema að litlu leyti, segir Vilhjálmur Ari.
Læknir Fyrirhugaðar mótstöðuaðgerðir ná ekki til ónæmra sýkla nema að litlu leyti, segir Vilhjálmur Ari. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Frjáls innflutningur á fersku ófrosnu kjöti er öruggasta leiðin til að fjölga í stórum stíl lyfjaónæmum sýklum sem til landsins koma,“ segir doktor Vilhjálmur Ari Arason læknir.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Frjáls innflutningur á fersku ófrosnu kjöti er öruggasta leiðin til að fjölga í stórum stíl lyfjaónæmum sýklum sem til landsins koma,“ segir doktor Vilhjálmur Ari Arason læknir.

„Fyrirhugaðar mótstöðuaðgerðir ná ekki til slíkra sýkla nema að litlu leyti. Á Íslandi höfum við verið að mestu laus við þær flórubakteríur sem eru orðnar ónæmar fyrir algengustu sýklalyfjunum erlendis. Slíkar bakteríur valda algengustu sýkingum í fólki, svo sem í þvagfærum, í görn og gallvegum, sárum, húð, beinum og svo framvegis. Augljóst má vera hvert vandamálið verður ef lyfin virka ekki lengur á algengustu tilfallandi sýkingar.“

Mengar þúsund sinnum meira

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur á Alþingi lagt fram frumvarp til laga sem heimila myndi frjálsan innflutning á fersku ófrosnu kjöti og ýmsu nýmeti. Yrði slíkt að uppfylltum ýmsum skilyrðum um heilnæmi og öruggan uppruna. Þessar ráðagerðir eru umdeildar og sjónarmið um aukna sjúkdómahættu vega þungt. Þegar er hrátt kjöt flutt til landsins í stórum stíl sem frystivara og það segir Vilhjálmur Ari veita ákveðna vörn fyrir miklu smiti flórubaktería í flutningi og verslunum. En á fyrri stigum, þegar dýri er slátrað, mengast kjötið í flestum tilvikum af flóru dýrsins úr görn. Í sumum tilvikum einnig úr öndunarvegi þess og af yfirborði skrokks.

„Frostið heftir vöxtinn og hindrar leka úr kjötinu í umhverfi og í aðrar vörur. Ég hef sagt að ófrosið kjöt geti smitað þúsund sinnum meira en frosið. Ef markmið er að hindra smit flórubaktería, sem að stórum hluta eru sýklalyfjaónæmar, ættum við að flytja kjötið frosið alla leið til neytandans.Þannig eru minni líkur á að kjötið smiti í kringum sig. Slíkt gerist auðveldlega við snertingu og hugsanlega lekar umbúðir: smit úr vökva af kjöti sem seytlað getur í nærliggjandi umhverfi og vörur. Þess vegna í innkaupapokann og loks með fingrunum ofan í okkur,“ segir Vilhjálmur

Megum ekki taka áhættu

Undanfarið hafa þau sjónarmið komið fram, til dæmis frá dýralæknum, að öllu sé óhætt; svo öflugt sé matvælaeftirlit í Evrópu, hvaðan kjötið kemur til Íslands. Um þetta sjónarmið segir Vilhjálmur að eftirlitið nái fyrst og fremst til matareitrunarsýkla eins og kamfýlóbakters og salmonellu. Kjöt og kjúklingar geti í allt að helmingi tilvika verið smitað af sýklalyfjaónæmum flórubakteríum; það er í öðrum hverjum kjötbita eða kjúklingi. Í sumum löndum þykir slíkt ekki tiltökumál. Dæmi séu um svona ástand í nágrannalöndum okkar, svo sem í Svíþjóð og Danmörku. Almennt sé raunin þessi, viðloðandi í flestum löndum og fari vandinn vaxandi, að sögn Vilhjálms.

„Sýklalyfjaónæmi skapast fyrst og fremst af dreifingu ónæmra stofna sem hafa orðið til löngu áður með stökkbreyttum afbrigðum og jafnvel genflutningi milli tegunda og stofna sýklinga sem sýklalyf vinna ekki á. Raunveruleikinn er allt annar á Íslandi, að við tölum ekki um landbúnaðinn þar sýklalyfjanotkun er mjög lítil og minni en hjá flestum öðrum þjóðum.Við megum því ekki taka áhættuna; að flytja inn ferskt ófrosið kjöt með allri þeirri sýklalyfjaónæmu flóru sem þá kæmi nánast á færibandi. Það er álíka viturleg ákvörðun að heimila innflutning á hráu ófrosnu kjöti og að segja handþvott á spítölum óþarfan sem og aðrar skynsamlegar smitvarnir,“ segir Vilhjálmur og bætir við:

„Lýsa má vaxandi ónæmi fyrir sýklalyfjum sem einni mestu og ógnvænlegustu heilbrigðisvá 21. aldarinnar. Alvarlegar sýkingar sem hefur mátt meðhöndla og lækna með kraftaverkalyfjum 20. aldar verða aftur algengar og lífshættulegar. Pólitíkin í dag virðist stefna í þá átt að frjáls innflutningur meðal annars á hráu ófrosnu kjöti verði heimilaður sem gengur gegn þeim meginmarkmiðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO að hefta með öllum skynsamlegum ráðum útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.“

Hver er hann?

• Vilhjálmur Ari Arason fæddist árið 1956 og ólst upp í Reykjavík. Heimilislæknir frá læknadeild HÍ 1991, en starfar nú á slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 2009-2015. Situr í

Sóttvarnaráði sem fulltrúi Læknafélags Íslands, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013.