Viðar Guðjohnsen
Viðar Guðjohnsen
Eftir Viðar Guðjohnsen: "Ef engar aðrar ástæður eru fyrir hendi en þreytandi uppgjafartal um að „við eigum engra kosta völ“ er nokkuð augljóst að þingið á alls ekki að samþykkja pakkann."

Sem sjálfstæðismanni þykir mér leiðinlegt að horfa upp á hvernig forysta Sjálfstæðisflokksins ætlar sér að þverbrjóta samþykktir síðasta landsfundar m.t.t. orkumála en forystusveit flokksins hefur lagt til innleiðingu á svokölluðum þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Landsfundur hafði hafnað pakkanum. Síðast þegar flokksforystan braut samþykktir flokksins með sambærilegum hætti var það dýrkeypt og fylgi flokksins hefur ekki enn jafnað sig. Hér er átt við þegar forysta flokksins fór á sveig við landsfundarsamþykktir og ákvað að styðja vinstristjórnina í Icesave-deilunni.

Ástæðurnar fyrir þriðja orkupakkanum eru mjög óljósar þar sem Ísland tengist ekki á nokkurn hátt innri orkumarkaði sambandsins. Í raun hafa talsmenn innleiðingarinnar aðeins viðrað eina ástæðu, þ.e. að „við eigum engra kosta völ“.

Með þriðja orkupakkanum fylgja hinar og þessar kvaðir og lagaflækjur sem meira að segja helstu talsmenn þriðja orkupakkans, þ.ám. ráðherrar, geta varla útskýrt og hvað þá séð fyrir afleiðingarnar.

Annar orkupakki Evrópusambandsins hafði líka í för með sér hinar og þessar breytingar, s.s. uppskiptingu vinnslu og dreifingu, en það hækkaði raforkuverð til landsbyggðar. Bakarar bentu nýlega á að raforkuverð til þeirra hefði tvöfaldast með komu þessa orkupakka. Fáir ef einhverjir sáu það fyrir og það er dálítið merkilegt að í allri umræðunni virðist enginn geta bent á neitt gott sem fylgdi þeim orkupakka. Þrátt fyrir það er hann með forkastanlegum hætti eitthvað tengdur við þriðja orkupakkann og látið líta út fyrir að örlög þriðja orkupakkans hafi í raun verið ákveðin árið 2003. Sá málflutningur er afskaplega undarlegur þar sem þriðji orkupakki Evrópusambandsins var ekki einu sinni kominn á teikniborðið í Brussel það árið.

Hvað vitum við annars um þriðja orkupakkann? Við vitum að í honum felst valdaframsal. Meira að segja talsmenn orkupakkans fela ekki þessa staðreynd.

Við vitum líka að í honum felst aukin markaðsvæðing orkugeirans. Er það eitthvað sem við viljum? Ég starfaði sem apótekari í Þýskalandi í nokkur ár. Orkukostnaður var þar með þeim hætti að við konan kyntum íbúðina aðeins tvisvar daglega, þ.e. þegar staðið var á fætur og þegar lagst var til hvílu og þá aðeins í um klukkustund í senn. Gengur það á klakanum? Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, hefur einnig í þessu samhengi bent á að fjárfestingafélög, sem enginn veit hver á, eru að kaupa upp helstu jarðir á Íslandi og að smávirkjanir lúta ekki sömu lögum og stærri virkjanir. Ef þrýstingur frá slíkum aðilum hefur áhrif á framvindu mála eru ráðamenn farnir á vafasama braut.

Samlegðaráhrifin af valdaframsalinu og aukinni markaðsvæðingu í orkugeiranum geta reynst okkur Íslendingum dýrkeypt. Erum við að festa í lög eitthvert evrópskt reglugerðafargan sem getur gert grundvallarbreytingar á hagsmunum þjóðarinnar og vilja löggjafans með erlendum úrskurði?

Með aukinni markaðsvæðingu hlýtur í framhaldinu að koma upp sú krafa að markaðurinn starfi með eðlilegum hætti, að ríkið eigi ekki orkufyrirtæki sem sé í slíkri í yfirburðastöðu að það geti haft áhrif á markaðinn. Ég hef varpað fram þeirri spurningu hvort að með valdaframsalinu gæti sú staða komið upp að ríkið þyrfti að brjóta upp Landsvirkjun og selja hana. Gæti komið upp eitthvað ófyrirsjáanlegt í tengslum við orkuframleiðslu og -dreifingu því menn ákváðu að samþykkja einhvern orkupakka sem ekki einu sinni flutningsmenn virðast skilja? Eitt grundvallaratriði EES-samningsins var á dögunum dæmt ólögmætt, þ.e. innflutningshöft ákveðinna landbúnaðarafurða. Enginn sá það fyrir og það hlýtur að þurfa að horfa til þess máls við innleiðingu á þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Stundum breytast grundvallaratriði án þess að Alþingi hafi nokkuð um það að segja.

Sjálfir flutningsmenn þriðja orkupakkans virðast að einhverju leyti hafa áhyggjur af innleiðingunni og leggja fram orkupakkann með fyrirvörum en hver er reynsla Íslendinga af innihaldslausum fyrirvörum? Halda fyrirvarar? Var ekki nýlega verið að dæma grundvallaratriði EES-samningsins ólögmætt? Það grundvallaratriði var lögbundið. Það er alveg á kristaltæru að fyrirvarar hafa litla sem enga þýðingu þegar kemur að dómsvaldinu í Brussel.

Í þessu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar verður þjóðin að fá að njóta vafans og ef engar aðrar ástæður eru fyrir hendi en þreytandi uppgjafartal um að „við eigum engra kosta völ“ er nokkuð augljóst að þingið á alls ekki að samþykkja pakkann.

Við þingmenn allra flokka langar mig að vekja athygli á einu að lokum. Það er auðvitað erfitt fyrir þingmenn að fara gegn flokksforystu. Það tekur á. Sama má segja um okkur flokksmenn sem þykir auðvitað vænt um okkar forystu og verjum hana og styðjum þegar gengið er til kosninga. Í þessu máli, rétt eins og í Icesave, er þó átakafælni ekki afsökun. Það er hreinlega of mikið í húfi.

Fari svo að þingið bregðist skyldu sinni hlýtur að koma til álita að forseti sendi þetta hagsmunamál til þjóðarinnar.

Höfundur er lyfjafræðingur og sjálfstæðismaður.

Höf.: Viðar Guðjohnsen