Sigurvegari Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, hefur deildabikarinn á loft eftir 2:1-sigur liðsins gegn ÍA í úrslitaleik á Eimskipsvellinum í Laugardalnum í gær við mikinn og innilegan fögnuð liðsfélaga sinna í KR.
Sigurvegari Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, hefur deildabikarinn á loft eftir 2:1-sigur liðsins gegn ÍA í úrslitaleik á Eimskipsvellinum í Laugardalnum í gær við mikinn og innilegan fögnuð liðsfélaga sinna í KR. — Morgunblaðið/Hari
Framherjinn Björgvin Stefánsson tryggði KR sinn áttunda deildabikarmeistaratitil þegar liðið vann 2:1-sigur gegn ÍA í úrslitaleik á Eimskipsvellinum í Laugardalnum í gær. Pablo Punyed kom KR yfir á 23. mínútu.

Framherjinn Björgvin Stefánsson tryggði KR sinn áttunda deildabikarmeistaratitil þegar liðið vann 2:1-sigur gegn ÍA í úrslitaleik á Eimskipsvellinum í Laugardalnum í gær.

Pablo Punyed kom KR yfir á 23. mínútu. Óskar Örn Hauksson átti þá frábæran sprett upp vinstri kantinn og hann lagði boltann út á Pablo sem var einn á auðum sjó, rétt utan vítateigs. Pablo skaut föstu viðstöðulausu skoti í nærhornið sem Árni Snær Ólafsson í marki ÍA réð ekki við og staðan orðin 1:0.

Það tók Skagamenn einungis tvær mínútur að jafna metin. Þórður Þorsteinn Þórðarson fór þá illa með varnarmenn KR, lagði boltann á Gonzalo Zamorano sem átti frábæra sendingu inn fyrir á Bjarka Stein Bjarkason, sem gerði engin mistök og renndi boltanum af öruggi í fjærhornið framhjá Beiti Ólafssyni og staðan orðin 1:1.

Skagamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar Atli Sigurjónsson sendi Björgvin Stefánsson í gegnum vörn ÍA á 55. mínútu með frábærri stungusendingu. Björgvin gerði virkilega vel úr þröngu færi; lyfti boltanum utanfótar yfir Árna Snæ í markinu og tryggði KR sigur.

Vesturbæingar eru ósigraðir á undirbúningstímabilinu á meðan ÍA hefur aðeins tapað tveimur leikjum en Íslandsmótið í knattspyrnu hefst hinn 26. apríl næstkomandi. ÍA fær KA í heimsókn á Akranes í fyrstu umferðinni en KR sækir Stjörnuna heim í Garðabæinn. bjarnih@mbl.is