Fossvogsskóli Viðgerð á skólahúsinu er hafin og gengur vel. Stefnt er að því að ljúka henni fyrir næsta skólaár.
Fossvogsskóli Viðgerð á skólahúsinu er hafin og gengur vel. Stefnt er að því að ljúka henni fyrir næsta skólaár. — Morgunblaðið/Eggert
Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Verkið sækist nokkuð vel og er á áætlun. Við stefnum á að klára fyrir nýtt skólaár,“ sagði Kristján Sigurgeirsson verkefnisstjóri um framkvæmdir við Fossvogsskóla.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Verkið sækist nokkuð vel og er á áætlun. Við stefnum á að klára fyrir nýtt skólaár,“ sagði Kristján Sigurgeirsson verkefnisstjóri um framkvæmdir við Fossvogsskóla.

„Þetta lítur miklu betur út en rannsóknir sem gerðar voru gáfu til kynna. Það er okkur í hag,“ sagði Kristján. Hann sagði að gerðar hefðu verið athugasemdir við ákveðna staði og verið væri að laga þá. Mygluskemmdir í skólahúsinu reyndust minni en talið var í upphafi.

Töluvert mikið hafði lekið með gluggum á austurhlið austasta húss skólans, þar sem bókasafnið er. Glerið var illa þétt en gluggarnir í góðu standi og enginn fúi í þeim. Þar er verið að glerja upp á nýtt og er verkið um það bil hálfnað.

Kennarastofan er í miðhúsinu og þar lak þakið þegar gerði hláku og pollur myndaðist í rennu. Til hafði staðið að skipta um járn á þakinu. Óskað hefur verið eftir tilboði í verkið og verður skipt um þak fljótlega.

Einnig verður skipt um loftræstikerfi í miðhúsinu og í Vesturlandi, vestasta húsinu, sem er elst.

„Í Vesturlandi skiptum við um öll loft og förum yfir einangrun og rakasperru. Við skiptum líka um alla gólfdúka þar. Gerðar voru athugasemdir við örfáa staði þar sem hægt var að rækta upp myglu. Við förum líka yfir þá staði,“ sagði Kristján. Þar sem búið er að opna í Vesturlandi lítur loftaefnið og burðarvirkið mjög vel út. Einhvern tíma hafði lekið með glugga sem liggur eftir endilöngum mæninum. Gert var við það á sínum tíma og sú viðgerð hefur alveg staðið sig.

Mikil samvinna

Nemendur í 2.-7. bekk eru fluttir með sex rútum hvern skóladag frá Fossvogsskóla í Laugardal og til baka að lokinni kennslu. Fyrsta bekk er kennt í færanlegum stofum, Útlandi, við Fossvogsskóla og þar er frístundastarf einnig til húsa.

„Það eru allir ákveðnir í að láta þetta ganga,“ sagði Árni Freyr Thorlacius Sigurlaugsson aðstoðarskólastjóri. „Þetta mun koma skólastarfinu til góða. Það er mikil samvinna og mikil teymiskennsla. Heilu árgangarnir eru í sama rými. Í Þróttarheimilinu er 2.-3. bekkur í stórum sal. Uppi í stúkunni eru 4.-7. bekkur og er hver árgangur er með sinn sal. Með hvern árgang eru tveir til þrír kennarar. Þetta er svolítið vesen en á eftir að verða skólastarfinu til góðs.“