Synjað Beiðni foreldra Ægis Guðna um greiðsluþátttöku vegna læknismeðferðar hans var hafnað.
Synjað Beiðni foreldra Ægis Guðna um greiðsluþátttöku vegna læknismeðferðar hans var hafnað. — Morgunblaðið/Óskar Pétur
Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.is Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hafði samband við Ragnheiði Sveinþórsdóttur símleiðis í gær í kjölfar umfjöllunar Morgunblaðsins um að Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hefðu synjað beiðni um greiðsluþátttöku í læknismeðferð sem níu ára sonur hennar, Ægir Guðni Sigurðsson, fær vegna fæðingargalla. „Hún vildi fullvissa mig um það að það væri verið að vinna í þessu í ráðuneytinu. Þetta væri vegna stofnanatregðu sem ætti ekki að líðast,“ segir Ragnheiður. Ægir Guðni fæddist með skarð í gómi og vegna synjunarinnar hafa foreldrar hans þurft að greiða meðferðina sjálf.

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hafði samband við Ragnheiði Sveinþórsdóttur símleiðis í gær í kjölfar umfjöllunar Morgunblaðsins um að Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hefðu synjað beiðni um greiðsluþátttöku í læknismeðferð sem níu ára sonur hennar, Ægir Guðni Sigurðsson, fær vegna fæðingargalla. „Hún vildi fullvissa mig um það að það væri verið að vinna í þessu í ráðuneytinu. Þetta væri vegna stofnanatregðu sem ætti ekki að líðast,“ segir Ragnheiður. Ægir Guðni fæddist með skarð í gómi og vegna synjunarinnar hafa foreldrar hans þurft að greiða meðferðina sjálf.

Síðasta haust var reglugerð breytt og stóðu vonir til að sú breyting myndi tryggja að greiðsluþátttaka myndi ná til þeirra barna sem áður ekki nutu slíkrar aðstoðar við meðferðarkostnað. „Svandís sagði að hún hefði látið breyta reglugerð og að hennar vilji hefði komið fram opinberlega,“ segir Ragnheiður og kveðst bjartsýn hvað framhaldið varðar. „Ég var það hins vegar líka þegar reglugerðarbreytingin fór í gegn, þannig að ég er alveg meðvituð um að það er ekkert fast fyrr en að við erum búin að fá samþykki SÍ, en mig langar virkilega að trúa því að núna verði þetta klárað,“ bætir hún við.

Í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins segist SÍ ekki getað tjáð sig um einstök mál einstaklinga sem stofnunin hefur eða hefur haft til meðferðar. Staðan sé þó sú að stofnunin starfi samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og í þeim er kveðið á um með hvaða hætti greiðsluþátttöku skal háttað. „Þar er sérstaklega tekið fram að heimilt sé að taka þátt í þeim ef um er að ræða alvarlegar afleiðingar meðfæddra galla, slysa eða sjúkdóma.“ Bent er á að í reglugerð sé tekið fram að það þurfi að vera meiri líkur en minni á að fæðingargalli valdi alvarlegum afleiðingum.

Innan stofnunarinnar starfi tannlæknir og í slíkum tilvikum séu fengnir til aðstoðar tannréttingarsérfræðing og kjálkaskurðlæknir til þess að meta alvarleika tilvika. Þá séu 85% beiðna um greiðsluþáttöku samþykkt. Sum börn séu með alvarlegan vanda þar sem skarð getur verið alveg í gegnum tanngarðinn, en svo séu önnur börn sem séu að kljást við lítinn hluta örvefs sem hafi engin áhrif á tennur barnsins. „Það er þetta sem sérfræðingar okkar reyna að meta.“