Fjölmenni Harpa verður undirlögð á næstu dögum vegna Reykjavíkurskákmótsins.
Fjölmenni Harpa verður undirlögð á næstu dögum vegna Reykjavíkurskákmótsins. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.is Á þriðja hundrað skákmanna frá 40 löndum komu saman í Hörpu í gær á opnunarathöfn Reykjavíkurskákmótsins.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Á þriðja hundrað skákmanna frá 40 löndum komu saman í Hörpu í gær á opnunarathöfn Reykjavíkurskákmótsins. Forseti FIDE, Arkady Dvorkovich, er heiðursgestur mótsins og hefur lýst yfir áhuga á að styrkja skákkennslu í skólum hér á landi.

Á meðal keppenda eru 32 stórmeistarar, þar á meðal ofurstórmeistarar og skákundrabörn frá Bandaríkjunum, Indlandi og Íran. Þá hefur það vakið athygli að Íraninn Alireza Firouzja, sem er aðeins 16 ára, er þriðji stigahæsti keppandi mótsins. Mótið er tileinkað minningu Stefáns Kristjánssonar stórmeistara, sem lést í fyrra, langt fyrir aldur fram.

Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, segir að mótið sé af svipuðum styrkleika og í fyrra: „Það sem er áberandi í ár er að margir ungir og efnilegir skákmenn eru meðal keppenda,“ segir Gunnar og á þá meðal annars við yngsta stórmeistara heims, indverska undrabarnið Dommaraju Gukesh, sem er aðeins 12 ára, sjö mánaða og 17 daga. Hinn 16 ára Alirexa Firouzja er ekki síður efnilegur en Íslandsvinurinn og stórmeistarinn Ivan Sokolov hefur sagt að hann sé framtíðarheimsmeistaraefni.

FIDE vill styðja við skákkennslu í skólum Íslands

Arkady Dvorkovich, forseti FIDE, hefur þegar fundað með forsætisráðherra og menntamálaráðherra um mögulegan þátt FIDE í skákkennslu í íslensku menntakerfi. Að auki ræddi hann við Lilju um möguleg hátíðarhöld á Íslandi árið 2022, þegar hálf öld er liðin frá einvígi aldarinnar milli Spasskys og Fischers, sem fram fór í Laugardalshöll árið 1972.

Á setningu Reykjavíkurskákmótsins lýsti Katrín Jakobsdóttir ánægju yfir því að FIDE væri tilbúið að styrkja skákkennslu í skólum hérlendis og bætti við að setning Reykjavíkurskákmótsins markaði hátíðarstund á ári hverju.

„Margir minni skákmenn eru ekki að koma hér í fyrsta skipti og sérstaklega margir Þjóðverjar,“ segir Gunnar og bætir við að Henrik Carlsen, faðir Magnusar Carlsens, heimsmeistara í skák, hafi verið skráður á mótið en afskráð sig tveimur dögum fyrir það.

„Hann var að vonast eftir að geta verið með en Magnus er að keppa í Azerbaídsjan um þessar mundir,“ segir Gunnar og kveður það skýringuna á fjarveru Henriks.

Færri vegna gjaldþrots WOW

Gjaldþrot WOW-air hafði áhrif á þátttakendafjölda Reykjavíkurskákmótsins, að sögn Gunnars Björnssonar, forseta Skáksambands Íslands. Að hans sögn þurftu 10 keppendur, sem höfðu pantað flug með WOW air, að aflýsa ferð sinni til landsins og hætta við þátttöku á mótinu. Tilkynnt var um gjaldþrot lágfargjaldaflugfélagsins í lok mars, þegar aðeins tíu dagar voru fram að móti. Þetta setti strik í reikninginn hjá mörgum en Gunnar segir að þátttakan í ár sé engu að síður jafngóð og á undanförnum árum.