Morgunblaðið þróast en leggur jafnan áherslu á að greina hismið frá kjarnanum

Tæknibreytingar hafa verið hraðar á liðnum árum, ekki síst á sviði fjölmiðlunar sem hefur skilað sér í hraðari og meiri straumi upplýsinga til almennings en nokkurn tímann fyrr í sögunni. Hraðinn er raunar orðinn slíkur og áreitið svo mikið og stöðugt að talið er að þetta kunni að hafa ófyrirsjáanleg áhrif á almenning og hafi þegar haft neikvæð áhrif á andlega heilsu. Þetta eru vonandi skammtímaáhrif sem fjara út eftir því sem fólk lærir að stýra tækninni í stað þess að láta tæknina stýra sér. Þá má einnig vonast til að eftir standi betri og meiri upplýsingar sem gagnist fólki og þar með þjóðfélögum í heild sinni að þroskast og þróast á jákvæðan hátt.

Í öllu þessu umróti er augljóst að þýðing hefðbundinna, vandaðra og ritstýrðra fjölmiðla er síst minni en áður. Segja má að enn brýnna sé en áður, þegar hraðinn var minni, að einhverjir séu til sem taki að sér að greina hismið frá kjarnanum og tryggja eftir fremsta megni að almenningur hafi aðgang að réttum upplýsingum.

Morgunblaðið hefur alla tíð sinnt þessu hlutverki og lagt áherslu á vönduð fréttaskrif og fréttaskýringar auk þess að hafa í ritstjórnargreinum skoðanir á ýmsu því sem rætt er hér á landi og annars staðar. Þá hefur það verið lifandi vettvangur skoðanaskipta og flests þess sem skiptir landsmenn máli, hvort sem það er af alvarlegra tagi eða skemmtiefni og afþreying.

Allt er þetta mikilvægt og verður verkefni Morgunblaðsins hér eftir sem hingað til, en eins og áherslur hafa breyst í gegnum tíðina taka þær breytingum í dag og munu án efa gera það áfram eftir því sem tíminn krefst.

Í blaði dagsins sjá dyggir lesendur þess nokkrar breytingar, ekki stórvægilegar þó, en þróun sem ekki er ólík því sem hefur verið að gerast í löndunum í kringum okkur. Eitt af því er til dæmis að íþróttaefnið er ekki lengur í sérstöku blaði heldur hluti af aðalblaðinu og þá hafa orðið tilfærslur og breytingar á einstökum efnisþáttum.

Með þessum breytingum eykst sveigjanleiki í rekstri og vinnslu blaðsins og betri tök eru á að leggja áherslu á það sem brýnast er hverju sinni. Þetta þýðir að blaðið getur eftir sem áður sinnt mikilvægum umfjöllunarefnum af þeirri yfirsýn og umfangi sem lesendur þess þekkja og kunna vel að meta.

Annað sem nýlega var gert til að bæta rekstur blaðsins er að útgáfufélag þess, Árvakur hf., keypti meirihluta í dreifingarfyrirtækinu Póstmiðstöðinni ehf. sem meðal annars dreifir Fréttablaðinu. Með þessu var, jafnframt því að skjóta styrkari stoðum undir reksturinn, tryggt betur að dreifing til áskrifenda yrði sem öruggust hér eftir sem hingað til. Nú stendur sameining dreifikerfanna yfir og hafa sumir áskrifendur orðið fyrir óþægindum af þeim sökum. Morgunblaðið biðst velvirðingar á því og keppist við að laga hratt og vel þá hnökra sem upp hafa komið.

Hluti af þeim breytingum sem segja má að tíminn krefjist af fjölmiðlum er að nálgast notendur sína á fleiri máta en áður. Í þessu skyni hóf Árvakur snemma að gefa út frétta- og afþreyingarvefinn mbl.is, sem hefur vaxið og dafnað og er fyrir löngu orðinn fastur punktur í tilveru langflestra landsmanna og mest lesni vefur landsins.

Árvakur hefur einnig hafið útvarpsrekstur til að koma efni sínu á framfæri við stærri hóp og hefur K100 vaxið jafnt og þétt frá því að útsendingar hófust á vegum Árvakurs fyrir rúmum tveimur árum.

Þá er áhersla lögð á að koma efni Morgunblaðsins til áskrifenda með fjölbreyttari hætti og margir sem nýta sér aðgang að Mogganum sínum hvenær sem er og hvar sem þeir eru staddir í veröldinni. Þannig hefur blaðið og efni þess verið gert aðgengilegt á snjalltækjum og símum, hluti þess hefur verið gerður aðgengilegur með Hljóðmogganum fyrir þá sem eru á ferðinni eða hafa af öðrum ástæðum ekki aðstæður til að lesa, auk þess sem efnið hefur nýlega verið gert aðgengilegra á mbl.is.

Allt er þetta gert í því skyni að auka þjónustu við áskrifendur og tryggja þeim greiðan aðgang að Morgunblaðinu því eins og áður sagði eru ritstýrðir og vandaðir miðlar á borð við þá sem Árvakur gefur út helsta trygging almennings fyrir því að eiga aðgang að réttum upplýsingum.