Búr Börnin geta fylgst með fiskunum „innan frá“ á nýja safninu.
Búr Börnin geta fylgst með fiskunum „innan frá“ á nýja safninu. — Ljósmynd/Óskar Friðriksson
Nýtt hvala-, fiska- og náttúrugripasafn í gömlu fiskiðjunni í Vestmannaeyjum var opnað á laugardag. Hið nýja safn, sem einnig hýsir björgunarstöð fyrir lunda o.fl., tekur við af gamla safninu Sæheimum, sem opnað var 1964.

Nýtt hvala-, fiska- og náttúrugripasafn í gömlu fiskiðjunni í Vestmannaeyjum var opnað á laugardag. Hið nýja safn, sem einnig hýsir björgunarstöð fyrir lunda o.fl., tekur við af gamla safninu Sæheimum, sem opnað var 1964. Í samtali við Morgunblaðið segir Óskar Pétur Friðriksson Eyjamaður nýja safnið vera mjög frábrugðið hinu gamla og að allt sé mun nútímalegra.

„Maður er búinn að fara þúsund sinnum á gamla safnið, svo kemur maður á nýja safnið og þetta er algjör bylting. Búrin eru t.d. miklu stærri,“ segir Óskar og nefnir að mögulegt sé að fara inn í sum búrin. Þá nefnir Óskar glaður í bragði að á nýja safninu nái búrin neðar og því þurfi ekki að halda á yngstu gestunum svo þeir geti barið dýrin sem þar eru augum.

Áskorun að hanna safnið

Í samtali við Morgunblaðið segir Bragi Magnússon, verkfræðingur hjá Mannviti í Vestmannaeyjum, sem hefur haft yfirumsjón með byggingu safnsins, það hafa verið áskorun að hanna safnið, enda séu kröfur eigenda um velferð dýranna mjög miklar. „Þetta er björgunarstöð fyrir lunda og hvali líka, svo það eru gerðar enn þá ríkari kröfur um að dýrunum líði vel.“ Hann segir að lykillinn felist í því að hafa búrin nægilega stór fyrir dýrin og að hönnunin sé þannig að þau truflist sem minnst af gestunum, en einnig að gestirnir fái sem besta yfirsýn.“

Gera má ráð fyrir að mjaldrarnir hvítu, Litla-Hvít og Litla-Grá, sem innan tíu daga koma alla leið frá Sjanghæ til Vestmannaeyja, muni vekja mikla ánægju hjá áhugamönnum um skepnur hafsins. Í hinu nýja safni er laug fyrir hvalina en framtíðarheimili þeirra verður í kví í Klettsvík. teitur@mbl.is