Þorvaldur Þórarinsson fæddist 12. nóvember 1969 í Sydney í Ástralíu. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 26. mars 2019.

Þorvaldur var sonur Ástu Þorvaldsdóttur, dáin 17. apríl 2016, og Þórarins Sæmundssonar.

Þorvaldur ólst upp hjá móður sinni og uppeldisföður, Halldóri Waagfjörð. Þorvaldur á einn bróður sammæðra, Jón Waagfjörð, og einnig systkini samfeðra.

Þorvaldur var í Ástralíu fyrstu tvö æviárin en fluttist þá til Íslands. Frá fimm ára aldri ólst hann upp í Vestmannaeyjum.

Þorvaldur lætur eftir sig þrjú börn: Ragnar Smári, fæddur 19. júlí 1999, og Selma Huld, fædd 6. október 2003, sem hann eignaðist með Guðbjörgu Ragnarsdóttur, og Helena Nhi Uyen Þorvaldsdóttir, fædd 18. apríl 2010, sem hann eignaðist með Thi Dung Nguyen.

Þorvaldur stundaði ýmis störf um ævina, hann var á sjó í nokkur ár, hóf 1987 störf í Skipalyftunni í Vestmannaeyjum, hann lærði þar plötusmíði. Hann flutti síðan til Danmerkur þar sem hann bjó um árabil. Eftir að Þorvaldur flutti aftur heim til Íslands vann hann lengi hjá HB Granda og síðan hjá Þorsteini frænda sínum í Frystitækni.

Þorvaldur var einn af frumkvöðlunum hér á landi í frisbígolfi og varð sex sinnum Íslandsmeistari í þeirri íþrótt.

Útför Þorvalds fer fram frá Hlöðunni, Gufunesbæ, Reykjavík, í dag, 8. apríl 2019, kl. 15.

Í dag kveðjum við ástkæran frænda minn, Þorvald Þórarinsson, sem lést langt fyrir aldur fram eftir stutt, snörp og erfið veikindi. Það er svo sárt að sjá á eftir þessum yndislega, ljúfa manni. Ég man Þorvald sem lítinn glókoll sem heillaði alla við fyrsta augnatillit. Orkumikinn pjakk sem tók upp á ýmsu, ef hann náði að festa tá þá var hann floginn upp um alla skápa og veggi. Ein elsta og eftirminnilegasta minningin um Þorvald er þegar hann var heima hjá okkur og týndist, hann hefur varla verið meira en tveggja eða þriggja ára. Það var leitað og leitað að drengnum, allur stigagangurinn var farinn að taka þátt í leitinni. Hann fannst loks þar sem hann hafði lokað sig inni í frystihólfi með stóra vörubílinn sinn og gat ekki opnað aftur. Mamma sagði alltaf að það hefði einhver tekið í höndina á henni og leitt hana að skápnum áður en illa fór. Skápurinn sá var reyndar bilaður eftir að Þorvaldur hafði tekið hann úr sambandi án þess að nokkur tæki eftir!

Ég man Þorvald sumarið þegar ég réð mig í vist til Ástu frænku að passa. Þorvaldur var átta eða níu ára og það sem hann plataði frænku sína út í, það voru bornar heim grálúsugar lundapysjur og skriðið eftir golfvellinum þverum og endilöngum til að safna golfkúlum sem mig minnir nú að Þorvaldur hafi síðan reynt að selja golfurunum til baka.

Ég man Þorvald sem ungling og sem ungan mann. Ég man kærleiksríka nærveruna og brosið bjarta. Ég man blíða manninn sem vildi öllum vel og vildi alltaf allt fyrir alla gera. Ég man hlédrægnina og ákveðnina. Ég man stoltan föður. Ég man stríðinn frænda. Ég man Þorvald frænda.

Samúðarkveðjur til ættingja og vina,

Íris Guðmundsdóttir.

Kveðja frá FGR

Það var okkur, félögum í Frisbígolffélagi Reykjavíkur, mikil harmafregn að frétta andlát Þorvaldar Þórarinssonar svo langt um aldur fram eftir stutt og erfið veikindi. Þorri var meðal stofnfélaga Frisbígolffélagsins, sannkallaður frumkvöðull þessarar nýju íþróttar og einn af máttarstólpunum í því þétta og nána samfélagi sem stundar hana hvað mest. Hann var sannkallaður afreksmaður eins og sex Íslandsmeistaratitlar hans í greininni bera vott um. Hann var keppnismaður af allra bestu sort, þeirri sem bæði samherjar og andstæðingar óska sér, ljúfmenni sem gaf hvergi eftir sjálfur en var eðlislægt að hvetja keppinauta sína áfram af hreinni velvild og ást á íþróttinni.

Íþróttaandinn verður ekki sannari en hjá slíkum manni sem getur gefið mótherjanum hollráð á ögurstundu í miðri keppni. Þorri var hæglátur og greiðvikinn leiðbeinandi sem átti stóran þátt í þroska og framförum hjá mörgum byrjandanum enda var afstaða hans og framkoma á vellinum til fyrirmyndar þar sem kappið var aldrei nálægt því að bera fegurðina ofurliði.

Síðast, en ekki síst, var hann traustur félagi sem bætti hvern hóp og smitaði hann jákvæðni og jafnaðargeði. Þorra verður sárt saknað, nú þegar þétta og örugga púttið hans í miðja súlu hefur sungið í keðjunum í síðasta sinn. Meðal okkar sem áttum með honum himininn að leikvelli fyrir svifdiska um stund lifir minning um góðan dreng sem kvaddi allt of fljótt.

Við sendum fjölskyldu hans og ástvinum einlægar samúðarkveðjur.

F.h. Frisbígolffélags Reykjavíkur,

Ólafur Haraldsson.

Það var mikið áfall að fá fréttirnar að Þorvaldur Þórarinsson, Þorri, væri fallinn frá. Þó að veikindi hans hafi vakið áhyggjur hjá öllum sem hann þekktu trúði því enginn að þessi sterki Eyjamaður þyrfti að láta í minni pokann fyrir illvígum sjúkdómi. Þrátt fyrir að augljóst væri að ástand hans færi sífellt versnandi var samt alltaf til staðar bjartsýni hjá honum um að nú færi alveg að finnast lausn á hans málum.

Þorvaldur kom eins og stormsveipur inn í frisbígolfheiminn hér á landi þegar hann fluttist aftur til Íslands árið 2004 en hann hafði þá kynnst frisbígolfinu í Danmörku þar sem hann hafði náð góðum tökum á íþróttinni svo athygli vakti.

Á Íslandi varð hann nær ósigrandi og sex Íslandsmeistaratitlar auk ótal annarra verðlauna bera vitni um það. Þorri var góð fyrirmynd íþróttamanna með sinni þægilegu framkomu bæði við nýliða og keppinauta. Þessi mikla hógværð gerði hann að vinsælum meðspilara og margir nutu þess að spila með honum og læra.

Nú er hann kominn á nýjan völl þar sem hann á eflaust eftir að láta diska fljúga á enn stærra sviði. Það verður mikil eftirsjá að þessum hógværa afreksmanni og góðar minningar lifa lengi hjá þeim sem til hans þekktu. Við sendum börnum, fjölskyldu og vinum innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Íslenska frisbígolfsambandsins,

Birgir Þór Ómarsson

formaður.