Þorbjörn Guðjónsson
Þorbjörn Guðjónsson
Eftir Þorbjörn Guðjónsson: "Nú má spyrja, sé svo að samþykki pakkans breyti engu, hvað rekur okkur þá til að samþykkja hann?"

Hér á eftir fer eitthvað sem ég páraði í nóvember í fyrra. Í ljósi umfjöllunar þessa dagana um þennan orkupakka vil ég með birtingu þessara hugrenninga minna taka undir með þeim sem sem gjalda varhuga við samþykkt pakkans.

Nú rífumst við um orkupakka að ég held númer þrjú. Það sem togast er á um er hvort eða ekki samþykki hans þýði afsal Íslendinga á yfirráðum á orkulindum okkar og/eða stjórn á nýtingu þeirra til ESB. Nú er það svo að öll viljum við annars vegar að núverandi framleiðsla, dreifing og nýting sé í höndum okkar sjálfra og hins vegar að öll viðbót á framleiðslu, dreifingu og nýtingu verði sömuleiðis á okkar vegum en ekki einhverrar yfirstjórnar útlenskra og staðsett utan íslenskra landsteina. Það er víst svo að jarðvarmavirkjanir hafa takmarkaðan líftíma en vatnsaflsvirkjanir nánast endalausa lífdaga. Til samans erum við því að tala um ákveðið mögulegt framboð, sem fer minnkandi efir því sem við göngum á jarðvarmann, sem við höfum í hendi okkar hvenær við viljum virkja. Það er æskilegt að nota nefndar auðlindir annars vegar til að tryggja orku til viðhalds núverandi starfsemi í landinu og afhendingu rafmagns og hita til heimila í landinu á sanngjörnu verði og hins vegar til atvinnusköpunar og aukinna atvinnutækifæra innanlands til lengri tíma litið. Það er í þjóðarsálinni að tryggja landsmönnum í nútíð og framtíð rafmagn á ásættanlegu verði og skila þannig auðlindarentunni til almennings. Allur undirlægjuháttur við erlend yfirráð í verðlagningu innanlands kemur því ekki til greina.

Að vera settur undir ákvarðanir útlenskra í þessum efnum setur að manni aulahroll.

Hvort og hvenær okkur kann að finnast skynsamlegt að tengjast raforkumarkaði á meginlandinu, og þá væntanlega með lagningu kapals, hljótum við að vilja að sé okkar eigin ákvörðun en ekki einhverrar yfirstjórnar á meginlandinu. Það að við neitum að afhenda ákvarðanir um rekstur, nýtingu, tengingu og verðmyndun okkar eigin auðlinda til yfirþjóðlegrar stofnunar hlýtur að teljast eðlileg ákvörðun okkar sem sjálfstæðrar þjóðar.

Nú segja þeir sem fylgjandi eru því að orkupakkinn verði samþykktur að ekki fylgi samþykktinni afsal yfirráða þjóðarinnar yfir auðlindinni né önnur takmörkun og breyting á verðmyndun, rekstri eða aðgangi landsmanna að raforkumarkaðinum. Allar vangaveltur um að hafna pakkanum séu því ekkert annað en hræðsluáróður. Nú má spyrja: sé svo að samþykki pakkans breyti engu hvað rekur okkur þá til að samþykkja hann?

Samþykki pakkans nú væri glapræði þar sem landsmönnum eru ekki ljósir kostir og gallar þess auk þess að ekki verður séð að við séum í kapphlaupi við tímann hvað þetta varðar.

Hvort og hvenær við kjósum að tengjast hinum evrópska orkumarkaði og með hvaða hætti á að vera á okkar könnu, ekki annarra. Slík ákvörðun verður ekki tekin nema að undangenginni kostnaðar- og ábataúttekt (cost benefit analysis), þar sem heildarhagsmunir fremur en einkahagsmunir ráða úrslitum.

Höfundur er cand. oecon.