Dauðafæri Valskonan Anna Úrsúla fer inn af línunni í gær.
Dauðafæri Valskonan Anna Úrsúla fer inn af línunni í gær. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eyjar/Ásvellir Guðmundur Tómas Sigfússon Jóhann Ingi Hafþórsson Fram er komið í 2:0 í einvígi sínu gegn ÍBV í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handknattleik eftir sigur í Eyjum í gærkvöld, 34:29.

Eyjar/Ásvellir

Guðmundur Tómas Sigfússon

Jóhann Ingi Hafþórsson

Fram er komið í 2:0 í einvígi sínu gegn ÍBV í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handknattleik eftir sigur í Eyjum í gærkvöld, 34:29. Þrjá vinninga þarf til að komast áfram í úrslitaeinvígið og verður að teljast líklegt að Fram hreppi þriðja vinninginn á fimmtudagskvöld.

Eftir góða byrjun Framara, sem leiddu 9:3, kom slæmur kafli hjá þeim sem hefði átt að gefa góð fyrirheit fyrir afganginn af leiknum en allt kom fyrir ekki. Þrátt fyrir að ÍBV hafi minnkað muninn í 11:12 misstu Framkonur ekki dampinn og sigu fram úr hægt og bítandi.

Ragnheiður Júlísdóttir og Steinunn Björnsdóttir áttu stórkostlegan leik í gærkvöldi og léku á als oddi. Ragnheiður gerði þrettán mörk úr sínum fimmtán skotum, skotin voru mörg hver uppi í samskeytunum og óverjandi fyrir markvörð ÍBV. Steinunn spilaði ótrúlega varnarlega og var frábær sóknarlega, hún gerði sjö mörk úr sjö skotum, stal bolta, blokkaði skot og stöðvaði margar sóknir heimakvenna.

Framkonur spiluðu góða vörn þrátt fyrir að gefa Eyjakonum ekki mikið af fríköstum, þær þvinguðu leikmenn ÍBV í erfið skot og náðu markverðir Fram að verja tólf skot, fimm fleiri en Andrea í marki ÍBV.

Leikmenn ÍBV náðu sér ekki á strik í upphafi leiks og þrátt fyrir góða kafla inn á milli var sigurinn verðskuldaður. Að auki má nefna að 70% skota ÍBV komu að utan, þær áttu erfitt með að finna góð færi og því fór sem fór.

Haukar létu Val hafa fyrir sigri

Deildar- og bikarmeistarar Vals eru einnig einum sigri frá því að komast í úrslit eftir 24:20-sigur á Haukum á útivelli. Valur hefur oft spilað betur en í gær, en gæði liðsins eru það mikil að þrátt fyrir það var sigurinn öruggur.

Haukar spiluðu gríðarlega fasta vörn í byrjun leiks og virtist Valskonum brugðið. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður hafði Valur aðeins skorað þrjú mörk. Haukar voru hins vegar klaufar í sókninni og gátu Valskonur þakkað fyrir að fá aðeins fimm mörk á sig á þeim kafla. Þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik fékk Ragnheiður Sveinsdóttir, fyrirliði og einn besti varnarmaður Hauka, beint rautt spjald fyrir ljótt brot. Í kjölfarið varð leiðin að marki Hauka greiðari fyrir Val.

Það var ljóst að Haukar ætluðu að láta Valskonur finna fyrir því með hörðum varnarleik, en Ragnheiður fór yfir strikið og var refsað. Haukar voru ekki líklegir til afreka eftir rauða spjaldið. Heimakonur gátu helst þakkað Ástríði Glódísi Gísladóttur fyrir að sigur Valskvenna var ekki stærri. Markmaðurinn ungi varði 14 skot og þar af tvö vítaköst. Karen Helga Díönudóttir var sömuleiðis mjög öflug. Sandra Erlingsdóttir var nokkuð sein í gang, eins og aðrir leikmenn Vals, en eftir því sem leið á leikinn sýndi hún snilli sína sem leikstjórnandi. Ef hún var ekki að brjótast í gegn sjálf átti hún fallegar sendingar á liðsfélaga sína, nánast í hverri sókn. Valur er með betra lið en Haukar og þarf Hafnarfjarðarliðið á einhverju ótrúlegu að halda til að eiga möguleika á að fara í úrslit.

ÍBV – Fram 29:34

Vestmannaeyjar, undanúrslit kvenna, 2. leikur, mánudag 8. apríl 2019.

Gangur leiksins : 0:3, 2:7, 5:9, 8:11, 11:15, 14:20, 17:23, 18:23, 20:28, 23:29, 26:32, 29:34.

Mörk ÍBV : Ester Óskarsdóttir 8, Greta Kavaliauskaite 6, Arna Sif Pálsdóttir 6/2, Sunna Jónsdóttir 3, Sandra Dís Sigurðardóttir 3, Karolína Bæhrenz Lárudóttir 2, Kristrún Hlynsdóttir 1.

Varin skot: Andrea Gunnlaugsd. 8.

Utan vallar : 4 mínútur.

Mörk Fram : Ragnheiður Júlíusdóttir 13/3, Steinunn Björnsdóttir 7, Þórey Rósa Stefánsdóttir 6, Unnur Ómarsdóttir 3, Karen Knútsdóttir 2, Harpa María Friðgeirsdóttir 1, Hildur Þorgeirsdóttir 1, Elva Þóra Arnardóttir 1.

Varin skot : Erla Rós Sigmarsdóttir 8/1, Sara Sif Helgadóttir 3.

Utan vallar : 2 mínútur.

Dómarar: Bjarni Viggósson og Jón Karl Björnsson.

Áhorfendur : 173.

*Staðan er 2:0 fyrir Fram.

Haukar – Valur 20:24

Schenker-höllin, undanúrslit kvenna, 2. leikur, mánudag 8. apríl 2019.

Gangur leiksins : 0:2, 2:3, 5:3, 6:5, 7:5, 7:9, 9:10, 10:14, 11:15, 14:18, 15:22, 20:24 .

Mörk Hauka : Karen Díönudóttir 5, Berta Harðardóttir 5/5, Maria Pereira 4, Ramune Pekerskyte 2, Hekla Ámundadóttir 2, Vilborg Pétursdóttir 1, Þórhildur Braga Þórðardóttir 1.

Varin skot : Ástríður Glódís Gísladóttir 14/2, Saga Sif Gísladóttir 1.

Utan vallar : 6 mínútur (Ragnheiður Sveinsdóttir rautt spjald).

Mörk Vals: Sandra Erlingsdóttir 4/1, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 4, Íris Ásta Pétursdóttir 4, Ragnhildur Þórðardóttir 3, Morgan Þorkelsdóttir 3, Lovísa Thompson 2, Díana Magnúsdóttir 2, Ásdís Ágústsdóttir 2/1.

Varin skot : Íris Björk Símonard. 8.

Utan vallar : 4 mínútur.

Dómarar : Bjarki Bóasson og Gunnar Óli Gústafsson.

Áhorfendur : 429.

*Staðan er 2:0 fyrir Val.