Meistari Margrét Jóhannsdóttir einbeitt í úrslitaleiknum í gær.
Meistari Margrét Jóhannsdóttir einbeitt í úrslitaleiknum í gær. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Badminton Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Kári Gunnarsson úr TBR stefnir ótrauður á Ólympíuleikana í Tókýó 2020 en hann vann sinn áttunda Íslandsmeistaratitil í röð í einliðaleik karla á Íslandsmótinu í badminton í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði í gær eftir 2:1-sigur gegn Kristófer Darra Finnssyni í úrslitaleik.

Badminton

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Kári Gunnarsson úr TBR stefnir ótrauður á Ólympíuleikana í Tókýó 2020 en hann vann sinn áttunda Íslandsmeistaratitil í röð í einliðaleik karla á Íslandsmótinu í badminton í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði í gær eftir 2:1-sigur gegn Kristófer Darra Finnssyni í úrslitaleik.

„Ég átti ekki von á því að leikurinn yrði svona jafn satt best að segja. Kristófer spilaði mjög vel og hann las mig mjög vel. Það vantaði smá fjölbreytileika í spilið hjá mér en að sama skapi var þetta minn áttundi Íslandsmeistaratitill og ég fann meira fyrir pressunni í dag en ég var vanur. Ég hef tekið þátt í mörgum alþjóðlegum mótum að undanförnu en það er alltaf öðruvísi að koma heim og spila á Íslandi fyrir framan íslenska stuðningsmenn,“ sagði Kári í samtali við Morgunblaðið í Hafnarfirðinum í gær.

Kári lenti 1:0 undir í úrslitaleiknum og viðurkennir Íslandsmeistarinn að hann hafi fundið fyrir smá pressu og stressi eftir fyrstu lotuna.

Stig fyrir stig

„Ég er fyrst og fremst ánægður með að fara með sigur af hólmi, sérstaklega eftir að hafa lent undir eftir fyrstu lotuna, og það er alltaf jákvætt að geta komið til baka í úrslitaleik. Ég átti ekki minn besta dag en mér tókst að halda einbeitingu allan tímann og eftir fyrstu lotuna ákvað ég að taka þetta bara stig fyrir stig. Ég ákvað að breyta um taktík eftir fyrstu lotuna og ég fór að hreyfa fluguna meira og það virkaði. Það fylgir því ákveðin pressa að lenda undir í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn en ég er orðinn ágætlega reyndur og ég neita því ekki að reynslan hjálpaði mér að landa þessum áttunda Íslandsmeistaratitli.“

Það er nóg fram undan hjá þessum öfluga spilara sem hefur verið að klifra upp heimslistann á undanförnum mánuðum.

„Ég vil komast á Ólympíuleikana í Tókýó 2020 og keppa fyrir Íslands hönd. Það eru mörg mót fram undan hjá mér, til dæmis í Hollandi, Brasilíu og Slóveníu, og eins og staðan er í dag er ég í 139. sæti á heimslistanum. Ég var ekki á heimslistanum fyrir rúmlega ári þannig að bætingin hefur verið góð að undanförnu. Ég þarf að fara upp um sextíu sæti til þess að komast inn á Ólympíuleikana og ég tel það mjög raunhæft markmið fyrir mig ef ég held áfram á sömu braut.“

Sjöttu úrslitin á sex árum

Margrét Jóhannsdóttir, TBR, vann sinn fjórða Íslandsmeistartitil í röð eftir 2:0-sigur gegn Örnu Karen Jóhannsdóttur í úrslitaleik í einliðaleik kvenna en Margrét hefur lítið einbeitt sér að einliðaleik í vetur og því var sigurinn mun sætari fyrir vikið.

„Ég ákvað að einbeita mér að tvíliða- og tvenndarleik í vetur og ég tók þátt í mínu fyrsta einliðaleiksmóti fyrir mánuði þannig að ég hef oft mætt til leiks í betra einliðaleiksformi en í ár. Að sama skapi er ég mjög sátt með Íslandsmeistaratitilinn og það var virkilega gaman að fara með sigur af hólmi fjórða árið í röð.“

Margrét viðurkennir að hún hafi fundið fyrir smá pressu í upphafi leiks en þá hafi reynslan komið sterk inn. Hún var að spila sinn sjötta úrslitaleik á sex árum.

Setur pressu á sjálfa sig

„Það var smá stress í mér til að byrja með og uppgjafirnar hafa oft gengið betur hjá mér. Ég var óþolinmóð og Arna gaf mér hörkuleik, sérstaklega í fyrstu lotunni. Í annarri lotunni var ég þolinmóðari og það skilaði sigrinum að lokum. Ég spilaði fyrst til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn árið 2014 og það hjálpar manni vissulega mikið að hafa verið í þessum sporum áður; reynslan hjálpar manni alltaf, sama hvað bjátar á,“ sagði Margrét Jóhannsdóttir í samtali við Morgunblaðið.

Óvíst er hvað tekur við hjá þessari bestu badminton konu landsins en hún ítrekar að á meðan hún hefur ennþá gaman af íþróttinni muni hún halda áfram.

„Ég set alltaf mikla pressu á sjálfa mig, sem er ekki alltaf jákvætt, en það kemur ekkert annað til greina en að vinna, sérstaklega þegar maður hefur unnið titilinn undanfarin þrjú ár. Ég þarf að skila af mér BS-ritgerð í hjúkrunarfræði á næstu dögum og ætla því að taka mér smá pásu frá badmintoninu. Framhaldið er svo bara óákveðið en ég mun halda áfram að æfa á meðan ég hef ennþá gaman af þessu.“