Léttur Þungur fargi var létt af Guðmundi Helga Pálssyni þjálfara Fram eftir sigurinn á ÍBV. Með honum gulltryggði Fram sæti sitt í Olís-deildinni.
Léttur Þungur fargi var létt af Guðmundi Helga Pálssyni þjálfara Fram eftir sigurinn á ÍBV. Með honum gulltryggði Fram sæti sitt í Olís-deildinni. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Lið Akureyrar handboltafélags féll úr úrvalsdeildinni • Fram skellti ÍBV í hörkustemningu í Framhúsinu og gulltryggði sæti sitt í deildinni • Vængbrotið Valslið vann deildarmeistarana, en náði ekki öðru sæti deildarinnar • Öruggt hjá Selfossi

Handbolti

Einar Sigtryggsson

Kristófer Kristjánsson

Lið Akureyrar Handboltafélags féll úr Olís-deild karla í á laugardagskvöld. Norðanmenn þurftu að vinna leik sinn gegn ÍR og treysta á að Fram myndi tapa gegn ÍBV. Fram vann hins vegar sinn leik, 33:28, og sigur hjá Akureyri hefði því ekki bjargað neinu.

ÍR-ingar voru ekkert að koma í neina kurteisisheimsókn og þeir spiluðu virkilega vel á fyrstu mínútunum. Þar lögðu þeir góðan grunn að sigri. Þeir leiddu 20:15 í hálfleik og lönduðu á endanum 35:29 sigri.

Akureyringar mættu einfaldlega betra liði í leiknum og voru ÍR-ingar gríðarlega kvikir og áræðnir. Heimamenn komust tvívegis á gott flug og voru um stund búnir að minnka átta marka bil niður í tvö mörk. Þá skildu leiðir á ný og ÍR fór í gegnum leikinn án frekari vandræða.

Liðsmenn ÍR voru flestir í stuði en Pétur Árni Hauksson var einstaklega þefvís á glufur og stoðsendingar. Línumennirnir komu einnig vel út og skyttan unga, Arnar Freyr Guðmundsson, er alltaf að finna sig betur. Hjá Akureyringum var gaman að sjá Patrek Stefánsson spila á fullu gasi sem og Garðar Má Jónsson. Þeir tveir voru atkvæðamestir og virkuðu sprækari en aðrir.

Akureyri byrjaði mótið heldur illa en var búið að vinna sig upp úr fallsæti fyrir jólafrí þegar það urðu þjálfaraskipti. Stjórnin vildi nýtt blóð og tók Geir Sveinsson þá við af Sverre Jakobssyni. Liðið vann tvo leiki undir stjórn Geirs og ef aðeins er litið á stigasöfnum þá var liðið með 0,62 stig að meðaltali úr leik fyrir þjálfaraskiptin en 0,44 eftir þau.

Liðsins bíður nú það hlutskipti að spila deild neðar og óvíst er með framhaldið hjá nokkrum leikmönnum. Ólíklegt er að Geir Sveinsson verði áfram með liðið en hann var bara ráðinn til að stjórna því út leiktíðina.

Framarar gerðu sitt

Framarar voru með örlögin í eigin höndum er ÍBV kom í heimsókn í Safamýrina í lokaumferð Olísdeildar karla í handknattleik á laugardaginn. Þeim dugði einfaldlega að vinna til að tryggja sæti sitt í deildinni og það gerðu þeir. Fram vann 33:28 sigur í afar fjörugum leik og var stemningin í Framhúsinu mikil eftir ansi erfiðan vetur.

Spennustigið var gríðarlegt í upphafi leiks, bæði á vellinum og í stúkunni, og bar leikurinn það með sér. Framarar voru ansi duglegir að kasta boltanum frá sér á köflum en það voru Eyjamenn hreinlega líka og mátti sjá ergelsi þjálfara beggja liða á hliðarlínunni. Leikurinn var lengst af hnífjafn og lið ÍBV var naumlega yfir í hálfleik. Tvíefldir Framarar mættu hins vegar eftir hlé og sneru taflinu glæsilega sér í vil en ansi margir leikmenn liðsins unnu fyrir dagkaupinu þegar á reyndi. Þorgrímur Smári Ólafsson og Þorsteinn Gauti Hjálmarsson hafa oft verið burðarásar í liði Fram þegar á reynir og sú var heldur betur raunin í gær. Þeir skoruðu báðir fimm mörk og lögðu þá nokkur upp á félaga sína. Hákon Daði Styrmisson skoraði sex mörk fyrir ÍBV og Kristján Örn Kristjánsson var næstur með fimm en engu að síður virtust Eyjamenn aldrei finna rétta taktinn í leiknum. Leikurinn skipti þá vissulega ekki jafn miklu máli en erfitt er þó að ímynda sér leikmenn í þessum gæðaflokki spila af kæruleysi þegar stutt er í úrslitakeppnina.

Framarar hafa leikið linnulaust í efstu deild síðan 1997 en félaginu hefur þó gengið misvel í efstu deild undanfarin ár. Það hefði verið hörmung fyrir Framara að falla enda liðið ágætlega mannað og skipað nokkrum reynsluboltum. Þó að væntingarnar séu kannski ekki háar í Safamýrinni vilja Framarar auðvitað ekki fara svo snemma í sumarfrí og þarf nú Guðmundur Helgi Pálsson þjálfari að púsla saman liðinu fyrir næsta vetur.

Eyjamenn eru aftur á móti að fara að mæta FH í úrslitakeppninni og þurfa þar að spila töluvert betur en á laugardaginn.

Selfoss hélt öðru sæti

Deildarmeistarar Hauka töpuðu fyrri Val í Schenkerhöllinni á Ásvöllum, 26:23. Sigurinn dugði Valsliðinu ekki til þess að ná öðru sæti deildarinnar af Selfoss sem vann stóran sigur á Stjörnunni, 32:16.

Róbert Aron Hostert var sterkur hjá Val og skoraði sjö mörk. Atli Már Báruson og Daníel Þór Ingason voru markahæstir hjá Haukum með sex mörk hvor. Haukar mæta Stjörnunni í átta liða úrslitum og Valur og Afturelding eigast við.

Nökkvi Dan Elliðason skoraði fimm mörk fyrir Selfoss. Ari Magnús Þorgeirsson og Garðar Benedikt Sigurjónsson skoruðu fjögur mörk hvor fyrir Stjörnuna. Selfyssingar mæta ÍR í úrslitakeppninni og eins og kemur fram hér að ofan, mætast Stjarnan og Haukar.

Fram – ÍBV 33:28

Framhús, Olís-deild karla laugardaginn 6. apríl 2019.

Gangur leiksins : 3:2, 6:4, 9:9, 10:10, 12:14, 16:17 , 18:18, 21:21, 25:24, 28:25, 33:28 .

Mörk Fram : Þorgrímur Smári Ólafsson 5, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 5, Svavar Kári Grétarsson 4, Þorgeir Bjarki Davíðsson 4, Valdimar Sigurðsson 3, Bjarki Lárusson 3, Matthías Daðason 2/1, Aron Gauti Óskarsson 2, Andri Heimir Friðriksson 2, Andri Þór Helgason 2/1, Sigurður Örn Þorsteinsson 1.

Varin skot : Viktor Gísli Hallgrímsson 7, Lárus Helgi Ólafsson 4.

Utan vallar : 10 mínútur.

Mörk ÍBV : Hákon Daði Styrmisson 6/2, Kristján Örn Kristjánsson 5, Dagur Arnarsson 3, Kári Kristján Kristjánsson 3, Gabríel Martinez 3, Fannar Þór Friðgeirsson 2, Friðrik Hólm Jónsson 2, Magnús Stefánsson 2, Sigurbergur Sveinsson 1, Elliði Snær Viðarsson 1.

Varin skot : Haukur Jónsson 5, Björn Viðar Björnsson 1.

Utan vallar : 8 mínútur.

Dómarar : Ramunas Mikalonis og Þorleifur Árni Björnsson.

Áhorfendur : 344.

Akureyri – ÍR 29:35

Höllin Akureyri, Olís-deild karla laugardaginn 6. apríl 2019.

Gangur leiksins : 2:3, 4:8, 6:12, 8:15, 11:17, 15:20 , 18:21, 20:25, 23:27, 23:29, 25:32, 29:35 .

Mörk Akureyrar : Patrekur Stefánsson 6, Garðar Már Jónsson 6, Ihor Kopyshynskyi 4/3, Friðrik Svavarsson 4, Brynjar Hólm Grétarsson 3, Hafþór Vignisson 3, Leonid Mykhailiutenko 2, Valþór Atli Guðrúnarson 1.

Varin skot : Arnar Þór Fylkisson 6/1.

Utan vallar : 8 mínútur.

Mörk ÍR : Pétur Árni Hauksson 7, Arnar Freyr Guðmundsson 6, Sveinn Jóhannsson 5, Sturla Ásgeirsson 5/5, Þrándur Gíslason Roth 4, Kristján Orri Jóhannsson 3, Elías Bóasson 2, Sveinn Andri Sveinsson 2, Ólafur Haukur Matthíasson 1.

Varin skot : Stephen Nielsen 14/1.

Utan vallar : 4 mínútur.

Dómarar : Bjarni Viggósson og Jón Karl Björnsson.

Áhorfendur : 650.