Atkvæðamikil Helena Sverrisdóttir átti sannkallaðan stórleik gegn KR í Vesturbænum og skoraði 36 stig, tók tólf fráköst og gaf 9 stoðsendingar.
Atkvæðamikil Helena Sverrisdóttir átti sannkallaðan stórleik gegn KR í Vesturbænum og skoraði 36 stig, tók tólf fráköst og gaf 9 stoðsendingar. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfubolti Kristján Jónsson Jóhann Ingi Hafþórsson Deildar- og bikarmeistarar kvenna í körfuknattleik í Val komu sér í góða stöðu í vesturbæ Reykjavíkur í gær. Valur náði þá í útisigur gegn KR 84:77 í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins.

Körfubolti

Kristján Jónsson

Jóhann Ingi Hafþórsson

Deildar- og bikarmeistarar kvenna í körfuknattleik í Val komu sér í góða stöðu í vesturbæ Reykjavíkur í gær. Valur náði þá í útisigur gegn KR 84:77 í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins. Fyrir vikið er Valur 2:0 yfir og KR þarf því að vinna þrjá leiki í röð til að komast í úrslit. Sagan sýnir okkur að slíkt er sjaldgæft í úrslitakeppnum Íslandsmótsins en eftir atburðina í 8-liða úrslitum karla á dögunum þá er víst ekki hægt að slá neinu föstu.

Valur náði mögnuðum kafla á lokamínútum fyrri hálfleiks í gær og lagði grunninn að sigrinum. Fyrstu sautján mínúturnar eða svo var leikurinn mjög jafn. En þá settu Valskonur niður sex þriggja stiga körfur og höfðu skyndilega sautján stiga forskot þegar fyrri hálfleik lauk. Hallveig Jónsdóttir og Dagbjört Dögg Karlsdóttir settu niður tvo þrista hvor á þessum kafla, Helena Sverrisdóttir einn og Heather Butler einn. Helena átti enn einn stórleikinn fyrir Val. Hún skoraði 36 stig, gaf 9 stoðsendingar á samherja sína og tók 11 fráköst. Hana vantaði því einungis eina stoðsendingu til að ná þrefaldri tvennu. Helena gerir svo ótal margt fyrir liðið og má nefna að hún varði þrjú skot og stal boltanum tvisvar.

Baráttan er í lagi hjá KR-liðinu sem reyndi að naga forskotið niður í síðari hálfleik. Forskotið fór niður í þrjú stig en lengra komst KR ekki. Kiana Johnson náði þreföldu tvennunni en hún skoraði 22 stig, tók 11 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Þá stal hún boltanum þrívegis. KR-liðið hefur ekki látið firnasterkt Valsliðið valta yfir sig í fyrstu tveimur leikjunum en liðið þarf að leika geysilega vel til að ná í sigur á Hlíðarenda í næsta leik.

Háspenna í Garðabæ

Stjarnan er einnig komin í 2:0 í sínu einvígi gegn Keflavík eftir 64:62-sigur á heimavelli. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann og fékk Keflavík þrjú fín tækifæri til að jafna metin í síðustu sókninni, en allt kom fyrir ekki. Leikmenn Keflavíkur sváfu væntanlega illa í nótt. Keflavíkurkonur misstu af upplögðu tækifæri til að jafna einvígið, en klaufaskapur á mikilvægum augnablikum, gerir það að verkum að brekkan er afar brött.

Liðin skiptust á skemmtilegum áhlaupum og úr varð jafn leikur, tveggja góðra liða. Eins og svo oft áður átti Danielle Rodriguez góðan leik fyrir Stjörnuna. Hún skorar ekki bara fullt af stigum, heldur matar hún liðsfélaga sína hvað eftir annað með glæsilegum sendingum. Sara Rún Hinriksdóttir er búin að leika ljómandi vel síðan hún kom í lið Keflavíkur á dögunum. Keflavík þarf hins vegar meira frá Brittanny Dinkins, til að eiga nokkurn möguleika á að vinna Stjörnuna þrisvar í röð.

KR – Valur77:84

DHL-höllin, undanúrslit kvenna, annar leikur sunnudaginn 7. apríl 2019.

Gangur leiksins : 4:2, 6:9, 12:13, 19:16 , 22:21, 28:28, 31:37, 31:48 , 39:50, 45:54, 53:62, 60:72 , 65:76, 67:76, 70:78, 77:84 .

KR : Kiana Johnson 22/11 fráköst/10 stoðsendingar, Orla O'Reilly 14/11 fráköst, Vilma Kesanen 12, Ástrós Lena Ægisdóttir 11, Unnur Tara Jónsdóttir 10/4 fráköst, Perla Jóhannsdóttir 5, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 3.

Fráköst : 27 í vörn, 6 í sókn.

Valur : Helena Sverrisdóttir 36/12 fráköst/9 stoðsendingar/3 varin skot, Heather Butler 18/4 fráköst, Hallveig Jónsdóttir 12, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 8, Ásta Júlía Grímsdóttir 6/6 fráköst, Simona Podesvova 4/10 fráköst.

Fráköst : 29 í vörn, 8 í sókn.

Dómarar : Sigmundur Már Herbertsson, Jóhann Guðmundsson, Friðrik Árnason.

Áhorfendur : 175.

*Staðan er 2:0, fyrir Val.

Stjarnan – Keflavík64:62

MG-höllin, undanúrslit kvenna, annar leikur sunnudaginn 7. apríl 2019.

Gangur leiksins : 0:5, 2:7, 4:12, 11:14 , 19:18, 25:22, 25:27, 31:27 , 32:34, 34:39, 41:43, 46:47 , 51:49, 56:51, 58:60, 64:62 .

Stjarnan : Danielle Victoria Rodriguez 22/8 fráköst/13 stoðsendingar/5 stolnir, Ragnheiður Benónísdóttir 12/10 fráköst, Veronika Dzhikova 12/9 fráköst, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 8, Jenný Harðardóttir 6, Bríet Sif Hinriksdóttir 3, Auður Íris Ólafsdóttir 1.

Fráköst : 22 í vörn, 12 í sókn.

Keflavík : Sara Rún Hinriksdóttir 20/8 fráköst/5 stoðsendingar, Brittanny Dinkins 17/13 fráköst/6 stoðsendingar, Birna Valgerður Benónýsdóttir 9, Bryndís Guðmundsdóttir 6/10 fráköst, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 5, Þóranna Kika Hodge-Carr 2, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 2, Irena Sól Jónsdóttir 1.

Fráköst : 30 í vörn, 10 í sókn.

Dómarar : Davíð Tómas Tómasson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Helgi Jónsson.

Áhorfendur : 180.

*Staðan er 2:0 fyrir Stjörnuna.