Sr. Ingiberg Jónas Hannesson, fyrrverandi prófastur og alþingismaður, lést á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík 7. apríl síðastliðinn, 84 ára að aldri. Ingiberg fæddist í Hnífsdal 9.

Sr. Ingiberg Jónas Hannesson, fyrrverandi prófastur og alþingismaður, lést á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík 7. apríl síðastliðinn, 84 ára að aldri.

Ingiberg fæddist í Hnífsdal 9. mars 1935, sonur hjónanna Hannesar Guðjónssonar, sjómanns og verkamanns, og Þorsteinu Guðjónsdóttur, húsmóður og verkakonu.

Ingiberg varð stúdent frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1955 og lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1960. Að loknu guðfræðinámi var hann ráðinn framkvæmdastjóri blaðsins Frjálsrar þjóðar og vann við blaðamennsku á vegum þess um nokkurra mánaða skeið. Hann var vígður sóknarprestur 26. júní 1960 og veitt Staðarhólsþing í Dölum þar sem hann þjónaði í 45 ár; og jafnframt Hvammsprestakalli frá 1970. Hann var settur prófastur í Dalaprófastsdæmi 1969 til 1971 og síðar skipaður prófastur í Snæfellsnes- og Dalaprófastsdæmi 1976-2005.

Ingiberg var varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Vesturlandskjördæmi 1974-1978 og sat sem slíkur á Alþingi um nokkurra mánaða skeið og síðan sem alþingismaður Vesturlands á árunum 1977-1978. Ingiberg starfaði sem fréttaritari Morgunblaðsins frá 1970 til 1994.

Ingiberg gegndi margvíslegum félags- og trúnaðarstörfum. Hann sat í nefndum og ráðum m.a. fyrir sveitarfélagið og kirkjuna; má nefna að hann var formaður barnaverndarnefndar og áfengisvarnarnefndar til fjölda ára. Hann var formaður skólanefndar Laugaskóla í Sælingsdal í 33 ár. Þá var hann formaður Veiðifélagsins Laxins í 30 ár, endurskoðandi Kaupfélags Saurbæinga um árabil og formaður Ungmennafélagsins Stjörnunnar í nokkur ár. Ingiberg sat sem fulltrúi á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1978 og 1984. Fjöldi greina og hugvekja liggur eftir Ingiberg í ýmsum bókum, blöðum og tímaritum.

Eftirlifandi eiginkona Ingibergs er Helga Steinarsdóttir. Börn Ingibergs og Helgu eru Birkir, Þorsteinn Hannes, Bragi Jóhann og Sólrún Helga.

Útför Ingibergs fer fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði mánudaginn 15. apríl kl. 13.