Veiðar Makrílvertíð byrjar líklega í júlí, en kvóti hefur ekki verið ákveðinn.
Veiðar Makrílvertíð byrjar líklega í júlí, en kvóti hefur ekki verið ákveðinn. — Ljósmynd/Þorgeir Baldursson
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Stærð hrygningarstofns makríls hefur verið endurmetin og er hann nú talinn 77% stærri en samkvæmt niðurstöðum Alþjóðahafrannsóknaráðsins í fyrrahaust.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Stærð hrygningarstofns makríls hefur verið endurmetin og er hann nú talinn 77% stærri en samkvæmt niðurstöðum Alþjóðahafrannsóknaráðsins í fyrrahaust. Stofninn er ekki lengur metinn undir varúðarmörkum og því líklegt að ráðgjöf ICES um veiðar þessa árs verði endurskoðuð á næstunni, að sögn Guðmundar J. Óskarssonar, fiskifræðings á Hafrannsóknastofnun, sem sæti á í vinnuhópi ICES. Það gerist þó ekki sjálfkrafa heldur þurfa strandríkin að fara fram á það og hafa fulltrúar þeirra rætt við ICES um þessa stöðu og framhaldið, að sögn Guðmundar.

Hrygningarstofninn er nú metinn vera 4,16 milljón tonn, en í haust var hann metinn um 2,35 milljón tonn að stærð. Þegar ráðgjöfin lá fyrir í fyrrahaust komu fram talsverðar efasemdir um niðurstöður stofnmatsins. Í kjölfarið var ákveðið að fara í saumana á líkaninu á vettvangi ICES.

Guðmundur segir að við nákvæma skoðun á stofnmatslíkani og gögnum sem eru notuð í því hafi verið gerðar úrbætur með þessu endurmati á stærð hrygningarstofnsins. Hann segir að mat á stofnstærð makríls sé viðkvæmt þar sem tímaseríur sem það byggist á séu tiltölulega stuttar.

Umfram ráðgjöf í mörg ár

ICES lagði til síðasta haust að heildaraflinn 2019 færi ekki yfir 318 þúsund tonn. Ráðgjöf ICES fyrir síðasta ár var hins vegar 551 þúsund tonn og var því um að ræða rúmlega 40% samdrátt í tillögum ráðsins um afla. Makrílafli hefur hins vegar í mörg ár verið umfram ráðgjöf, en ekki er samkomulag um stjórnun makrílveiða í NA-Atlantshafi.