— Morgunblaðið/Hari
„Þrátt fyrir góða veðurspá og gott færi var ásókn í brekkurnar mun minni en við bjuggumst við,“ sagði Magnús Árnason, framkvæmdastjóri Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, í samtali við Morgunblaðið, en hann taldi líklegt að fjöldi ferminga...

„Þrátt fyrir góða veðurspá og gott færi var ásókn í brekkurnar mun minni en við bjuggumst við,“ sagði Magnús Árnason, framkvæmdastjóri Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, í samtali við Morgunblaðið, en hann taldi líklegt að fjöldi ferminga hefði þessi áhrif á skíðafólk.

Þeir sem mættu í brekkurnar fengu hins vegar sannkallaðan draumadag í fjallinu og var þessi hópur skíðakrakka á meðal þeirra sem urðu á vegi ljósmyndara í Kóngsgili í gær.

Aðspurður sagði Magnús að hann og hans fólk krosslegði nú fingur í von um að skíðatímabilið teygði sig yfir komandi páskahátíð. „Ef við náum páskunum þá erum við bara nokkuð ánægð.“ Skíðafólk á Norðurlandi lét einnig til sín taka um helgina en flennifæri var í Hlíðarfjalli á Akureyri í gær. „Það var mjög góð stemning og alveg stórkostlegt veður,“ sagði Ágúst Örn Pálsson, svæðisstjóri í Hlíðarfjalli, og hvatti jafnframt allt skíðafólk til þess að nýta síðustu vikur vetrarins í blíðviðrinu í fjallinu.