Ég hef fylgst spenntur með gengi KA í Olís-deildinni í vetur. Tímabilið hefur gengið upp og ofan en markmið liðsins um að halda sæti sínu í deildinni náðist.
Ég hef fylgst spenntur með gengi KA í Olís-deildinni í vetur. Tímabilið hefur gengið upp og ofan en markmið liðsins um að halda sæti sínu í deildinni náðist. Það var ljóst þegar einni umferð var ólokið og gáfu KA-menn það strax út að þeir ætluðu að enda tímabilið á algjörri veislu í lokaleik liðsins gegn FH.

Heimir Örn Árnason spilaði þar sinn síðasta leik og Sverre Andreas Jakobsson var dreginn inn í leikmannahópinn. Þeir voru báðir í þjálfarateymi liðsins. Það vantaði bara að Jónatan Magnússon birtist í KA-búningnum til að fullkomna veisluna.

Í viðtali eftir leik sagði Sverre að hann og Heimir hefðu séð mikinn sjarma í því að spila saman nokkrar varnir. Þeir spiluðu eina vörn saman í leiknum.

Heimir sagðist hafa fengið gæsahúð þegar Sverre kom inn á og það hefðu verið mistök að láta hann ekki spila meira.

Eins og alltaf þegar leikmaður kemur inn í hóp þá fer annar út. Sá var búinn að taka hundrað aukaæfingar á þessu tímabili, spila frábærlega með U-liði KA og stimpla sig inn í aðalliðið með góðri frammistöðu þar. Persónulega finnst mér það mjög ófaglegt hjá þjálfarateyminu að henda slíkum manni úr leikmannahópnum svo að gömul kempa getið sungið sinn svanasöng í tuttugu sekúndur.

Ég veit að margir KA-menn eru mér sammála og þar á meðal eru leikmenn og stjórnarmenn. Þjálfarar eiga ekki að misnota stöðu sína til að búa til eitthvað sjarmerandi sem þjónar þeirra einkahagsmunum. Þeir eiga að hlúa að sínum leikmönnum í stað þess að særa þá.