[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Fjármála- og efnahagsráðuneytið fellst ekki á þær hugmyndir Seðlabanka Íslands og fleiri aðila að verðandi Þjóðarsjóður verði hýstur í Seðlabankanum eða í vörslu bankans sem hluti af gjaldeyrisforða bankans.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Fjármála- og efnahagsráðuneytið fellst ekki á þær hugmyndir Seðlabanka Íslands og fleiri aðila að verðandi Þjóðarsjóður verði hýstur í Seðlabankanum eða í vörslu bankans sem hluti af gjaldeyrisforða bankans.

Eins og greint var frá hér í blaðinu fyrr í vetur setti Seðlabankinn m.a. fram þá skoðun í umsögn við frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra að það gæti bæði verið heppilegt og hagkvæmt ef Seðlabankinn sæi um daglegan rekstur og umsýslu Þjóðarsjóðsins. Í frumvarpinu er hins vegar gengið út frá því að öllum rekstri sjóðsins verði útvistað til einkaaðila.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur nú svarað margvíslegum ábendingum og gagnrýni á frumvarpið með nýju minnisblaði til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Ráðuneytið er t.a.m. ósammála þeirri skoðun í umsögn Seðlabankans að markmiðið með stofnun Þjóðarsjóðsins séu sum þau sömu og búa að baki vörslu gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans. „Ráðuneytið lítur ekki svo á að gjaldeyrisvaraforða á vegum Seðlabankans hafi verið haldið úti til að mæta áföllum á borð við alvarlegar afleiðingar sjúkdómsfaraldurs, vistkerfisbrests eða náttúruhamfara, sem Þjóðarsjóði er ætlað að mæta,“ segir á minnisblaði ráðuneytisins.

Stærð og handbærni gjaldeyrisforðans lúti öðrum þjóðhagslegum viðmiðum en eigi við um Þjóðarsjóð, enda hlaupi kostnaður við forðann á annan tug milljarða króna árlega þar sem ávöxtun af honum sé afar lítil. Þá geti breytingar á gengi krónunnar haft mikil áhrif til lækkunar eða hækkunar.

,,Fremur virðist þá koma til álita að skoða hvort draga mætti úr umfangi forðans og kostnaði við hann. Loks er vandséð að til þess gæti komið að tekjutap eða útgjöld ríkissjóðs af mótvægisráðstöfunum í kjölfar efnahagsáfalls, t.d. vegna alvarlegs mengunarslyss á fiskimiðunum, væru greidd úr gjaldeyrisforða Seðlabankans,“ segir ráðuneytið.

Þjóðarsjóðurinn á að vera vörn fyrir þjóðina ef stórfelld áföll ríða yfir og til hans eiga að renna tekjur ríkisins af arðgreiðslum og auðlindaafnotagjöldum orkuvinnslufyrirtækja. Talið er að arðgreiðslur Landsvirkjunar gætu á nokkrum árum orðið 10-20 milljarðar kr. á ári. Á nýafstöðnum aðalfundi Landsvirkjunar var samþykkt að greiða 4,25 milljarða kr. í arð til eigendanna.

Umsýsla lánsfjármála ríkis frá Seðlabanka til ráðuneytis

Ráðuneytið telur ekki heppilegt að fela bankanum umsýslu Þjóðarsjóðsins, verkefnin tilheyri ekki hlutverki hans við framfylgd peningastefnu og fjármálastöðugleika og óþarft sé að hann verði milliliður fyrir ráðuneytið ,,í umgjörð sem ætlunin er að verði fremur einföld og skilvirk í sniðum“.

Í umfjöllun ráðuneytisins á minnisblaðinu til þingnefndarinnar er vikið að því að ráðuneytið hafi falið Seðlabankanum með samningi að hafa umsýslu með lánsfjármögnun ríkissjóðs. Nú sé verið að endurmeta þann samning í ljósi reynslunnar. ,,Þegar hefur verið ákveðið að færa samskipti við lánshæfisfyrirtæki til ráðuneytisins. Á árinu verður einnig til skoðunar að umsýsla með lánsfjármálum ríkissjóðs og upplýsingamiðlun um hana færist aftur til ráðuneytisins eða til stofnunar á vegum þess,“ segir á minnisblaðinu.

Ráðstafa ekki lífeyrissjóðum

Fjármála- og efnahagsráðuneytið vísar á bug þeim skoðunum í umsögnum að í stað varúðarsjóðs gæti þjóðin staðið af sér áföll með því að grípa til gjaldeyrisforðans, lántöku og með atbeina öflugra lífeyrissjóða. „Lífeyrismál landsmanna væru í uppnámi ef verja ætti t.d. þriðjungi eigna lífeyrissjóða til að mæta afleiðingum efnahagsáfalls eða vistkerfisbrests, sem væri reyndar óheimil eignaupptaka samkvæmt lögum,“ segir í athugasemdum við umsögn Viðskiptaráðs. ,,Ríkið hefur engan umráðarétt yfir eignum lífeyrissjóða landsmanna og getur ekki ráðstafað þeim í kjölfar áfalls, enda fæli það í sér eignaupptöku. Lífeyrisréttindi í lífeyrissjóðum eru stjórnarskrárvarin eignaréttindi,“ segir um umsögn Frosta Sigurjónssonar að við áfall gæti ríkið gripið til fjármuna lífeyrissjóða eða gjaldleyrisforðans.