Jónas Elíasson
Jónas Elíasson
Eftir Jónas Elíasson: "Fyrirvarar ríkisstjórnarinar gera orkupakkann að flöskupúka sem landið á að geyma. Betra er að komast hjá því að samþykkja pakkann."

Stjórnvöld eru að reyna að koma til móts við andstöðuna gegn ACER og þriðja orkupakka ESB með því að bæta grein við 5. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003, þar skal koma:

Um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fer samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Segja má að full þörf sé á þessu, ESB hefur ráð til að þvinga Ice-Link (sæstrenginn) í gegn þvert á vilja Íslendinga þar sem hann er á lista ESB sem nefnist PCI. En eins og mál standa er ekki annað að sjá en þótt hann sé tekinn út núna hafi ACER öll ráð til að koma honum inn aftur. Hvað þá?

Væntanlega með þetta í huga vill stjórnin láta þingið bæta við þingsályktun nr. 26/148, A-lið, almenn atriði er varða uppbyggingu flutningskerfis raforku:

Ekki verður ráðist í tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis. Skal það samþykki liggja fyrir áður en framkvæmdir sem varða slíka tengingu geta farið á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar. Til grundvallar slíkri ákvörðun Alþingis skal liggja heildstætt mat á umhverfis-, samfélags- og efnahagslegum áhrifum slíkrar tengingar og framkvæmda vegna hennar.

M.ö.o. á að banna sæstreng til Evrópu til að geta samþykkt 3. orkupakkann. Þarna er verið að koma til móts við andstöðuna, sem er auðvitað virðingarvert. En til hvers á miðstýring raforkumarkaðar í Evrópu að gilda hér þegar bannað verður að tengjast honum? Er svona kjánagangur nauðsynlegur bara til að geta verið áfram í EES? Og, er eitthvað búið að láta reyna á það? Ekkert hefur frést af slíku. Báðir þessir textar eru á samráðssíðunni og viðbrögðin fremur neikvæð.

Þetta er svipað og taka við flöskupúka frá ESB svo við megum vera áfram í EES. Flösku sem á að geyma hér til eilífðarnóns og svo á Alþingi bara að passa að enginn nái tappanum úr flöskunni, því ef púkinn sleppur út tvöfaldar hann alla rafmagnsreikninga og rífur rafmagnið af bændunum og iðnaðinum, fiskiðnaður og stóriðja þar með talin.

Væri ekki nær að finna aðra leið? Fresta þessu máli a.m.k. til haustsins og nota tímann til að finna leið til að ná raforkunni út úr þessum pakka rétt eins og olíufélögin náðu olíunni og gasinu út úr honum. Í plagginu „Sameiginlegur skilningur um gildi þriðja orkupakkans gagnvart Íslandi“ 1 ) kemur ekki fram að þessi möguleiki hafi komið til umræðu yfirleitt.

Þjóðin hefur fram að þessu verið hlynnt veru landsins í EES, enda þótt hingað hafi streymt alls konar tilskipanir sem við urðum að samþykkja og aldrei hefðu komið til tals ella. Enginn vafi er á að ef ESB neyðir þessum flöskupúka upp á Ísland mun andstaðan við veruna í EES magnast tilsvarandi.

1 ) https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2019/03/22/Sameiginlegur-skilningur-um-gildi-thridja-orkupakkans-gagnvart-Islandi/

Höfundur er prófessor. jonaseliassonhi@gmail.com