[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
22. umferð Ívar Benediktsson iben@mbl.is Það kom í hlut leikmanna Akureyrar handboltafélags að fylgja Gróttu eftir niður úr Olís-deildinni í handknattleik.

22. umferð

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Það kom í hlut leikmanna Akureyrar handboltafélags að fylgja Gróttu eftir niður úr Olís-deildinni í handknattleik. Þegar á hólminn var komið þá höfðu leikmenn Akureyrar ekki roð við áköfum leikmönnum ÍR í lokaumferðinni á laugardagskvöld. Á sama tíma sýndu Framarar einn sinn besta leik í vetur þegar þeir lögðu ÍBV í Framhúsinu. Þess vegna hefði sigur á ÍR ekki nægt Akureyringum til að halda sæti sínu.

Áður en flautað var til leiks í lokaumferðinni á laugardagskvöld lá fyrir að Haukar væru deildarmeistarar. Mun þetta vera í 11. sinn af síðustu 15 skiptum sem leikið hefur verið um deildarmeistaratitilinn þar sem Haukar hreppa hnossið.

Úrslitakeppnin um Íslandsmeistaratitilinn hefst laugardaginn fyrir páska, 20. apríl. Í átta liða úrslitum eigast við:

Haukar – Stjarnan

Selfoss – ÍR

FH – ÍBV

Valur – Afturelding

Lið KA og Fram eru komin í sumarleyfi frá kappleikjum en væntanlega æfa leikmenn liðanna eitthvað áfram. Sömu sögu er að segja af fallliðunum tveimur en innan raða þeirra verður vafalaust einhver uppstokkun innan leikmannahópanna.

FH-ingurinn Ásbjörn Friðriksson er markakóngur deildarinnar eins sjá má á kortinu hér til hliðar. FH átti síðast markakóng deildarinnar fyrir þremur árum, Einar Rafn Eiðsson.