— Morgunblaðið/Eggert
Teitur Gissurarson teitur@mbl.is Lækkun hámarkshraða á Hringbraut í Reykjavík mun ekki breyta neinu um öryggi gangandi vegfarenda á svæðinu. Hún mun þó hafa í för með sér aukna mengun. Slysið sem varð þegar ekið var á stúlkubarn við gatnamót Hringbrautar og Meistaravalla í janúar sl. var ekki vegna of mikils hraða bifreiðar heldur galla á gangbrautarljósunum.

Teitur Gissurarson

teitur@mbl.is

Lækkun hámarkshraða á Hringbraut í Reykjavík mun ekki breyta neinu um öryggi gangandi vegfarenda á svæðinu. Hún mun þó hafa í för með sér aukna mengun. Slysið sem varð þegar ekið var á stúlkubarn við gatnamót Hringbrautar og Meistaravalla í janúar sl. var ekki vegna of mikils hraða bifreiðar heldur galla á gangbrautarljósunum.

Þetta og fleira segir Ólafur Guðmundsson, sérfræðingur í umferðaröryggismálum, í samtali við Morgunblaðið í tilefni af því að 2. apríl sl. varð til nýtt þrep í hraðatakmörkunum í íslensku umferðarlagakerfi, 40 km/klst.

Formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar segir að huga ætti að því að breyta almennum hámarkshraða í þéttbýli úr 50 km/klst í 40 km/klst.

Segir umferðarljósin gölluð

„Þetta slys varð af því að það vantar rauða og græna kallinn. Þetta hafði ekkert með hraðann að gera,“ segir Ólafur, en eins og Morgunblaðið hefur áður sagt frá eru gangbrautarljósin á umræddum stað ekki með „rauðum og grænum karli“ mót gangandi vegfarendum.

Nú segir Ólafur að til standi að taka ljósin niður, þó ekki vegna umrædds ágalla heldur vegna þess að það sé ekki hægt að tengja ljósin við stjórntölvu miðlægrar stýringar umferðarljósa, sem staðsett er í Borgartúni. Segir hann þessa tegund ljósa vera á sautján stöðum í Reykjavík.

Að síðustu nefnir hann að með nýrri hraðatakmörkun muni mengun aukast, enda mengi bílar minnst á lágum snúningi í háum gír. „Ef öllum „50-götum“ í Vesturbænum yrði breytt í „40-götur“ myndum við auka CO2-útblástur um 900 tonn á ári.“

Öllum ljósunum verður skipt út

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður umhverfis- og samgönguráðs, segir gangbrautarljósin á svæðinu ekki vera gölluð en segir þó að á næstu tveimur árum verði öllum ljósastýribúnaði á umræddum kafla Hringbrautar skipt út. Ástæðan sé að ljósin séu af mismunandi tegundum og misgömul. Einnig sé fyrirhugað að bæta lýsingu á öllum götuþverunum á svæðinu.

„Við ættum að huga að því að hraði í þéttbýli yrði alla jafna 40 í stað 50. Lögin eru þannig í dag að ef þú sérð ekkert skilti þá er hámarkshraðinn 50 en í raun er miklu öruggara að hafa hann 40,“ segir hún.

Hún bætir við að nýja þrepið sé mikil gleðitíðindi. „Fyrsta skrefið er mikilvægasta skrefið.“ Nýja hraðatakmarkanaþrepið, 40 km/klst, tekur nú til Hringbrautar milli Sæmundargötu og Ánanausta, Hofsvallagötu milli Hringbrautar og Ægisíðu, á Ægisíðu, Nesvegi milli Kaplaskjólsvegar og Granaskjóls/Sörlaskjóls.