Atvinna 61 flugvirki starfaði hjá WOW air þegar félagið leið undir lok.
Atvinna 61 flugvirki starfaði hjá WOW air þegar félagið leið undir lok. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Pétur Hreinsson peturhreins@mbl.is Flugmönnum, flugstjórum og flugvirkjum sem störfuðu hjá WOW air sem varð gjaldþrota í lok síðasta mánaðar gengur vel að finna sér nýja vinnu en hana er mestmegnis að finna erlendis.

Baksvið

Pétur Hreinsson

peturhreins@mbl.is

Flugmönnum, flugstjórum og flugvirkjum sem störfuðu hjá WOW air sem varð gjaldþrota í lok síðasta mánaðar gengur vel að finna sér nýja vinnu en hana er mestmegnis að finna erlendis. Samtals voru 188 flugmenn og flugstjórar starfandi hjá WOW undir það síðasta og 61 flugvirki.

Flugfélögin Cargolux, Japan Air og Silk Way Airlines frá Aserbaídjsan hafa öll borið víurnar í flugmenn WOW air að sögn Vignis Arnar Guðnasonar, formanns Íslenska flugmannafélagsins, ÍFF, sem er stéttarfélag flugmanna WOW air. Hann segir ýmsa vera búna að fara í viðtöl en störfin séu ekki í hendi.

„Ekkert í boði hérna“

„En vissulega erum við eftirsóttur starfskraftur. En menn þurfa að fara út fyrir landsteinana. Það er ekkert í boði í hérna,“ segir Vignir í samtali við Morgunblaðið. Það séu þá svokallaðir túrar sem séu í boði. Annars þurfi fólk að flytja til útlanda með öllu því sem tilheyrir. „Auðvitað vilja menn búa hér og vinna. Sjálfur sá ég fyrir mér að vera hjá WOW air út starfsferilinn. Það er ekkert grín þegar því er kippt undan manni á einni nóttu,“ segir Vignir.

„Sumir fara í tímabundin verkefni á borð við pílagrímaferðir og sólarlandaflug í Evrópu fyrir hin ýmsu félög,“ segir Vignir og nefnir einnig aðspurður að stór hluti flugmannanna hafi farið í viðtal hjá Cargolux en 60% félagsmanna ÍFF voru Íslendingar. Hvað flugstjórana varðar virðast þeir tvístrast í fleiri áttir.

Vignir segir aðspurður að það hjálpi til að ÍFF-menn kunni til verka á Airbus-þotum í ljósi vandræðanna með Boeing 737 Max-þoturnar sem enn eru kyrrsettar.„Flugfélög eru væntanlega mikið að nota Airbus núna. Maður finnur það alveg,“ segir Vignir sem segist enn ekki hafa fengið símtalið frá Skúla Mogensen sem reynir þessa dagana að byggja WOW air upp á nýtt.

„Hann verður að hafa hraðar hendur því menn eru að tínast út um allan heim,“ segir Vignir.

Í vinnu strax eftir gjaldþrot

Að sögn Guðmundar Úlfars Jónssonar, formanns flugvirkjafélags Íslands, hefur flugvirkjum WOW air gengið vel að finna sér ný störf og bresk ráðningaskrifstofa sendi fulltrúa hingað til lands aðeins fjórum dögum eftir gjaldþrot WOW air.

„Það eru nokkrir strax komnir í vinnu á Íslandi og voru mættir til vinnu annars staðar á fyrstu dögum eftir gjaldþrot. Aðrir eru komnir með vinnu erlendis. Ekki allir en mjög margir,“ segir Guðmundur við Morgunblaðið.

„Íslenskir flugvirkjar eru eftirsóknarverðir alls staðar í Evrópu og hafa oft meiri réttindi en aðrir flugvirkjar,“ segir Guðmundur.

„Þýski markaðurinn er alltaf svolítið stór hjá íslenskum flugvirkjum og svo eru það sömuleiðis breskar ráðningaskrifstofur sem annast úthýst viðhald fyrir ýmis félög,“ segir Guðmundur. Segir hann þó að margir þurfi að ráða sig í ákveðin verkefni erlendis og verði síðan í fríi hér á Íslandi þess á milli.

Starfsmenn WOW air
» 188 flugmenn og flugstjórar störfuðu hjá WOW air er félagið leið undir lok. 60% þeirra eru íslenskir ríkisborgarar.
» 61 flugvirki starfaði hjá WOW air þegar flugfélagið varð gjaldþrota. Margir eru þegar komnir með vinnu.