Afmæli Mannfjöldi við stofnun lýðveldis á Þingvöllum 1944.
Afmæli Mannfjöldi við stofnun lýðveldis á Þingvöllum 1944. — Ljósmynd/Úr safni
Á 75 ára afmæli lýðveldisins 17. júní næstkomandi verður haldinn sérstakur þingfundur barna og ungmenna í Alþingishúsinu. Fundurinn verður þegar í kjölfar hefðbundinnar morgunathafnar á Austurvelli.

Á 75 ára afmæli lýðveldisins 17. júní næstkomandi verður haldinn sérstakur þingfundur barna og ungmenna í Alþingishúsinu. Fundurinn verður þegar í kjölfar hefðbundinnar morgunathafnar á Austurvelli.

Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Alþingishúsið verður jafnframt opið almenningi síðdegis þjóðhátíðardaginn, að afloknum þingfundi barna og ungmenna. Till skoðunar er að hafa fleiri lykilstofnanir en Alþingi opnar almenningi þennan dag, svo sem dómstóla og ráðuneyti. Þá hefur einnig verið rætt um að hafa hafrannsóknaskip opið almenningi.

Afmælisins verður einnig minnst með dagskrá á Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar forseta, og í hverjum landshluta.

Hinn 21. desember sl. samþykkti ríkisstjórnin að settur yrði á fót óformlegur vinnuhópur til þess að fjalla um það hvernig þess verði minnst að 17. júní á þessu ári eru 75 ár liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi.

Þar kom fram að tilvalið væri að virkja börn og ungmenni til víðtækrar þátttöku í hátíðarhöldum. Til dæmis mætti efna til fræðslu í skólum sem tengist lýðræði og lýðveldi og fyrirhugað Barnaþing á árinu 2019 gæti að hluta verið helgað sömu málefnum. Söfn landsins gætu efnt til viðburða og sýninga og háskólar verið með dagskrá tengda lýðveldisafmælinu. Með ýmsum hætti mætti einnig virkja íþróttafélög og æskulýðssamtök til að fagna afmælinu.

„Horft er til ýmissa fleiri verkefna með fleiri aðilum sem unnt verður að greina frekar frá á næstu vikum,“ segir í svari forsætisráðuneytisins. gudmundur@mbl.is