— Morgunblaðið/Sverrir
8. apríl 1703 Manntal, hið fyrsta í heiminum sem náði til heillar þjóðar, var tekið á Íslandi um þetta leyti. Að því er varðaði gestkomandi fólk var miðað við þennan dag.

8. apríl 1703

Manntal, hið fyrsta í heiminum sem náði til heillar þjóðar, var tekið á Íslandi um þetta leyti. Að því er varðaði gestkomandi fólk var miðað við þennan dag. Á Alþingi í júlí voru Árna Magnússyni og Páli Vídalín „fengin fólkstöl og kvikfjártöl af öllu landinu,“ eins og sagði í Vallaannál.

8. apríl 1989

Jóhannes Jónsson opnaði fyrstu Bónusverslunina, við Skútuvog í Reykjavík. Starfsmenn voru þrír. Í blaðaauglýsingu sagði: „Matvöruverslun með nýju sniði. Afsláttur af öllum vörum. Engin greiðslukort – en bónus fyrir alla. Bónus býður betur.“ Eftir opnunina sagði Jóhannes í samtali við Morgunblaðið: „Móttökurnar hafa verið hreint frábærar.“

8. apríl 2008

Al Gore, friðarverðlaunahafi Nóbels og fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hélt fyrirlestur í Háskólabíói um loftslagsmál.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson