Þorgeir Hjörleifsson fæddist í Hnífsdal 14. október 1924. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Grund 28. mars 2019.

Foreldrar hans voru hjónin Elísabet Þórarinsdóttir, f. 6. júlí 1902, d. 8. október 1953, og Hjörleifur Steindórsson, f. 29. mars 1895, d. 18. febrúar 1957.

Systkini Þorgeirs eru: Steindór, f. 22. júlí 1926, d. 13. september 2012, Jens, f. 13. nóvember 1927, Þórarinn, f. 16. ágúst 1930, d. 7. janúar 2003, og Elsa Hjördís, f. 6. september 1937. Þorgeir kvæntist Unu Halldórsdóttur 24. október 1953. Hún var fædd á Ísafirði 12. ágúst 1931 og lést 5. nóvember 2000. Foreldrar hennar voru Kristín Svanhildur Guðfinnsdóttir, f. 6. desember 1907, d. 16. maí 1982, og Halldór Jónsson, f. 28. apríl 1890, d. 5. nóvember 1981.

Börn Unu og Þorgeirs eru: 1) Elísabet, f. 12. janúar 1955. Sonur hennar og Finns M. Gunnlaugssonar er Arnaldur Máni, f. 28. mars 1978. Sonur hans og Mörtu Maríu Jónsdóttur er Jóakim Uni, f. 2. febrúar 2007. Sambýliskona Arnaldar Mána er Karna Sigurðardóttir, f. 23. september 1984. Börn þeirra eru: Þorfinnur Sigurörn Knörr, f. 25. apríl 2015, og Margrét Elíanna Kára, f. 13. júlí 2016. 2) Halldór, f. 25. júlí 1956. Kona hans er Sjöfn Heiða Steinsson, f. 14. mars 1957. Börn þeirra eru: Berglind, f. 8. júlí 1980. Maður hennar er Adib Birkland, f. 27. júní 1980. Þeirra börn eru: Brynja Amina, f. 3. nóvember 2010, Sindri Fadl, f. 11. maí 2013, og Reynir Sanii, f. 5. október 2015; Hákon Atli, f. 16. október 1981. Kona hans er Bára Hlín Kristjánsdóttir, f. 25. september 1981. Þeirra börn eru: Hilmir Björn, f. 26. apríl 2012, og Ylfa Björk, f. 28. mars 2015.

Þorgeir gekk í barna- og unglingaskóla í Hnífsdal. Hann vann sem landmaður við beitningar til ársins 1944 þegar hann fór til Reykjavíkur. Þar vann hann við málmsteypu en var fljótlega boðið starf sem afgreiðslumaður í Herrabúðinni á Skólavörðustíg sem var í eigu sömu fjölskyldu. Síðan urðu verslunar- og skrifstofustörf hans ævistarf. Árið 1946 hóf hann störf á skrifstofu Djúpbátsins, vann síðan í Bókaverslun Matthíasar Bjarnasonar, í Neista og frá 1956 á skrifstofu Kaupfélags Ísfirðinga. Árið 1965 settu Samvinnutryggingar upp umboðsskrifstofu á Ísafirði og varð Þorgeir forstöðumaður hennar. Því starfi gegndi hann til ársins 1978 þegar þau Una fluttu suður. Þá varð hann tryggingafulltrúi hjá Samvinnutryggingum, síðar VÍS, í Ármúla 3 til starfsloka árið 1994.

Þorgeir starfaði með Leikfélagi Ísafjarðar og var formaður þegar félagið setti upp Meyjaskemmuna árið 1962 í samvinnu við Karlakór Ísafjarðar. Hann var í skátafélaginu Einherjum, Hjálparsveit skáta og St. Georgsgildinu í Reykjavík. Þorgeir var í Oddfellowreglunni frá árinu 1959, var yfirmeistari St. Gest á Ísafirði 1974-1976 og vann að stofnun Rb.st. Þóreyjar 1976. Hann var einn af stofnendum St. Snorra Goða í Hafnarfirði 1988, fyrsti yfirmeistari og fyrsti heiðursfélagi hennar og sótti fundi fram yfir nírætt.

Útför Þorgeirs fer fram frá Áskirkju í dag, 8. apríl 2019, klukkan 13.

Hve lengi get ég lofsungið þessi fjöll

lofsungið þetta haf, þessar eyjar og strendur

já menn og alla hluti sem huga minn gleðja

hve lengi, án þeirrar vissu að eitthvað sé til

ofar sérhverjum stað, hverri reynslu og hugsun sem teflir þessum fjöllum fram,

þessu hafi fjarlægð og nálægð, öllu - lífi og dauða

leikur því fram fyrir augum mér öruggri hendi?

(Hannes Pétursson)

Í dag kveðjum við hinstu kveðju föðurbróður minn, Þorgeir Hjörleifsson, eða Geira eins og ég kallaði hann alltaf. Þetta ljóð Hannesar Péturssonar „Umhverfi“ fær mig til að hugsa til fæðingarstaðar okkar í Hnífsdal. Hafið og fjöllin umhverfis okkur hafa eflaust mótað okkur án þess að við gerum okkur grein fyrir þeim áhrifum sem umhverfið hefur í uppvexti.

Það var yndislegt að fá að alast upp með samheldinni fjölskyldu Hjörleifs afa og Elísabetar ömmu. Þorgeir var elstur þeirra fimm systkina. Móðir þeirra var aðeins 51 árs þegar hún lést. Elsa sem var yngst var þá 16 ára. Geiri tók ungur að sér að sýna systkinum sínum hver ábyrgð þeirra væri í lífinu. Ekki voru þeir alltaf sammála bræðurnir eins og systkina er eðli og sagði Steindór bróðir þeirra oft skemmtilegar sögur af þeim, en vináttan ríkti.

Faðir minn, Jens, var miðjubarnið og kvæntist fyrstur þeirra bræðra. Móðir mín var þeim systkinum og foreldrum þeirra, meðan þau lifðu, mikil hjálparhella. „Nanna mín,“ sagði Geiri oft og iðulega þegar hann talaði um hana og mamma minntist oft á hversu stressuð og kvíðin hún var þegar hún var að stífa skyrturnar fyrir Geira því hann vildi alltaf vera snyrtilegur til fara og hugsaði líka vel um sig að öðru leyti.

Hjörleifsfjölskyldan stækkaði og þeim systkinum var það mikil gæfa hversu heppin þau voru með maka sína og hvað öll fjölskyldan náði vel saman.

Hlátur Geira hljómar fyrir eyrum mér þegar ég set þessi orð á blað, hann tók alltaf á móti mér hlæjandi og ég fékk innilegt faðmlag, aldrei voru skeggbroddar að trufla því hann hafði alveg einstaklega mjúka og fallega húð, enda fallegur allt í gegn.

Okkar störf í lífinu voru um margt lík, skrifstofustörf lengst af. Bæði unnum við við tryggingar og enduðum starfsævi okkar hjá sama fyrirtæki, VÍS.

Ég get ekki minnst Geira án þess að nefna elsku Unu sem kvaddi okkur alltof fljótt. Þau voru einstaklega samhent, samrýnd, félagslynd og gestrisin hjón. Missir Geira var því mikill við fráfall Unu. Á þeim tíma sýndi hann mikið æðruleysi.

Í minningunni frá tímum mínum fyrir vestan er hvað þau hjón voru dugleg að ferðast og fara í tjaldútilegur, bæði tvö ein og eins með börnin sín tvö, Elsu og Dúdda, enda skátar sannir.

Þakklæti er mér efst í huga á þessari stundu fyrir þau forréttindi að hafa fengið að alast upp með öllu þessu góða fólki sem miðlaði til okkar hvað lífið getur verið fallegt og ástríkt. Ljúfar minningar um þau hjón og hin sem farin eru munu lifa með okkur.

Elsku fjölskylda – innilegar samúðarkveðjur frá pabba og okkur öllum í hans fjölskyldu.

Sigríður Ingibjörg Jensdóttir.

Fyrstu kynni mín af Þorgeiri mági mínum rekja sig til ársins 1953 þegar samband hans og Unu systur minnar hófst. Þetta var viðburðasumar sem ég, átta ára snáði, eyddi með foreldrum mínum í Valhöll í Tunguskógi. Una kom þá í heimsókn og kynnti fyrir okkur þennan kærasta sinn frá Hnífsdal. Ég komst fljótlega að því að hann borðaði ekki krækiber en væri hins vegar sólginn í aðalbláber! Það er fremur lítið um þau þetta sumar en ég vissi þó að þau væru helst inni í birkikjarrinu og skreið því inn í runna með lítið mál og kom stoltur með það heim hálffullt og færði þessum kærasta systur minnar! Þannig hófst okkar vinátta sem varði allar götur síðan.

Þau Una og Geiri mágur eins og ég kallaði hann hófu búskap í nágrenni við okkur í Sólgötu 8, sem þótti á þeim tíma glæsilegt hús og gekk því undir nafninu „Höllin“. Þar fæddust bæði börn þeirra, Elísabet og Halldór, sem í okkar fjölskyldu hétu alltaf Elsa og Dúddi, gælunöfn sem þau nota enn. Það var því mikill samgangur á milli heimilanna Hrannargötu 10 og Sólgötu 8 og því margs að minnast en kannski standa aðfangadagskvöldin þar upp úr. En Geiri vildi ekki láta þar staðar numið og gerðist fyrir hönd fjölskyldunnar þátttakandi í nýjum íbúðablokkum sem voru reistar á okkar gamla fótboltavelli við Eyrargötu. Þar bjuggu þau sér fallegt heimili upp úr 1960.

Fjölskyldan var alla tíð samhent og var svo lánsöm að eiga sameiginleg áhugamál sem voru skátastarf, ferðalög og útivist. Geiri og Dúddi tilheyrðu að sjálfsögðu skátafélaginu Einherjum en Una og Elsa kvenskátafélaginu Valkyrjunni. Geiri hafði fengið dýrmæta reynslu í skátastarfi áður en hann stofnaði fjölskyldu. Hann hafði farið á rekkamót í Sjåk í Noregi árið 1949 og tveimur árum síðar, árið 1951, sigldi hann ásamt þremur ísfirskum skátabræðrum með flaggskipi íslenska flotans, Gullfossi, til Kaupmannahafnar. Þaðan var haldið til Bad Ischl í Austurríki áleiðis á hátind alls skátastarfs í heiminum, sjálft Jamboree. Þarf vart að ímynda sér hvílík upplifun það hefur verið fyrir unga menn á þessum árum. Í bakaleið var komið við í heimsborginni París en haldið heim aftur frá Kaupmannahöfn. Una og Geiri gegndu bæði forystustörfum fyrir skátafélögin og ólu sín börn upp í góðum skátaanda.

Á Ísafirði hóf Geiri sinn starfsferil á Djúpbátnum hjá Matthíasi Bjarnasyni, var síðan um tíma sölumaður hjá raftækjaversluninni Neista en lengst af starfaði hann hjá Samvinnutryggingum og veitti umboði þeirra á Ísafirði forstöðu. Seint á áttunda áratugnum flutti fjölskyldan búferlum til Reykjavíkur en það sleit ekki okkar góða sambandi því þeirra heimili varð okkar í Reykjavík og okkar þeirra á Ísafirði.

Það er margs að minnast en ég vil þegar mágur minn kveður þennan heim, 94 ára að aldri, þakka okkar fjölmörgu og góðu samverustundir á Ísafirði og í Reykjavík. Við Salbjörg sendum Elsu, Dúdda, Heiðu og öllum afkomendum innilegar samúðarkveðjur. Góður drengur hefur kvatt okkur og horfið til æðri heimkynna, en minningin um hann og Unu mun lifa með okkur alla tíð.

Ólafur Bjarni Halldórsson.

Hann var góður og grandvar maður hann Þorgeir Hjörleifsson, vandvirkur og samviskusamur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur hvort sem það var atvinnan, skátastarfið eða fjölskyldulífið. Geiri var elstur þeirra Hjörleifssystkina og hefur væntanlega snemma fundið fyrir þeirri ábyrgð. Hófsemi hans og stilling hefur komið sér vel þegar mikið gekk á hjá yngri bræðrunum þremur og litlu systur. Á æskuheimilinu í Hnífsdal ríkti mikið ástríki sem varð þeim öllum gott veganesti út í lífið og það hefur alltaf verið yndislegt að sjá kærleikann og kátínuna sem einkenndi samverustundir Hjörleifsfjölskyldunnar. Það var bara svo langt vestur þegar ég var krakki og ferðirnar þangað því of fáar en gestrisni þeirra Unu var einstök og mér fannst alltaf vera glaðasólskin þegar við heimsóttum þau.

Eftir að þau fluttu suður hittumst við oftar, sérlega minnisstæð eru skötuboðin á Þorláksmessu hjá Gullu og Ninna, gamlárskvöldið hjá foreldrum mínum Grétu og Steindóri og þrettándaveislan hjá Unu og Geira. Þegar Nanna og Jenni og Elsa og Kristmann voru í bænum var allt fullkomnað.

Í júlí 2002 fór Hjörleifshópurinn vestur til að minnast þess að 100 ár voru liðin frá fæðingu ömmu Elísabetar á Blámýrum í Laugardal. Þar sátum við í blíðviðri, hlustuðum á Geira rifja upp sögu ættmóðurinnar og við sem yngri vorum fundum fyrir þakklæti fyrir að við skyldum eiga þetta góða fólk og þessar rætur. Það hefur fækkað mikið í hópnum síðan þetta var. Una kvaddi líka allt of fljótt og er sárt saknað en Geiri sýndi stillingu og styrk, dyggilega studdur af börnum og barnabörnum. Nú eru þau sameinuð á ný og ég trúi ekki öðru en að það séu bæði faðmlög og hlátrasköll þegar Hjörleifsfjölskyldan kemur saman á himnum.

Far þú í friði Geiri frændi, ég bið að heilsa þeim hinum!

Ragnheiður Steindórsdóttir.

Allt hefur sitt upphaf og endi. Svo er einnig um lífsferil okkar allra. Nú hefur heiðursmaðurinn Þorgeir Hjörleifsson horfið yfir í önnur heimkynni og ég trúi því að hann sé búinn að hitta lífsförunaut sinn til margra ára, hana Unu Halldórsdóttur, sem lést árið 2000. Ætla má að þar hafi orðið fagnaðarfundir.

Þorgeir var fæddur í Hnífsdal, en flutti seinna til Ísafjarðar. Þar vann hann fyrir Samvinnutryggingar, var umboðsmaður þeirra á Ísafirði og nágrenni. Eftir að hann flutti til Reykjavíkur var hann áfram starfsmaður Samvinnutrygginga í nokkur ár. Hann gekk í Oddfellowstúkuna Gest á Ísafirði árið 1959 og gegndi þar mörgum embættum uns hann varð formaður stúkunnar. Nokkrum árum eftir að hann flutti til Reykjavíkur tók hann þátt í að stofna stúkuna okkar, stúku nr. 16 Snorra goða, sem var stofnuð fyrir u.þ.b. 30 árum. Það var þar sem ég kynntist Þorgeiri. Það var gott að hafa reyndan mann að leita til. Ég veit að þau verkefni sem hann innti af hendi fyrir stúkuna okkar voru vel af hendi leyst og honum til sóma, eins og öll önnur þau störf þar sem hann lagði hönd á plóginn. Fljótlega eftir stofnun stúkunnar okkar var hann heiðraður með því að gera hann að heiðursfélaga stúkunnar og var það að verðleikum. Þorgeir sótti vel fundi á meðan hann hafði heilsu til.

Þorgeir var orðvar maður og talaði aldrei hann illa um náungann. Hann var ekki maður sem barði bumbur á torgum, eða vakti á sér athygli í fjölmiðlum með hávaða og gífuryrðum. Hann vann öll sín störf, hver sem þau voru, í hljóði og af kostgæfni og áreiðanleika. Ef eitt orð ætti að lýsa Þorgeiri, þá er það orðið ljúfmenni.

Þorgeir dvaldi á Grund í lok æviskeiðsins, eftir að heilsa hans tók að bila. Einn stúkubróðir okkar, sem heimsótti hann oft þangað, sagði að í hvert skipti sem hann hefði komið til hans hefði alltaf verið friður og ró yfir honum, bæði áður og eftir að óminnið tók að hrjá hann.

Í mínum huga mun minningin um Þorgeir ætíð verða sveipuð björtu ljósi. Ég þakka honum samfylgdina og þær góðu stundir sem við áttum saman. Ég er viss um að honum hefur verið vel tekið þegar hann kom í hús föðurins.

Við stúkubræður sendum börnum hans, ættingjum og vinum innilegar samúðarkveðjur.

Kæri Þorgeir. Við, bræður þínir, munum minnast þín um ókomin ár.

Jóhannes Sverrisson.