Guðmundur Ögmundsson
Guðmundur Ögmundsson
Eftir Guðmund Ögmundsson: "Stærstur hluti hálendis Íslands er sameign allra landsmanna. Hálendið er einstakt á heimsvísu og okkur ber að standa vörð um það á markvissan hátt."

Í Morgunblaðinu 26. mars sl. er fjallað um andstöðu sveitarstjórnar Bláskógabyggðar við hugmyndir um miðhálendisþjóðgarð og rætt við oddvita sveitarfélagsins af sama tilefni. Hann segir sveitarstjórn óttast að missa skipulagsvald og vísar einnig í minnisblað Húnavatnshrepps þar sem áþekkum ótta er lýst; að sveitarfélagið missi það vald sem það hefur yfir hálendinu innan sveitarfélagsmarka. Í framhaldi af því veltir oddvitinn upp þeirri spurningu hvað kalli á að miðhálendið verði gert að þjóðgarði.

Svarið við spurningu oddvitans er einfalt: Miðhálendið er að stærstum hluta þjóðlenda, þ.e. í eigu ríkisins og þannig sameign allra landsmanna. Samkvæmt skoðanakönnunum vill meirihluti landsmanna þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Það eru því lýðræðisleg rök fyrir því að stofna þjóðgarð á miðhálendinu. Einnig eru sömu rök og voru til staðar þegar Þingvallaþjóðgarður var stofnaður: að vernda og gefa almenningi kost á að njóta.

Valddreifing en ekki samþjöppun

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur ekki ásættanlegt að stjórn og umráð yfir 40% Íslands verði í höndum fárra aðila. Það er þó alls ekki stefnan með miðhálendisþjóðgarði. Í sviðsmyndum nefndar sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði 2016 er lagt til að miðhálendisþjóðgarður byggi stjórnkerfi sitt á Vatnajökulsþjóðgarði. Þar mynda fulltrúar sveitarfélaganna meirihluta í stjórn og eiga þrjá fulltrúa af sex í svæðisráðum, þ.ám. formann. Auk þeirra eiga umhverfis- og náttúruverndarsamtök, útvistarsamtök og ferðamálasamtök einn fulltrúa hvert í svæðisráði (í flestum tilfellum eru þessir fulltrúar íbúar í viðkomandi sveitarfélögum). Fyrirhugaður miðhálendisþjóðgarður mun þannig fjölga þeim sem fara með stjórn miðhálendisins, ekki fækka.

Heimamenn ráða ferðinni

Svæðisráð hvers svæðis hefur yfirumsjón með tillögu að stjórnunar- og verndaráætlun og stjórn sem samþykkir og ráðherra staðfestir. Oddviti Bláskógabyggðar óttast réttindamissi og vísar þar í upprekstrarrétt, námur og veiðirétt, en þessi réttindi geta heimamenn skilgreint og varið í gegnum stjórnunar- og verndaráætlun. Sauðfjárbeit er víðast hvar leyfð í Vatnajökulsþjóðgarði, rjúpna-, gæsa- og hreindýraveiði er einnig heimil á ákveðnum svæðum og efnistaka úr námum er heimil þar sem hún þykir ekki hafa neikvæð áhrif. Þannig var efni í gerð Dettifossvegar að stórum hluta tekið úr námum innan þjóðgarðsins. Það er því ekkert að óttast varðandi réttindamissi nema þá helst ef um er að ræða ósjálfbæra nýtingu.

Fjármögnun

Oddvitinn telur þjóðgarðana vanfjármagnaða og það er laukrétt hjá honum. Hins vegar hefur það batnað mjög á síðastliðnum árum, bæði með auknu framlagi á fjárlögum og eins með tilkomu landsáætlunar um uppbyggingu innviða.

Oddvitinn veltir því einnig fyrir sér hvort ekki sé betra að nota peningana í eitthvað annað, en þá má benda á nýlegar rannsóknir, innlendar og erlendar, sem sýna fram á margfeldisáhrif þess fjármagns sem sett er í þjóðgarða og friðlýst svæði. Þannig hefur verið fullyrt að hver króna sem sett er í þjóðgarð skili sér í 14 krónum til ríkissjóðs, en þótt þær væru ekki nema tvær væri samt sem áður ávinningur af framlaginu.

Hálendi Íslands er einstakt

Burtséð frá hagrænum áhrifum er óumdeilt að hálendi Íslands er mjög sérstætt á heimsvísu og þar eru síðustu stóru víðerni Evrópu. Hálendið á líka mikla sögu og menningu sem ber að varðveita, hvort sem það eru sagnir af útilegumönnum og Íslendingasagnahetjum eða hefðir sem tengjast búskap, nytjum og ferðalögum. Öllum hlýtur að vera ljóst hversu mikilvægt er að tryggja vernd hálendisins til framtíðar og að nýting þess sé ávallt sjálfbær. Um það snýst þjóðgarður á miðhálendi Íslands og ekkert annað.

Höfundur er þjóðgarðsvörður í Jökulsárgljúfrum. gudmundur.ogmundsson@gmail.com

Höf.: Guðmund Ögmundsson