Rögnvaldur Þorkelsson, byggingarverkfræðingur og framkvæmdastjóri í Reykjavík, fæddist 23. september 1916 á Akureyri. Hann lést 29. mars 2019.

Foreldrar hans voru Þorkell Þorkelsson, Phd., eðlisfræðingur, kennari og forstöðumaður Löggildingarstofu og síðar forstöðumaður Veðurstofu Íslands, f. 6. nóvember 1876 á Frostastöðum í Skagafirði, d. 7. maí 1961, og kona hans Rannveig Einarsdóttir, f. 3. janúar 1890 í Hafnarfirði, d. 1. maí 1962.

Systkini: Gísli verkfræðingur, f. 2. október 1912 á Akureyri, d. 1971, Sigurður verkfræðingur, f. 1. febrúar 1914 á Akureyri, d. 1984, Sigríður snyrtifræðingur, f. 6. júní 1915 á Akureyri, d. 2012, Ingibjörg yfirkennari, f. 20. júlí 1923, Einar verkfræðingur, f. 31. ágúst 1925 í Reykjavík, d. 2013.

Rögnvaldur kvæntist 17. janúar 1948 Ástu Rögnvaldsdóttur, f. 31. janúar 1922 á Akureyri. Foreldrar hennar voru Rögnvaldur Snorrason, kaupmaður og útgerðarmaður á Akureyri, f. 1886, d. 1923, og kona hans Sigríður Sveinsdóttir, f. 11. ágúst 1890 í Nesi í Norðfirði, d. 1. mars 1990. Synir þeirra Ástu og Rögnvaldar eru: 1) Jón Þorkell, f. 1948, bakarameistari og forstjóri, kona hans er Ragnheiður Brynjólfsdóttir, f. 1947. 2) Sturla, f. 1953, d. 2012, bifvélavirki, fyrri kona hans var Sveinbjörg Eyvindsdóttir og seinni kona hans er Auður Viðarsdóttir.

Útförin fer fram frá Seljakirkju í dag, 9. apríl 2019, klukkan 13.

Á kveðjustund vil ég þakka Rögnvaldi tengdaföður mínum samfylgd í meira en 50 ár.

Ég hitti hann fyrst þegar Jón Þorkell kynnti mig fyrir foreldrum sínum árið 1969. Fyrstu kynni voru mér kvíðablandin en eftir því sem samskiptin urðu meiri og kynnin betri hvarf kvíðinn og við tók gagnkvæm virðing.

Röggi, eins og hann var kallaður innan fjölskyldunnar, var athafnamaður mikill og féll sjaldan verk úr hendi. Ég minnist hans við teikniborðið heima í Eikjuvogi að loknum annasömum vinudegi en hann vann þá sem verkfræðingur hjá framkvæmdadeild innkaupastofnunar ríkisins.

Rögnvaldur var mikil náttúruunnandi og notaði frítíma sína til að rækta og hlúa að plöntum sem hann hafði sáð og gróðursett, árangurinn leynir sér ekki í fallegum garði hans við Eikjuvog og sumarbústað þeirra hjóna við Þingvallavatn.

Rögnvaldur byggði sér glæsilegt hús í Eikjuvogi 23, þar var vandað til verks bæði utandyra og innan en Rögnvaldur var hvatamaður í að ganga frá öllu utandyra áður en klárað var inni, það þótti mjög sérstakt á þeim tíma.

Eikjuvogur 23 var griðastaður fjölskyldunnar, þar byrjuðum við Jón Þorkell okkar búskaparár á neðri hæð hússins, Ásta og Rögnvaldur reyndust okkur vel og aldrei bar skugga á okkar samveru, þau voru bæði afskaplega hjálpsöm og góð.

Oftar en ekki var sunnudagssteikin borðuð þar og þau hjónin Ásta og Röggi hjálpuðust að við eldamennskuna en þau voru bæði úrvalskokkar.

Ásta dekkaði borðið með tauservíettum og fallegum blómum sem voru tekin úr garðinum þeirra, við nutum samveru þeirra og þökkum fyrir það.

En lífið er hverfult og 6. janúar 1982 andaðist Ásta langt fyrir aldur fram og var það Rögnvaldi þungbært en hann tók því með æðruleysi.

Árið 2012 kom annað áfall, Rögnvaldur missti son sinn Sturlu aðeins 59 ára gamlan og held ég að Rögnvaldur hafi aldrei jafnað sig á því.

Röggi bar ekki tilfinningar sínar á borð fyrir aðra, hann hafði þær fyrir sig.

Rögnvaldur bjó lengst af ævinni í Eikjuvogi 23 og lét í ljós ósk sína um að fá að vera þar svo lengi sem heilsa leyfði og með hjálp sonar síns Jóns Þorkels sem veitti honum aðstoð og umhyggju við daglegar þarfir gat hann búið þar til 96 ára aldurs.

Síðustu árin dvaldi Röggi í Skógarbæ, þar sem hann naut ástúðar og umhyggju, og viljum við hjónin þakka fyrir það.

Röggi, að leiðarlokum vil ég þakka þér samfylgdina. Ég veit að þú hefur orðið hvíldinni feginn en þú getur verið stoltur af ævistarfi þínu; þú varst mjög góður og vandvirkur verkfræðingur sem aldrei gafst upp þótt stormar blésu á móti. Á góðri stund varst þú hrókur alls fagnaðar með þinn fágaða húmor.

Það er ekki sorg sem fyllir hugann þegar háaldraður maður kveður, það er söknuður blandinn óendanlegu þakklæti fyrir að hafa notið svo langra samvista.

Hvíl í friði. Þín tengdadóttir

Ragnheiður.

Í dag kveð ég Rögga afa. Minningarnar koma upp í hugann þegar ég lít til baka. Sem lítill drengur man ég eftir afa sívinnandi við teikniborðið sitt, nokkrar ferðir fór ég með honum að mæla fyrir möstrum og fleira.

Mér fannst ég vera stór og stoltur af því að geta haldið í málbandið hjá honum og geta hjálpað honum og í mínum huga var hann merkilegur maður.

Ferðirnar voru ekki bara vinnuferðir heldur einnig lærdómur fyrir lítinn dreng þar sem hann sagði mér hvað hin og þessi fjöll hétu.

Rögnvaldur afi minn hafði gaman af því að veiða og fórum við í ýmsar ár og læki með stöngina.

Hvíl í friði, afi minn.

Rögnvaldur

Þorkelsson.