Grillveður Gasgrillin voru víða vakin úr vetrardvala í góða veðrinu sem ríkti á höfuðborgarsvæðinu um helgina og grillvörur seldust vel.
Grillveður Gasgrillin voru víða vakin úr vetrardvala í góða veðrinu sem ríkti á höfuðborgarsvæðinu um helgina og grillvörur seldust vel. — Morgunblaðið/Golli
Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is Það var greinilegt vor í lofti á höfuðborgarsvæðinu um liðna helgi þar sem veður var bæði bjart og stillt.

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

Það var greinilegt vor í lofti á höfuðborgarsvæðinu um liðna helgi þar sem veður var bæði bjart og stillt. Fjölmargir nýttu tækifærið og tóku fram grillin að nýju eftir veturinn og starfsfólk bensínstöðva fann vel fyrir því miðað við sölu á gaskútum.

„Það seldist rosalega vel og kláraðist að mestu leyti,“ segir Jón Ingvi Geirsson, verslunarstjóri Olís í Garðabæ, en viðmælandi sem Morgunblaðið ræddi við sagðist hafa verið einn af um 80 viðskiptavinum sem endurnýjuðu gaskútinn á stöðinni síðastliðinn laugardag.

„Það getur passað, salan var í það minnsta mjög mikil,“ segir Jón Ingvi, en stöðin var vart undirbúin fyrir svona góða sölu þar sem nýjar birgðir af gaskútum koma jafnan ekki nema aðra hverja viku yfir vetrartímann og fram undir páska.

Harpa Viðarsdóttir á N1 í Fossvogi tekur í sama streng. „Ég kláraði alla tíu kílóa plastkútana maður!“ segir hún og telur líklegt að um hafi verið að ræða hátt í 20 kúta. Enginn hafi þó þurft frá að hverfa þar sem til hafi verið minni kútar, bæði fimm og níu kílóa. Þá hafi verið augljóst að veðrið hafði góð áhrif á viðskiptavini.

„Nú er sumarið komið, sko. Það er miklu léttara yfir fólki núna,“ segir Harpa.

Bjartsýnin tekur völdin á ný

Einar Long, framkvæmdastjóri Grillbúðarinnar við Smiðjuveg, tók í sama streng og Harpa, um að létt hafi verið yfir fólki í góða veðrinu. „Það er komin smá bjartsýni í fólk eftir þetta volæði á undan,“ segir Einar, en aukinn straumur fólks lá í verslunina um helgina.

„Þetta er að byrja á þessum árstíma og er svona á hverju ári, fólk fer af stað þegar vorar og veðrið batnar. Spáin framundan er mjög góð, það er vor í lofti,“ segir Einar Long.