Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson
Nú, þegar fyrir liggur skýrsla innri endurskoðunar borgarinnar á fjórum framúrkeyrsluverkefnum, er eðlilegt að önnur óráðsía verði einnig tekin til skoðunar.

Nú, þegar fyrir liggur skýrsla innri endurskoðunar borgarinnar á fjórum framúrkeyrsluverkefnum, er eðlilegt að önnur óráðsía verði einnig tekin til skoðunar.

Borgarstjóri er annarrar skoðunar og segir til að mynda aðspurður um Gröndalshús, sem minnihlutinn í borginni hefur lagt til að gerð verði úttekt á, að þar sé um að ræða gamalt verkefni sem unnið hafi verið af Minjavernd. „Ekki er víst að það myndi hafa mikið upp á sig að taka það út,“ segir borgarstjóri.

Út af fyrir sig er „ekki víst“ að úttekt myndi hafa mikið upp á sig, en það er þó líklegt. Og í ljósi þeirrar óreiðu sem ríkt hefur í tengslum við verkefni borgarinnar, og þá ekki aðeins Braggans sem borgarstjóri segir af léttúð að sé frávik, er sjálfsagt að fram fari úttekt á því sem snertir Gröndalshús.

Ennfremur er sjálfsagt að borgin fari að tillögu sjálfstæðismanna og kanni hvernig staðið var að samningum og riftun verkefnis á Grensásvegi 12 og að gerð verði úttekt á nýja vitanum við Sæbraut, sem líkt og Gröndalshús og fleiri verkefni fór langt fram úr áætlun.

Skiljanlegt er að borgarstjóri vilji síður að gerðar verði frekari úttektir á verkum meirihlutans. Verulegar líkur eru á að slíkar úttektir varpi enn sterkara ljósi á þá óreiðu sem ríkt hefur í fjármálum borgarinnar á liðnum árum. En það eru ekki rök fyrir að ráðast ekki í úttektir. Þvert á móti.