Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is Einstaklingur sem kom fyrir nokkurs konar njósnatæki í tölvu í Háskólanum á Akureyri á dögunum, sem nemur það sem slegið er á lyklaborð, komst óséður aftur út með tækið eftir að það fannst.

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

Einstaklingur sem kom fyrir nokkurs konar njósnatæki í tölvu í Háskólanum á Akureyri á dögunum, sem nemur það sem slegið er á lyklaborð, komst óséður aftur út með tækið eftir að það fannst.

Hólmar Svansson, framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu HA, segir að tækið hafi verið hreinsað eftir að það fannst en því svo komið fyrir aftur í von um að hægt væri að góma viðkomandi þegar hann kæmi að vitja um tækið. Til þess að fylgja öllum reglum um persónuvernd varð töf á uppsetningu eftirlitsmyndavéla og í millitíðinni náði viðkomandi í tækið úr vélinni og komst óséður á braut.

„Fólk er svekkt að svona óheiðarleiki viðgangist hér, að verið sé að reyna að stela lykilorðum fólks. Við sáum að þarna inni voru upplýsingar sem hefðu verið viðkvæmar, en náðum sem betur fer að eyða því öllu svo viðkomandi hafði ekkert upp úr krafsinu,“ segir Hólmar, en tækið sendi ekki frá sér nein gögn heldur þurfti að vitja um þau.

Um var að ræða kennaratölvu í opinni kennslustofu í skólanum, svo ekki er hægt að fullyrða að um nemanda eða starfsmann skólans hafi verið um að ræða. Hins vegar virðist viðkomandi hafa þekkt til á svæðinu og möguleiki hafi verið á því að ná inn á svæði kennara, jafnvel hafa áhrif á einkunnir eða sjá próf á undan öðrum. Það hafi ekki tekist og Hólmar segir að sennilega sé ekkert hægt að gera nema vara fólk við að skilja tölvur eftir á opnum svæðum. Leiðinlegast sé að hafa ekki náð að góma neinn.

Hægt að kaupa slík tæki á slikk

„Hér áður fyrr hefði sennilega ekki verið hikað við að henda upp vél og ná þannig mynd af viðkomandi, en í dag þarf að gæta að því að gera slíkt með réttum boðleiðum og að tilgangurinn sé ljós, hvað verður um gögnin og slíkt. Það er auðvitað gott og gilt, en getur þýtt að stundum taka hlutirnir lengri tíma.“

Hólmar segir að til þess að bregðast við atvikum sem þessum verði að öllum líkindum smíðað utan um tölvur skólans svo ekki verði hægt að stinga minnislyklum eða öðrum tækjum í samband. Nú sé hins vegar þetta tæki í umferð, sem hann segir að auðvelt sé að kaupa fyrir slikk á netinu. Þá sé það þekkt í dag að nota svona tæki til að stela gögnum.