Fögnuður Stefán Rafn Sigurmannsson varð bikarmeistari í gær.
Fögnuður Stefán Rafn Sigurmannsson varð bikarmeistari í gær. — Ljósmynd/Aðsend
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Þetta var snilld,“ sagði Stefán Rafn Sigurmannsson handknattleiksmaður í gær þegar Morgunblaðið náði tali af honum eftir að hann varð ungverskur bikarmeistari í handknattleik með liði sínu Pick...

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Þetta var snilld,“ sagði Stefán Rafn Sigurmannsson handknattleiksmaður í gær þegar Morgunblaðið náði tali af honum eftir að hann varð ungverskur bikarmeistari í handknattleik með liði sínu Pick Szeged. Þar með var endi bundinn á tíu ára sigurgöngu Veszprém í keppninni en Stefán og félagar unnu einmitt Veszprém í úrslitaleiknum í gær með eins marks mun, 28:27. Pick Szeged var með sjö marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 17:10.

Leikmenn Veszprém lögðu allt í sölurnar í síðari hálfleik til að snúa leiknum sér í hag en allt kom fyrir ekki. „Við spiluðum frábæran fyrri hálfleik en síðan var þetta örlítið erfiðara í þeim seinni en við náðum að klára þetta, sem var ótrúlega sætt,“ sagði Stefán Rafn sem lék að vanda í vinstra horninu hjá Szeged og skoraði fjögur mörk í leiknum, þar af tvö úr vítaköstum.

Stefán Rafn skoraði einnig fjögur mörk í undanúrslitaleiknum á laugardaginn gegn Balatonfüredi. Pick Szeged vann þá viðureign með sjö marka mun, 33:26. „Þar var einnig um hörkuleik að ræða,“ sagði Stefán Rafn.

Stefán Rafn varð ungverskur meistari með Pick Szeged fyrir ári með því að vinna Veszprém í úrslitum. Þá hafði Veszprém unnið deildarkeppnina sleitulaust í áratug. Eins og stendur eru Stefán og samherjar í efsta sæti ungversku deildarinnar en úrslitakeppnin er fram undan.

Stefnan sett á undanúrslit

„Það er rosalega gaman að við séum komnir með svo sterkt lið sem raun ber vitni. Það er frábært að vera hluti af svona stóru og flottu félagi,“ sagði Stefán Rafn ennfremur.

Pick Szeged er einnig komið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar og mætir Vardar. Stefán Rafn sagði að áhersla yrði næst lögð á að komast í undanúrslit og taka þátt í úrslitahelgi Mestaradeildarinnar í Köln í vor. „Við setjum allt á fullt til að vinna Vardar.“

Þegar Morgunblaðið heyrði í Stefáni Rafni í gær eftir sigurinn stóð fyrir dyrum fjögurra tíma rútuferð til Szeged þar sem reiknað var með miklum hátíðahöldum við komu liðsins til borgarinnar. „Núna verður fagnað með öllum í borginni,“ sagði Stefán Rafn Sigurmannsson glaður í bragði og það ekki að ástæðulausu.