Aðilar Glaðir í bragði eftir langa samningalotu.
Aðilar Glaðir í bragði eftir langa samningalotu. — Morgunblaðið/Hari
Ég öfunda aðila vinnumarkaðarins. Ekki fyrir að hafa setið löðursveittir við samningaborðið svo mánuðum skiptir heldur út af nafnbótinni; mér hefur alltaf þótt orðið „aðili“ óheyrilega virðulegt og töff.

Ég öfunda aðila vinnumarkaðarins. Ekki fyrir að hafa setið löðursveittir við samningaborðið svo mánuðum skiptir heldur út af nafnbótinni; mér hefur alltaf þótt orðið „aðili“ óheyrilega virðulegt og töff. Orðið er alls ekki notað nægilega mikið í þjóðmálaumræðunni og ég hefði kosið að sjónvarpsfréttin um undirritun lífskjarasamninganna í liðinni viku hefði hljóðað svo: Aðilar vinnumarkaðarins skrifuðu í kvöld undir kjarasamning með aðkomu aðila stjórnvalda (ríkisstjórnarinnar) í þágu aðila heimilanna (fólksins í landinu) að viðstöddum aðilum fjölmiðlanna (blaða- og fréttamönnum). Fyrir utan syntu aðilar Tjarnarinnar (endurnar) og létu sér fátt um finnast.

Auðveldlega má yfirfæra þetta á eitt og annað í þjóðlífinu. Í stað þess að tala um flugfélögin, eins og mönnum er tamt um þessar mundir, mætti tala um aðila háloftanna. Það gæti svo alveg eins átt við blessaða fuglana sem er mér að meinalausu enda hef ég aldrei í mínu lífi gert greinarmun á mönnum og málleysingjum.

Loks hefur mér alltaf leiðst orðið knattspyrnumaður og myndi taka aðila Íslendingasagnanna á 'etta og hoppa hæð mína í fullum herklæðum næði „aðili fótmenntanna“ að festa sig í sessi í staðinn.

Ef til vill langsótt. Hvað segja aðilar málvísindanna?

Orri Páll Ormarsson

Höf.: Orri Páll Ormarsson